10 dagar til jóla
Og fyrsta jólakortið kom til mín í gær. Það var frá Guðrúnu Sigríði og ég reif það strax upp!! :) Sennilega mun ég aldrei geta beðið með þetta fram á aðfangadagskvöld, eins og ég hugsa alltaf um hver jól. Svo fékk Ingibjörg líka pakka sendan frá Reykjavík. Reif hann ekki upp. Hefði samt mjög líklega gert það hefði Heimir ekki verið heima, og pakkað honum svo inn aftur því hann hefði orðið brjálaður!! Einhvern veginn spennist ég öll upp þegar ég fæ pakka í hendurnar. Þetta er bara eins og einhver fíkn. Ingibjörg náði sér í einn jólapakka áðan og rúntaði með hann um gólfin. Ég ákvað að leyfa henni það í þeirri góðu von að hún myndi rífa hann upp, eða allavegna rífa smá gat á hann, en nei það gerði hún ekki. Skoðaði skrautið bara vel og vandlega og hélt áfram að ýta honum á undan sér. Held að það sé bara ágætt að mamma og pabbi koma með flesta pakkana með sér. Þetta eru bara stanslausar freistingar annars. Þá er líka bara hægt að setja þá beint niður í geymslu, verð samt að sjá þá áður.
Ég er alveg að missa mig í jólasveinamálunum... að gefa í skóinn. Jólasveinninum á þessum bæ finnst mjög gaman að velja og kaupa það sem daman á að fá. Svo bíð ég alveg spennt á morgnanna að fara með hana að jólasokknum og sýna henni :) Í morgun ískraði í henni af spenningi þegar við nálguðumst sokkinn og varð hún voða glöð með það sem hún veiddi uppúr honum. Þetta er sko bara gaman :)
Sex dagar í mömmu og pabba. Já tíminn líður sko. Ég er farin að hlakka alveg óskaplega til að fá þau. Held að þetta verði bara hin fínustu jól. Ásta og fjölskylda að koma og veit ég að það verður skötuveisla hjá þeim á þorláksmessu, jólaboðið á Jóladag, fullt af fólki og nóg um að vera. Mér gefst kannski ekki mikill tími til að vera að velta mér upp úr "ef við værum heima núna þá" :) Enda verður það líka bara næstu jól!
Ég gjörsamlega hreinsaði út úr fataskápnum hennar Ingibjargar um daginn. Setti allt niður í kassa sem er orðið of lítið og henti samfellum og öðru sem var komið með einhverja fasta bletti. Mjög gott.
Á DR1 er verið að sýna Dawsons Creek og ég get ekki annað en hugsað um Tom Cruise. Finnst frekar skrítið að þau Kate Holmes skuli vera gift. Hvað ætli hún sé að hugsa manneskjan? Mér finnst hún eitthvað svo mikið barn, finnst hún svo sæt, og hélt beinlínis að hún væri ekki rugluð. Hvað ætli þetta hjónaband eigi eftir að endast lengi?
Ætlum að fara á eftir og kaupa gas í nýja fína gasgrillið okkar sem við fengum í jólagjöf. Svo á að elda nýrindis nautasteik með öllu tilheyrandi. Jiii hvað það verður gott. Jammí!
Það eru 8 prósent líkur á hvítum jólum hér í Köben.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home