þriðjudagur, júlí 31, 2007

Flutt!!

Já ég er flutt... gat loksins tekið ákvörðun :)

http://manda.blog.is/blog/manda/

miðvikudagur, júlí 25, 2007

Grey's og fleira

Jæja
þá er ég búin að horfa á alla Grey’s þættina og ég get alveg sagt ykkur að ég get ekki beðið eftir næstu seríu!! Guð minn eini hvað þetta eru geggjaðir þættir. Hef bara sjaldan vitað annað eins.

Annars höfum við skötuhjú verið dugleg við að taka okkur DVD, þegar við erum svona ein í kotinu :) Erum búin að taka meira á einum mánuði en í 3 ár!! Samt eru þetta ekki nema 4 myndir... Horfðum nú síðast á Music and Lyrics. Alveg að gera sig sú mynd. Hugh Grant er auðvitað bara fyndinn og hann fer alveg á kostum í þessari mynd :) Ég hljóðaði bókstaflega úr hlátri.

Júlía Rós er að koma austur með krakkana á laugardaginn. Hlakka mikið til að sjá þau. Það verður afmæli á Eskifirði á sunnudeginum og svo ætlum við bara tvær út að borða í vikunni :) það verður ljúft. Verst samt að geta ekki farið á Ítalíu, en það er aldrei að vita nema við skellum okkur bara þangað í ágúst. Hver veit.

Heiða og Símon koma svo á mánudaginn með litla prinsinn sinn. Hlakka óskaplega til að sjá hann og þau auðvitað líka. Þau verða svo alveg fram í ágúst og það á að skíra prinsinn hérna.

Ingibjörg er komin heim og auðvitað mamma og pabbi líka. Gott að vera búin að fá hana til sín þó að við höfum gott af smá aðskilnaði. Líka ágætt að æfa sig aðeins í aðskilnaðinum þar sem ég fer ein suður í heila sex daga! Fyndið að ef ég sé hana ekki á hverjum degi, þá finnst mér hún svo svakalega stór eitthvað þegar ég sé hana :) En hún er auðvitað enginn hvítvoðungur lengur, blessað barnið að verða 2ja ára eftir ekki mánuð!!

Jæja E.R. að byrja.

- Gullkorn dagsins:
Ein hugsun getur burtrýmt öllum efa,
eitt orð í tíma vakið sál af blundi,
einn dropi líknar Drottins frelsað heiminn.
(Valdimar Briem)

þriðjudagur, júlí 24, 2007

Lægð!

það er aldeilis lægðin yfir manni hérna. Ég er reyndar komin með mikla leið á síðunni minni, útlitinu og er alltaf að spá í að breyta. Er samt ekki að nenna að fara t.d. yfir í Mbl bloggið og læra inn á það allt. Finnst það eitthvað svo flókið. Er að hugsa um að fá Heimi frekar í að breyta þessari síðu eitthvað. Hann nennir því að vísu ekki núna... svo ef ég er löt að blogga þá er það honum að kenna! :)

Við erum auðvitað búin að hafa það ofur gott. Erum búin að vera dugleg að vera uppi í bústað, enda alveg yndislegur staður. Mamma og pabbi eru núna með Ingibjörgu með sér, en hún elskar sko sveitalífið. Þau fóru á sunnudaginn svo ég get eiginlega ekki beðið eftir að knúsa hana, finnst þetta svolítið langur tími!

Ég get nú ekki hrópað húrra fyrir sumrinu hérna fyrir austan. Bara eiginleg ekki sko! Finnst ekkert sumar hafa verið síðan við komum 15. júní. Jújú komið ágætis dagar, en ekkert sumar samt. Engir almennilega heitir dagar eða neitt!! Bara fúlt. Get samt huggað mig við að í Köben hefur bara verið rigning :) Vona að haustið verður ljúft þar og að blíðan taki á móti okkur.

Já við erum búin að panta flugið út. Tökum síðasta flug frá Egilsstöðum til Köben, þann 31. ágúst. Fínt að taka þetta aftur svona í beinu flugi. Þvílíkur munur! Gæfi mikið fyrir beint flug fyrir jólin!!

