föstudagur, janúar 19, 2007

Hálka og pungar

Gullkorn gærdagsins var í sambandi við að detta. Mér dettur alltaf sama sagan í hug þegar verið er að tala um dettusögur af fólki, og reyndar má ég bara ekki sjá orðið detta þá hugsa ég alltaf um þetta atvik :)

Þegar fór að hlána þá rann alltaf vatn niður Víðimýrina og yfir Mýrargötuna og þarna skapaðist þvílíka hálkan. (Og svoleiðis er það örugglega ennþá.) Maður reyndi alltaf að ná í ljósastaurinn og hugsaði svo út bestu leiðina svo maður myndi nú ekki detta. En allavegna þá var það einn vetrardaginn sem við Ingvar Már (Konn) vorum samferða heim úr skólanum. Eitthvað vorum við nú bara að kjafta þegar við fórum yfir þennan stórhættulega kafla og áður en ég veit af liggur Ingvar allt í einu kylliflatur í götunni. Ég ætlaði gjörsamlega að míga niður úr hlátri, en hafði þó vit á því að athuga hvort hann hefði nokkuð meitt sig áður en ég missti mig. Ingvar hló nú bara líka, staulaðist á fætur, allur rennandi blautur, tekur tvö skref og... dettur aftur!! Ég ætla ekki að segja ykkur hvað við hlógum, það endaði á því að ég settist í götuna og emjaði. Við stauluðumst svo heim á leið, ekki þurr þráður á Ingvari og ég hálf emjandi af hlátri.

Ég á aldrei eftir að gleyma þessu og hlæ alltaf jafn mikið þegar ég hugsa um þetta eða segi frá þessu :) þeir sem þekkja Ingvar geta örugglega ekki annað en hlegið og hvað þá ef þeir sjá þetta í anda. Hann er líka svo fyndinn! Þyrfti að rifja þetta upp næst þegar ég hitti hann :)

Þá eru svefnmálin á heimilinu loksins að komast í réttar skorður. Fór auðvitað allt uppeldi og annað fyrir bí um jólin. En nú er þetta komið, hún er sett inn, lesin bók, beðnar bænir og góða nótt! Skulum vona að þetta haldist svona.

Bóndadagurinn í dag, sem þýðir að þorrinn er byrjaður. Væri alveg til í nokkra súra punga, lundabagga og súra lifrapylsu núna. Óskaplega finnst mér þetta góður matur. Langar á þorrablót. Til lukku með daginn kæru bændur. Minn bóndi fékk sitt.

Mikið eru annars Ally McBeal þættirnir skemmtilegir, hún er bara svo horuð greyið Miss Ford.

En það er víst komin helgi. Við ætluðum í dýragarðinn en það er víst spáð vitlausu veðri hér á morgun og sunnudag og snjókomu eftir helgi! Sjáum til hvernig það fer. Góða helgi öllsömul.

- Gullkorn dagsins:
Að lifa kátur lífs er mátinn bestur.
Þó að bjáti eitthvað á
úr því hlátur gera má.
(Skagfirskur húsgangur)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home