sunnudagur, apríl 09, 2006

Fermingin mín

Nú opnar maður varla blað nema þar sé verið að ræða um fermingar og fólk að rifja upp allt sem viðkom þeirra fermingu. Mér finnst nú alveg makalaust hvað sumir muna hreinlega ekki eftir fermingardeginum sínum og aðrir sem bölva myndunum sem teknar voru á ljósmyndastofu. Ég á bara góðar minningar af mínum degi og fannst allt æðislegt við ferminguna sjálfa. Og ég er enn þeirrar skoðunar og get ekki beðið eftir því að Ingibjörg fermist :) (aðeins 13 ár í það.)

Ég fermdist 1991 heima í Neskaupstað og auðvitað fermdi Svavar mig. (Enda MINN prestur! Hann mun annast allar mínar kirkjulegu athafnir og minna barna, og jarða mig líka ef út í það fer - bara að hafa það á hreinu!!) Ég man að ég ætlaði aldrei að sofna kvöldið fyrir ferminguna og lá og horfði á nýmáluðu veggina í herberginu mínu, og bleiku og svörtu nýju gardínurnar sem mamma setti upp rétt áður en ég fór í rúmið. Mér fannst rosalega hátíðleg athöfnin í kirkjunni og fannst þessi dagur frábær. Veislan auðvitað æðisleg og fékk ég allt fullt af fallegum gjöfum. Allt svo skemmtilegt við þennan dag.

Mér finnst fermingarmyndirnar líka skemmtilegar og finnst ég voða fín :) Ég var með toppinn greiddan upp og svo var hvítum blómum stungið inn á milli, svo var ég með hvítan kamb í annarri hliðinni... gasalega flott semsagt. En ég er ekkert að pirra mig á þessu og bölsótast yfir því hvað ég er í hallærislegum fötum eða hvað hárið á mér var ööömmuurlegt. Svona var bara tískan þá!!

Jæja helgin að verða búin. Heimir búinn að vera vinna alla helgina, var til 8 í gærkvöldi en er sem betur fer væntanlegur á næstu tveimur tímum. Hlakka mikið til Páskanna að geta þá verið saman!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home