Annar í aðventu
Annað kertið sem við kveikjum á heitir Betlehemskertið, og heitir eftir fæðingarbæ Jesús.
Jæja allt fínt að frétta héðan. Ég fór í klippingu í gær og ég lét sko aldeilis klippa mig! Hef ekki verið með svona stutt hár í mörg ár! Það er bara við axlir! Er ekkert að grínast. Og ég hef líka aldrei verið svona dökkhærð... svei mér þá, veit ekki hvað er að koma yfir mig. En það er nú bara gaman að fá smá breytingu, en þetta var erfið ákvörðun, sérstaklega fyrir jafn vanafastar manneskjur eins og mig :) En hárið vex víst aftur, það er eitt sem víst er.
Við fórum öll út að borða í gærkvöldi á Hereford. Svakalega fínt og góður maturinn. Fékk mér aftur sniglana í forrétt, en þá prufaði ég þegar við vorum hérna í sumar með Júlíu Rós og Hermanni. Sviku sko ekki... svo var auðvitað steik og að lokum ís með marineruðum ávöxtum, bara gott. Var veeeel södd. Best að reyna að stækka magann þar sem ég sé fram á svona mat þær tvær vikur sem mamma og pabbi verða hérna, Guð hjálpi mér.
Og talandi um mat. Uppskriftin af fylltu kjúklingabringunum, ég fékk hana hjá Júlíu Dröfn (hverri annarri?! :)) og má sko með sanni segja að við kylliféllum fyrir þessu. Vessegú Þórey og Sigrún :)
-- Vasi er skorinn í bringurnar og þær smurðar með smurosti með sólþurrkuðum tómötum, pestói (okkur finnst rauða pestóið betra en græna) og svo er settur fetaostur í olíu ofan í vasann og bringunum lokað. Ég smyr svo bringurnar alltaf aðeins með pestói ofan á og set nokkra fetaostabita ofan á. Sett inn í ofn og bakað þangað til tilbúið.
Fyrsti jólasveinninn er væntanlegur á morgun, hlakka mikið til. Veit að Stekkjastaur ætlar að koma við hér á Myggenæsgade, ohh það verður gaman.
Ég er búin með öll jólakortin, kláraði þau í dag. Ætla því að nota næstu viku til að hreingera íbúðina, taka alla skápa í gegn og endurraða og skipuleggja betur í fataskápunum okkar og Ingibjargar. Reyndar er Ingibjörg búin að taka þvílíka vaxtarkippinn núna undanfarið að hún er vaxin upp úr helmingnum af fötunum. Svei mér þá. Ég þarf að fara yfir fötin hennar og pakka niður því sem er orðið of lítið. Það verður gaman að vita hvort maður eignist aðra stelpu til að geta notað fötin aftur :)
Segjum þetta gott í bili. Góða nótt.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home