sunnudagur, júní 25, 2006

Lasarus

Nú er Ingibjörg orðin lasin. Greyið litla. Þó gott að hún hefur aldrei orðin lasin og er nú orðin 10 mánaða+. En hún varð lasin á föstudag, í gær var hún með 40 stiga hita og í dag 39. Fer semsagt lækkandi og vonandi verður hún hress á morgun. Okkur sýnist að augntennurnar séu að koma niður þannig að það er spurning hvort þessi hiti fylgji þeim, því það er ekkert annað að nema hitinn. Hún er samt svo góð þessi elska þó hún sé voða lítil í sér.

Í gær fór ég nú loksins í klippingu til Sigrúnar. Jeminn ekki veitti af. Ég er gasalega fín, lét hana dekkja hárið og taka svolítið af því. Bara ný manneskja :) Þar sem klippingin tekur yfirleitt 3-4 tíma, þá skutlaðist ég heim í fínu fötin og hélt svo af stað í útskriftarveislurnar. Feðginin voru því bara heima meðan móðirin át á sig gat :) Ég byrjaði hjá Heiðu minni, fór svo til Ástu Sigrúnar, fór heim í klukkutíma og kom Ingibjörgu í háttinn og endaði veisluhringinn hjá Sunnu Björg. Æðislega gaman allt saman, en það hefði verið ennþá skemmtilegra hefði Ingibjörg ekki verið lasin og við öll getað farið. En stelpur mínar enn og aftur til hamingju með að vera búnar!! Júlía Rós útskrifaðist líka á föstudeginum sem verkefnastjóri frá HÍ. Til hamingju elskan.

Í dag erum við semsagt bara búin að vera heima að reyna að pakka. Heimir búinn að vera duglegur í sínu dóti sem ég kem ekki nálægt, og ég búin að vera í brothætta dótinu. Reyndar svolítið erfitt þegar Ingibjörg er svona lasin, hún unir sér nú ekki lengi ein og vill helst bara vera hjá manni.

En jæja, ég er að hugsa um að pakka aðeins meira fyrir svefninn. Bið ykkur vel að lifa.

fimmtudagur, júní 22, 2006

Ekki minn dagur

Þetta er ekki alveg búinn að vera dagur okkar mæðgnanna í dag. Ingibjörg byrjaði morguninn á því að æla yfir sjálfa sig og stólinn. Það var lítið við því að gera en að rífa hana úr kjólnum og skella öllu í þvottavélina. Ég byrjaði þó á því að setja fötin í bleyti inni í þvottahúsi og það gekk ekki betur en svo að kraninn datt af og það flæddi vatn um allt þvottahús. Ekki búið enn... þegar við komum í Smáralindina var hægt að vinda töskuna mína því pelinn hafði lekið og það var mjólk út um allt!! Ojbarasta! Og síminn minn er ónýtur!! Jájá. Ég er nú samt búin að finna nýjan sem mig langar í, best að vita samt hvað Heimir segir áður en ég kaupi hann :) En Guði sé lof þá er þessi dagur að kveldi kominn og Ingibjörg er farin að sofa. Efa að það geti eitthvað meira farið úrskeiðis í kvöld, enda allt er þegar þrennt er :)

En við erum búnar að vera á eilífum þvælingi bæði í gær og í dag. Útrétta út um allann bæ og reyna að klára eitthvað fyrir brottför. Keypti afmælisgjöfina hennar Ingibjargar, fór í Partýbúðina og keypti fyrir afmælið hennar, keypti útskriftargjafir og fleiri afmælisgjafir og ég veit ekki hvað og hvað. Sótti svo hringana í Smáralindina í dag og keypti síðustu útskriftargjöfina. Var ágætlega dugleg að pakka í gær, en guð minn við ætlum að afhenda á föstudaginn eftir viku! Þarf að vera dugleg á morgun.

