þriðjudagur, september 12, 2006

Halló Danmörk

Já nú erum við sko lentar dömurnar. Komum í gærmorgun eftir fínt flug. Alveg snilld að fljúga svona beint frá Egilsstöðum, þvílíkur munur. Ég var að tala um að ég vissi ekki hvar kílóafjöldinn á farangrinum myndi enda... hmmm ég var með 110 kg!! Já já ég er ekkert að grínast. En þeir hleyptu mér nú samt í gegn blessaðir. Verð að segja ykkur það að starfsfólkið þarna á Egilsstaðaflugvelli er yndislegt. Það voru þarna eldri menn sem hjálpuðu mér með allt saman, tóku allt dótið mitt og græjuðu það og báru svo meira að segja handfarangurinn upp á efri hæðina og fylgdu mér til sætis!! Þvílík þjónusta :) Þeir fá sko alveg fullt hús stiga hjá mér.

En já það var notaleg tilfinning að sjá Heimi á flugstöðina. Ingibjörg ljómaði öll þegar hún sá hann og lyfti svo höndunum til að fara til hans og mátti svo ekki mikið af honum sjá í gær :) Við erum hérna hjá Hrafnhildi, búin að gera innrás á heimilið. Við erum reyndar búin að fá íbúðina en dótið okkar er auðvitað ekki komið. Við fórum í Ikea í gær til að skoða og versla smá. Ætlum svo aftur í vikunni og kaupa stóru hlutina. Erum svo bara að spá í að kaupa uppblásna dýnu, svo við getum farið að sofa þarna kannski á föstudaginn. Dótið kemur svo vonandi í næstu viku, eða ætti að gera það.

Við fórum svo í dag og keyptum hjól handa mér :) Það er alveg rollsinn í hjólabransanum :) svart með körfu, alveg rosalega flott! Keyptum svo rauðan hjálm og eins handa Ingibjörgu svo við verðum nú í stíl :) Fáum svo barnastól hjá Hrafnhildi og ætlum svo að kaupa svona vagn aftan í til að verja dömuna fyrir veðri og vindum. Þetta verður spennandi. Fæ hjólið á morgun en þá verður búið að stilla það allt saman.

Við fórum reyndar í smá hjólatúr í gær, ég fékk hjólið hennar Hrafnhildar lánað og guð minn blíðasti, mér stóð bara ekki á sama! Finnst eiginlega að ég þurfi að taka eitthvað próf áður en maður fer hjólandi út í umferðina hérna. Þvílíka hjólamenningin, maður þarf að halda sig á hjólastígunum, passa sig á fólkinu sem kemur úr strætó, og passa sig á hinu og þessu! Þetta er ekki eins og heima þar sem maður sikk sakkar um göturnar :) En maður hlýtur að læra þetta eins og allt annað.

En ætlaði bara rétt að láta vita af mér/okkur. Er að hugsa um að fara og setjast í sólina, búið að vera geggjað veður bæði í gær og í dag.
Sólarkveðja frá Amager :)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home