En ég fer suður 19. ágúst og verð í viku. Staðlota í náminu. Amma og afi ætla að koma með mér og ætlum við keyrandi. Ég keyri semsagt... veit ekki hvenær við kæmum til Reykjavíkur ef afi keyrði :) Við fengum íbúð í Ljósheimunum svo þetta verður bara fínt. Hlakka til að koma suður og hitta vinina. Við Sigurlaug ætlum að gera okkur glaðan dag í búðunum og þetta helsta sem við gerum saman, eins og að borða :) Svo kíki ég í Vogana til Júlíu og co en þau voru að flytja þangað og hlakka ég mikið til að skoða húsið.

Skal reyna að vera duglegri að blogga!

- Gullkorn dagsins:
Maðurinn er eina skepnan sem getur roðnað – og hefur ástæðu til þess
(Mark Twain)

fimmtudagur, júlí 05, 2007

Jamm og já

Var að ræða við hjúkkurnar í vinnunni í gær, um Grey’s Anatomy. Í ljós kom að ég er ekki búin að sjá alla síðustu seríu! OMG!! Síðasti þáttur sem ég sá var þegar O’Malley mundi eftir því að hafa sofið hjá Izzy, og það er ekkert síðasti þátturinn í seríunni! Jeminn einasti! Júlía Rós ætlar að bjarga þessum málum fyrir mig og brenna restina af seríunni í einum grænum og senda mér! Guði sé lof að því sé reddað :)

Kláraði Flugdrekahlauparann í gær. þessi bók skilur mikið eftir sig og þeir sem ekki hafa lesið hana, LESIÐ! Ég er endalaust með hugann við hana, enda er þetta bara meistarastykki. Næst á dagskrá er Predikarinn, Elma lánaði mér hana. Hún sagðist ekki hafa getað lagt hana frá sér, svo ég er spennt að byrja.

Það verður aftur farið í bústaðinn þessa helgi. Mamma og pabbi eru farin með Ingibjörgu og við skötuhjú komum svo á morgun. Það á að reyna að klára eitthvað í pallasmíðinni og svo auðvitað að hafa það gott :) prjóna og lesa.

Hafið það gott yfir helgina, passið ykkur í umferðinni og verið góð hvert við annað.

- Gullkorn dagsins:
Musteri Guðs eru hjörtun sem trúa
þótt hafi þau ei yfir höfði þak.
(Einar Benediktsson)

sunnudagur, júlí 01, 2007

Lítið í fréttum

Þá erum við búin að vera hér heima í rúmar 2 vikur. Alveg finnst mér það yndislegt. Við fórum upp í bústað um helgina. Heimir flaug suður á föstudagskvöld svo við mægðurnar ákváðum að gista eina nótt. Draumur einn. Veðrið var alveg yndislegt á laugardeginum og var Ingibjörg úti allann daginn að sulla í vatni og leika sér :)

Er búin að borga staðfestingargjaldið fyrir skólann. Finnst svo ótrúlegt að ég hafi komist inn, er eiginlega ekki að trúa því. En ég þarf því að fara suður 20. ágúst til 24. til að setjast á skólabekk. Hlakka bara til þess :)

Fór í klippingu í vikunni og er með styttra hár en um jólin!! Þetta var mjög djarft hjá mér :) Hárið bara við axlir og það merkilegasta er að ég er sátt við þessa breytingu.

Annars bara mest lítið í fréttum :)

mánudagur, júní 25, 2007

I'm IN :)

"Þér er boðið að hefja nám í grunnskólakennarafræði í fjarnámi..."!!! Þarf ég að segja eitthvað meira? :) Já ég komst sem sagt inn og er alveg í skýjunum. Var svo viss um að ég myndi ekki komast inn, svo ég er mjög ánægð! Var alveg með í maganum þegar ég opnaði bréfið en hoppaði svo hæð mína þegar ég las þessi fyrstu orð :) YES!!!!!!! Það verður spennandi að vita hvernig mér á eftir að líka þetta, og líka hvort ég fúnkeri í svona fjarnámi, það kemur í ljós. ÉG ER BARA SVO GLÖÐ AÐ HAFA KOMIST INN!!! :) :)

Við leigðum okkur mynd á laugardagskvöldið en það höfum við ekki gert í ég veit ekki hvað langan tíma. Við erum að tala um meira en ár sko! Tókum Blood Diamond með Leonardo Di Caprio. Jiii hvað hún er góð. Mæli eindregið með henni. Og b.t.w. Leonardo er bara flottur! Sei sei.

