miðvikudagur, júní 07, 2006

Myndavél og uppröðun

Já aðeins meira um myndavélar þar sem ég er svo miður mín að hafa tapað minni. En við grófum upp gömlu digital vélina hans Heimis og hún virkar ennþá!! Ég get því myndað barnið og notað þessa svona í hallæri. Pabbi gaf mér mína vél sem við keyptum úti í Þýskalandi, fyrir tveimur árum síðan og keypti sér alveg eins vél. Hann er nú með svo mikla ljósmynda dellu að hann er að hugsa um að fá sér nýja. Finnst afar líklegt að ég erfi hans myndavél. Er því nokkuð sátt... eða eins sátt og ég get verið yfir þessum missi. Ég er því búin að setja inn myndir á Barnalandið sem er búið að taka mig allt kvöldið, djö... getur vefurinn verið hægur!! Held að ég skelli líka inn myndum frá Danmerkurferðinni um helgina því þá fæ ég allar myndirnar á disk frá Hermanni. Hermann, þú verður að muna það!! :)

Það kom fólk að skoða íbúðina í dag. Reyndar búinn að vera rífandi gangur í að sýna hana og búið að koma eitt tilboð sem við reyndar höfnuðum. En allavegna, konan spurði hvort hún mætti kíkja í einn skápinn inni í svefnherbergi og ég hélt það nú! Reif svo sjálf upp nærfata- og sokkaskúffuna mína svo hún sæji hvað skúffurnar væru stórar. Þá rak konan upp óp og sagði: Jiii hvað skúffurnar eru snyrtilegar hjá þér! Ég alveg, Ha? Já þetta er svo skipulega raðað hjá þér! :) Ég fór þá að spá hvernig þetta væri hjá henni. Hvort hún myndi t.d. HENDA sokkunum og nærbuxunum í skúffurnar. Trúi því eiginlega ekki. Af því að skúffurnar hjá mér eru svo stórar og djúpar, þá hef ég vinstra megin sokkana og hægra megin naríurnar. Sokkunum raða ég eftir því hvaða pör ég nota mest og eru í uppáhaldi og nærbuxunum bæði eftir lit, hversdags/spari og tegund. Ætli ég sé eitthvað biluð?! Nei í alvöru... ég gæti bara aldrei HENT sokkunum einhvern veginn ofan í skúffu eða nærbuxunum án þess að brjóta þær saman og flokka þær. Finnst ykkur ég vera skrítin? Heimi finnst ég ekki skrítin. Hvernig er þetta hjá ykkur? Hmmm, þið þurfið ekkert að svara :)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home