Fór með Ingibjörgu í 10 mánaða skoðun í dag. Hún er orðin 72,5 cm og 8,2 kg. Hún er reyndar ekki búin að þyngjast nema um 100 gr. síðan síðast enda er hún ferlega löt að borða. Finnst samt eins og hún sé eitthvað aðeins að koma til núna.

Heimir fór aftur austur í dag, sem betur fer náðist að klára dæmið þannig að hann kemur heim í kvöld!! :)

Mikið asskoti er nú Jói Fel klár!! Ég get bara endalaust horft á hann vera að matbúa eitthvað. Það er svo flott hvernig hann gerir allt. Ég sver það... svo ég tali nú ekki um snyrtimennskuna :) Mér finnst hann samt vera eins og útblásin blaðra núna. Hann er eitthvað búinn að tútna út síðan í síðustu þáttaröð.

Það var jólaþáttur í Melrose í kvöld. Ohh það fór alveg um mig að heyra jólalögin, verð alltaf hálf klökk. Jiii hvað ég hlakka til jólanna. Tel reyndar afar líklegt að við verðum í Danmörku þessi jól. Ekkert frí hjá Heimi þessa önnina nema bara yfir hátíðardagana. En það hlýtur að verða fínt bara, mamma og pabbi koma og þá reddast allt :) Finnst samt skrítin tilhugsun að vera ekki heima um jólin. Hef bara einu sinni verið í burtu um jólin og þá fórum við til Þýskalands. Mjög gaman, en ég fann nú samt fyrir heimþrá á aðfangadag. Ætli það séu ekki hefðirnar, maður er alltaf vanur að gera það sama ár eftir ár. Yrði samt að gera eitthvað í sambandi við skreytingarnar, taka danir þær ekki svo snemma niður? Held að þær standi ekki einu sinni yfir áramót? Eða er ég að rugla? Veit það allavegna að mínar skreytingar munu standa fram yfir Þrettándann og hananú!! Hmmm er strax farin að plana jólaljósin og það er ekki eins og við séum komin með íbúð!! En við skulum nú vona að hún verði komin fyrir jól :)

Jæja, voða romsa varð þetta hjá mér. Ætla að vera heima á morgun og pakka. Aðþrengdar næst á dagskrá.

mánudagur, júní 19, 2006

Grasekkja

Já er ein og verð ein (fyrir utan Ingibjörgu auðvitað) þangað til á morgun. Heimir var sendur austur í skipið frá Færeyjum og nær ekki fluginu í kvöld svo hann fer heim í Gauksmýrina. Finnst þetta nú hálfgert svindl og ég hefði orðið brjáluð ef ég væri ekki sjálf að fara austur eftir tvær vikur :) Eins gott. Ingibjörg er sofnuð, ég borðaði pítu og er núna að horfa á Grey's anatomy og drekka En öl :) Ætla ekki að pakka í kvöld (það er ekki eins og ég hafi verið að gera það í dag heldur) bara að horfa á tv og prjóna. Finnst það fínt plan. Já ég keypti mér sko fyrstu seríuna af Grey's anatomy á vellinum. Ætla að horfa á hana fyrir austan. Elska þessa þætti.

Við erum búin að ákveða að skila íbúðinni föstud. 30. júní og keyra þá af stað austur og sofa kannski á Klaustri eða þar í nágrenninu. Heimir flýgur svo suður á mánudegi og kemur svo austur 15. júlí. Reyndar fer þetta svolítið eftir þessari aðgerð sem ég þarf að fara í. Fæ að vita það á morgun hvenær ég fer. Efa að það verði í næstu viku svo ég yrði bara að fljúga suður í hana. Þoli ekki svona vesen og óvissu! En þessu fer nú öllu bráðum að ljúka.

Er ég ein um að finnast auglýsingin frá Orkuveitunni leiðinleg? Almáttugur, hvað er málið? Það er allt hallærislegt við hana, söngurinn, leikurinn, dansinn og bara ALLT. Bara glötuð!


