sunnudagur, nóvember 13, 2005

Pennavinir

Þegar ég var yngri átti ég allt fullt af pennavinum. Ég var voða dugleg alltaf að skoða Moggann þar sem fólk sendi inn auglýsingar og óskaði eftir pennavinum. Ég átti pennavini frá mörgum löndum og fannst alveg óskaplega gaman að fá bréf og skrifa bréf.
T.d. skrifaðist ég á við strák frá Ghana. Það endaði að vísu snögglega þegar hann sendi mér bónorð í einu bréfanna, hann vildi endilega komast til Íslands og búa hér. Hann heyrði ekki meira frá mér blessaður!

Einhvern tímann var ég búin að skrifa bréf til manns sem var á Litla Hrauni. Hann auglýsti í Mogganum og mér fannst þetta svo forvitnilegt að ég ákvað að skrifa honum. Ég sá það fyrir mér að þegar við færum keyrandi suður gæti ég komið við á Hrauninu og kíkt á hann. Varð frekar svekkt þegar ég rétti mömmu bréfið til að fara með á pósthúsið og hún neitaði því. Skrítið :)

Einn strákur hefur alltaf haldið sambandi, sent mér jólakort, póstkort og e-mail. Hann heitir Rob og er frá Kent í Englandi. Ég hef nú reyndar verið svolítið löt við að svara honum, en eitthvað var mér hugsað til hans um daginn og svo fékk ég póstkort frá honum núna í vikunni. Er búin að ákveða að senda honum mail.
Ekki nóg með það, heldur er annar pennavinur búinn að hafa samband eftir margra ára hlé. Það er hún Nina sem er frá Serbíu. Það er ca. ár síðan að hún sendi mér bréf og ég sendi henni póstkort þar sem ég gaf henni upp mailið mitt. Viti menn, í fyrradag fékk ég mail frá dömunni. Sniðugt hvað fók poppar svona upp allt í einu... og allir í einu.

En svo til að toppa þetta allt saman, þá fann hún
Svanfríður Eygló mig á vafri sínu á netinu!! Við Eygló (eins og ég kallaði hana alltaf :)) kynntumst í sumarbúðum á Eiðum. Ekki man ég nú hvaða ár það var, en allavegna vorum við saman í herbergi ásamt fleirum. Við urðum strax miklar vinkonur og skrifuðumst á (hún er frá Höfn) og ákváðum svo að fara saman á Eiðar ári seinna. Sem og við gerðum og vorum við aftur saman í herbergi :) Svo héldu auðvitað skriftirnar áfram og þegar við fjölskyldan fórum suðurleiðina í borgina var komið við hjá henni. Einu sinni gaf hún mér heilan stafla af Bravo blöðum, sem var nú algjör veisla í mínum augum :) Man líka að hún kom einu sinni í heimsókn til mín. Nú svo slitnaði upp úr pennaskrifunum eins og gengur og gerist, en nú höfum við fundið hvor aðra að nýju eftir margra ára hlé :) Alveg frábært! Alltaf gaman að endurnýja gamlan vinskap... þótt sá vinskapur hafi aðallega verið í gegnum bréfaskriftir.

Annars er helgin búin að vera fín. Við fórum í mat til Unnars Þórs á föstudagskvöldið. Alltaf jafn góður matur hjá honum, humar í forrétt, skötuselur og kjúklingabringur í aðalrétt og súkkulaðiterta með heitum berjum í eftirrétt :) Hann klikkar ekki drengurinn!
Á laugardaginn fór ég til Guðrúnar í prufu málun, þar sem ég er módelið hennar í dagförðun. Mæti svo kl. hálf tíu í fyrramálið upp í skóla til hennar í æfingu. Veit nú ekki alveg hvernig okkur mæðgum mun ganga að þurfa að vakna svona snemma.
Í dag var okkur svo boðið í kaffi í Hafnarfjörðinn til Júlíu Rósar og fjölskyldu. Hermann töfraði fram svaka góða súkkulaðiköku með jarðarberjum og rjóma :) ekki slæmt það! Voða gaman að koma til þeirra eins og alltaf. Fékk nokkrar bækur lánaðar hjá Júlíu sem ég er búin að bíða eftir að lesa, meðal annars Myndin af Pabba, Saga Thelmu.
En jæja ætli það sé ekki best að drífa sig í bólið og byrja að lesa...
Góða nótt.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home