þriðjudagur, október 24, 2006

24. desember... nei ég meina október :)

Þá er hið daglega amstur hjá okkur byrjað að nýju, Heimir fór í skólann í gær eftir yndislegt vikufrí. Helgin var tekin mjög rólega, ég var að kafna úr kvefi og tókst auðvitað að smita dótturina. Greyið hún ætlaði ekki að geta andað aðfaranótt mánudags. En hún er hin hressasta í dag, með lítið sem ekkert kvef.

Á sunnudeginum tókum við okkur göngutúr um síkið sem er rétt hjá nýja staðnum. Voða fallegt, þar sem trén eru í sínum besta haustbúning. Það verður nice að geta trítlað þangað og fengið sér góðan göngutúr. Annars hringdum við áðan á leiguskrifstofuna til að ath hvort við gætum kannski fengið íbúðina um næstu helgi. En nei það var ekki séns. Óliðlegir þessir baunar!! En ég hef nú ekki gefist upp og ætla því að hringja í húsvörðinn á mánudaginn næsta til að tékka hvort við gætum fengið lykilinn fyrr :) Nú ef ekki, þá stefnum við að því að flytja miðvikudaginn 1. nóv. Leigjum bíl og fáum gott fólk með okkur í þetta svo þá ætti þetta ekki að taka neinn voðalegan tíma.

Þarf sennilega ekki að taka það fram miða við fyrirsögnina, en ætla nú að gera það samt... það eru nákvæmlega 2 mánuðir til jóla!!! Bara að minna ykkur á það :) Nú geta sko allir farið að hlakka til. Annars var ég að plana dagana fyrir jól sem að mamma og pabbi verða hérna. Er að hugsa að 21. des sé tilvalinn í rólegheit og rölt um Tívolí, 22. færum við í dýragarðinn og 23. værum við á Strikinu á jólamörkuðunum og jólaglögginu og svoleiðis skemmtilegheit. Held að þetta sé nokkuð gott plan.

Er hálfnuð með bókina sem ég fékk senda frá Eskifirði :) "Gleymið að þið áttuð dóttur" eftir Söndru Gregory. Rosaleg lífsreynsla, Guð góður, og lýsingarnar úr fangelsinu... Maður skilur ekki að manneskjan skuli yfir höfuð hafa komist lífs úr þessu. Mæli með henni!

Búið að vera rigning hér í allann dag... eða svona eins og þetta er hérna, með nokkrum uppstyttum. Ég hugsa ekki um annað en flutninginn. Er meira að segja farin að dreyma þetta á næturnar líka, hvernig ég ætla að raða inni í íbúðina og annað í þeim dúr :) Verð sennilega búin á því þegar að þessu kemur!

Jæja, það er heimsóknin á vöggustofuna í fyrramálið. Það verður spennandi að vita hvernig allt er, verst að geta ekki borið þetta saman við leikskólana heima og hvernig þar allt virkar. Þetta er jú bara mitt fyrsta barn :) Læt ykkur vita hvernig þetta lítur allt saman út.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home