En já, hafið það gott í kvöld.

sunnudagur, júní 18, 2006

10 mánaða

Er frökenin í dag :) Jiii hún verður 1 árs eftir tvo mánuði. Alveg er þetta ótrúlegt. Erum að hugsa um að halda upp á afmælið hennar um verslunarmannahelgina, því Heimir verður farinn út á sjálfan afmælisdaginn. Þarf því að fara í Partýbúðina áður en við förum austur og finna þema fyrir afmælið :) allt í stíl og mjög sennilega bleikt (kemur á óvart :)).

Við ætluðum að nota daginn í dag til að pakka. Við erum hinsvegar ekki búin að gera handtak í þeim málum. Guð hvað ég nenni þessu ekki. Þórey talaði um að leigja sér þjón og þá datt mér í hug hvort ég gæti ekki bara leigt mannskap til að pakka öllu niður. Nefndi þetta við Heimi, og hann benti mér á að sennilega tæki það mig styttri tíma að pakka öllu sjálf, því það tæki mig óratíma að ætla að skipa mannskapnum fyrir og stjórna því hvar hlutirnir ættu að fara! Held að þetta sé rétt hjá honum :) En við verðum bara að taka okkur á og vera dugleg í vikunni.

Við kíktum auðvitað í bæinn í gær. Mér finnst alltaf svo gaman og mikil stemming að rölta um bæinn þegar það er svona mikið um að vera. Maður hittir alltaf fullt af fólki og sér svo auðvitað þekkt andlit inn á milli, sem mér finnst nú ansi merkilegt :)

Jæja ég er syfjuð... ætla í sturtu og svo í bælið að lesa. Er enn á Önnu, Hönnu og Jóhönnu, gengur eitthvað hægt en mér finnst hún samt góð. Hlakka til að byrja á bókinni sem Júlía og þau gáfu mér í afmælisgjöf, Mamma eftir Vigdísi Hjorth.
Góða nótt.

föstudagur, júní 16, 2006

Góða helgi

Hef lítið annað að segja í þessu skíta veðri!! Ojbara. En mig langar nú voða mikið niður í bæ á morgun, þannig að ég ætla rétt að vona að það verði betra veður en í dag. Annars verður maður bara að galla sig upp, samt ekkert gaman að standa úti í grenjandi rigningu og roki.

Erum að horfa á síðustu þættina af Prison Break, gátum ekki beðið lengur eftir þáttunum í sjónvarpinu. Jeminn eini hvað þeir eru spennandi!

Hafið það gott yfir helgina og gleðilegan þjóðhátíðadag.

fimmtudagur, júní 15, 2006

Pabba afmæli

Já þá á pabbi afmæli í dag. Munaði ekki nema 4 tímum á að hann fengi mig í 25 ára afmælisgjöf árið 1977. Finnst nú samt bara ágætt að eiga minn dag og hann sinn, þó hitt hefði ekkert verið leiðinlegt :) Næsta ár verðum við því 30 og 55, og var planið að fara í sólarlandaferð saman, við öll ekki bara ég og pabbi :) Héldum veislu þegar við vorum 25 og 50, en ég hugsa að ég haldi nú kannski smá teiti á næsta ári. Spurning hvort þið verðið þá bara að koma til Köben :)

En mikið óskaplega finnst mér nú gaman að eiga afmæli. Ég sver það, langar helst að ganga með spjald framan á mér svo að sem flestir viti það :) elska að fá pakka og kveðjur, sama í hvaða formi þær berast. Fékk meira að segja sms frá Krít, frá Draupni Rúnari, en við klikkum aldrei á því að óska hvort öðru til hamingju. Svoleiðis á það að vera. Mér finnst líka stórmerkilegt að hitta fólk sem á sama afmælisdag og ég.

Dagurinn í dag er búinn að vera algjör letidagur. Ingibjörg sofnaði aftur í morgun þannig að við sváfum til 10. Lufsuðumst þá á fætur en vorum farnar aftur upp í rúm hálf tvö og sváfum til 3!! Jájá bara leti. En ég var nú dugleg eftir svefninn og fór í gegnum allt dótið í skeinknum (guð minn, er þetta skrifað svona... skeinkur, skenkur?) og pakkaði því dóti niður. Er að reyna að vera dugleg að henda (hehemmm) og svo að pakka ekki niður einhverju sem ég veit að við munum aldrei koma til með að nota... sem er svolítið erfitt.

