mánudagur, október 30, 2006

U.S.A.

Búið að breyta klukkunni. Nú er bara einn tími á milli okkar :) Langt síðan ég hef tekið þátt í tímabreytingum, eða síðan árið 1999 í Ameríkunni. Fyndið hvað mér verður oft hugsað til þessa tíma sem ég var þarna. Finnst stundum sumt hér minna mig á minningar sem ég á þaðan. T.d. Helloween. Fannst alveg magnað að fá að upplifa það í Ameríku og það með litlum strákum sem lifðu sig algjörlega inn í þetta. Og hvað þá Thanksgiving!! Í alvöru þá er þetta eins og í sjónvarpinu :) Æði. Líka haustið þarna úti. Það var alltaf einhver spes lykt og hana finn ég stundum hérna. Þá sé ég alveg fyrir mér þegar ég sat með miðstrákinn í öllum laufunum í garðinum og við átum hnetur sem höfðu dottið úr trjánum. Hann var tveggja ára, leit á mig og sagði: Ursula, this is wonderful! Þetta sagði hann á sinni barnslegu bjöguðu ensku. Bræddi mig alveg. Algjör draumur. Reyndar fannst mér alltaf eins og það gæti ekki verið að ég væri í Ameríku þegar ég bjó þar. Hef alltaf haft mikið dálæti á USA og fannst þetta svo óraunverulegt, hugsaði oft... jiii það passar ekki að ég sé stödd hérna. Ég get nú alveg sagt ykkur að ég hef ekki fengið þessa tilfinningu hér. Ekki að mér líki neitt illa, held bara að það sé komin lítil reynsla á þessa búsetu mína.
Það sem mér fannst líka alveg frábært var opnunartíminn í búðum. Ef það var ekki opið allann sólarhringinn þá var allavegna opið til 9. Finnst mikill sjarmi að geta skroppið þegar manni hentar í búðina. Ef mér datt í hug að miðnætti að kíkja í Walmart, nú þá var ekkert því til fyrirstöðu :) þá voru líka fáir á ferli og yfirleitt bara starfsfólk að fylla á hillurnar. Hmmm, hér er ekki einu sinni opið á sunnudögum?!? Hvað er málið?!? Og ef manni vantar eitthvað í matinn þá getur maður fundið verslun sem er opin á sunnud. en þá eru vörurnar líka dýrari!! Er ekki alveg að ná þessu. Sennilega á ég samt eftir að venjast þessu. Held reyndar að danir séu líka bara latir.
En mér er mjög oft hugsað til fjölskyldunnar sem ég var að passa hjá úti, sá yngsti er núna að verða 8 ára! Váá, hann náði ekki að verða ársgamall þegar ég fór. Og sá elsti er 13!! Jeminn. Ég er búin að heita sjálfri mér því að fara aftur til Tulsa til að skoða og rifja upp minningar.

Að öðru. Við hringdum í húsvörðinn að Myggenæsgade 7 í dag. Spurðum hvenær við gætum fengið lykilinn. Hann sagði að við gætum jafnvel fengið hann á morgun!!! Já þannig að þetta er kannski síðasta nóttin hér í holunni, nú ef ekki sú síðasta - þá næstsíðasta :) Við eigum að hringja um hádegi á morgun til að ath. Vona eiginlega að við getum flutt á morgun, það hentar betur. Heimir búinn um hádegi í skólanum, og þá værum við ekki að standa í þessu daginn sem Heiða og Símon koma.

Annars var helgin fín. Við mæðgur vorum nú reyndar að mestu saman þar sem Heimir var að gera tvær eðlisfræðiskýrslur... á dönsku!! Við skelltum okkur í fínann göngutúr á sunnudeginum í kringum vatnið eða síkið (veit eiginlega ekki hvað þetta er) sem er í nýja nágrenninu okkar. Löbbuðum núna allann hringinn, ekki eins og síðast þegar við fórum yfir brúna. Ægilega skemmtilegur staður, greinilega vinsæll útivistarstaður því þarna er allt fullt af fólki bæði að skokka og ganga. Á öllum aldri líka, er ekki frá því að ég hafi nú bara fundið Stebba þorleifs Danmörku :) Maður um áttrætt sem skokkaði allavegna 2 hringi, í hlaupabúning og öllu. Alveg brilljant. Fannst gaman að spá í fatnaðinum hjá fólkinu. Sumir voru í spanndex gallanum alveg frá toppi til táa og másuðu og blásuðu eins og skokkarar eiga að gera. Ætli ég verði ekki komin í hópinn eftir árið :) vel mér þá fallega bleikan og bláan galla og hleyp með Stebba kallinum. Líst vel á planið.

En já, ég hafði ekkert að segja þegar ég byrjaði bloggið en datt svo niður í Ameríku hugsanir :) Gæti haldið áfram að dásema landið, geri það kannski síðar. Á örugglega eftir að dreyma vel í nótt. Læt ykkur vita á morgun hvernig fer með íbúðina.
Góða nótt.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home