Er að lesa Flugdrekahlauparann. Hef ekki verið í neinu lestrar stuði undanfarið en er dottin í gírinn aftur. Svo á ég enn eftir að lesa alla Tvíbura bókina, en ég hætti í miðju kafi. Elma gaf mér þá bók í afmælisgjöf en ég fékk að skipta þar sem ég átti hana og valdi mér Þrettánda sagan. Spennandi að vita hvernig hún er. Langar líka að lesa Aldingarðinn... J.R. nenniru að kippa henni með austur?

Jamm, þá eru þið búin að fá update af bókamálum :) Og svo auðvitað aðalfréttina með skólann. Ohhh ég er svo glöð... "Ég er uppí skýjunum, og ég svíf, ekkert amar að... varla hægt að hugsa sér betra líf, bærilegri stað.... ó nei..." Elska þetta lag, elska Sálina :)

Klipping á morgun eftir vinnu, hlakka til!

- Gullkorn dagsins:
Þá fyrst er við gerum okkur grein fyrir hlutverki okkar - þó að það sé fremur lítilfjörlegt - verðum við hamingjusöm. Þá fyrst getum við lifað og dáið í friði. Því að það sem gefur lífinu gildi gefur einnig dauðanum gildi.
(Anton de Saint-Exupéry)

sunnudagur, júní 24, 2007

Ísland, fagra Ísland

Ég ætla nú að byrja á því að þakka ykkur öllum fyrir afmæliskveðjurnar kæru vinir. Gaman að því :)

Annars gekk ferðalagið til Íslands vel, Ingibjörg svaf og svo var algjör draumur að lenda bara á Egilsstöðum. Þvílíkur munur að geta flogið svona beint. Maður er bara kominn heim! Vonandi fara þeir að bjóða upp á flug á veturnar líka. Það væri nú bara toppurinn, eitt flug í viku eða svo. Mamma og pabbi biðu á vellinum og svo var brunað í bústaðinn þar sem teknir voru upp afmælispakkar :) Ég fékk t.d. geggjaða hvíta skó frá Júlíu Rós og Hermanni og einna best finnst mér að Hermann valdi þá á mig! Hitti alveg naglann á höfuðið þar :)

En ég er semsagt búin að vera að vinna í viku. Búin að vera í þjálfun á þessum tveimur stöðum sem ég er að fara að leysa af, ásamt einum degi í móttöku. Ég byrja svo á morgun uppi á deild, þar sem ég verð að skrifa inn og útskrifa sjúklinga, kalla í aðgerðir og fleira í þeim dúr. Þar verð ég í þrjár vikur, leysi svo innkaupastjóra stofnunarinnar af í fjórar vikur, og fer svo aftur upp á deild í tvær vikur. Semsagt mikið stuð :)

Heimir kom á þriðjudag og byrjaði í álverinu á fimmtudeginum. Lítil reynsla á það komið því hann er bara mest búinn að vera á námskeiðum, en honum leist bara vel á sig. Er í skrifstofu húsnæði inni á svæðinu með einhverjum mönnum.

Af Ingibjörgu er allt fínt að frétta. Hún var yfir sig ánægð í bústaðnum og vildi bara vera úti með afa sínum að brasast. Mamma fer í sumarfrí eftir næstu viku og verður þá alveg með hana, en við erum búin að fá stelpu sem verður með hana frá 10-12 á morgnanna. Það er búið að vera svolítið púsl með þessar tvær vikur, en ekkert vandamál. Amma og afi hafa verið með hana og einnig Brynja. Og það er sko ekki leiðinlegt hjá Brynju, hún eltir Írisi alveg á röndum og svo eru auðvitað bæði hundur og köttur á heimilinu eins og er :) bara stuð semsagt.

Jæja búin að gefa smá update síðan við komum til landsins. Skal reyna að vera dugleg hér við tölvuna, það er bara svo gott að taka sér smá pásu :)