Jiii hvað mér finnst nýja umferðastofu auglýsingin eitthvað scary. Mér bregður alltaf svo hryllilega þegar griðingin sprettur upp... allt svo friðsælt, grænt túnið, fuglasöngur og svo bara allt í einu... Svolítið svona Lost stíll á henni.

Já Þórey það væri mér líkt að prjóna bekkjatuskur :) Hef meira að segja dottið það í hug, en ekki fundið nógu fallega. Spurning hvort ég verði ekki að fá uppskriftina hjá mömmu þinni og prófa.

Desperat is on.

miðvikudagur, júní 14, 2006

AFMÆLI

Ég á afmæli í dag!! Orðin árinu eldri, semsagt 29. TUTTUGUOGNÍU ÁRA!! Ekkert lítill aldur það.
Ætla að eiga náðugan dag, ein með dóttur minni. Aldrei að vita nema að við bregðum okkur í Kringluna í þessu leiðinda veðri, og ég eyði eitthvað af þessum pening sem ég fékk í afmælisgjöf. Það verður svo grillað í kvöld og koma Heiða og Símon í mat.

Hafið það gott á deginum mínum :)

þriðjudagur, júní 13, 2006

Passamyndir

Konan sem er að kaupa íbúðina af okkur er alveg frábær. Hún hringdi í mig í dag og spurði hvort hún mætti koma, hana langaði svo að sjá íbúðina í sól :) Þegar hún mætti sagði hún mér að hún hafði farið inn á Íslendingabók og séð þar að Heimir væri nú bara nokkuð mikið skyldur henni, en ég hinsvegar ekki. Óskaði mér svo til hamingju með daginn á morgun, ég ætti nefnilega sama afmælisdag og barnabarnið hennar :) Frekar skondin. En hún er að hugsa um að kaupa af mér þurrkarann, gott mál. Býst nú alveg við að hún mæti aftur, kannski dobbla ég hana bara til að hjálpa mér að pakka niður.

Reyndar er það nú rétt hjá Júlíu Rós að það fær enginn annar en ég að raða ofan í kassana. Allavegna afar fáum sem ég treysti í það dæmi. Mömmu og Heiðu treysti ég fullkomlega, og hugsanlega myndi ég alveg treysta þér Júlía :) T.d. pakkaði Heiða öllu eldhúsinu niður fyrir mig í fyrra. Held að hún hafi vafið hverjum einasta hlut í bóluplast þannig að það hefði verið óhætt að senda þetta fjallabaksleið hringinn í kringum landið. Ætla að fá hana aftur til að hjálpa mér með eldhúsið núna í ár. Maður verður að halda henni í æfingu :)

Hringdi í ljósmyndastofu áðan til að ath með passamyndir í vegabréf. Þarf að endurnýja minn og svo þarf Ingibjörg auðvitað passa. Maðurinn sagði mér að nú væri búið að taka vegabréfspassamyndir af þeim og maður yrði að fara til Sýslumanns. Jahérna. Mig sem langaði svo að fá svona pro myndir í passann hennar Ingibjargar. En þær þurfa nú ekkert endilega að vera slæmar hjá Sýslumanni. Fer hinsvegar ekki fyrr en þegar ég verð búin í klippingu! Skulum hafa það á hreinu!!


Prison.

mánudagur, júní 12, 2006

Kassar

Það eru komnir kassar í hús. Nú er bara að byrja að pakka. Ég byrjaði reyndar aðeins í dag, fór í gegnum alla geisladiska og byrjaði á bókunum. Ætla nú að skilja flesta diskana eftir, eitthvað á ég inni á tölvunni og svo tek ég með þá allra skemmtilegustu... semsagt Sálina :)

Senn líður að afmælinu svo ég bauð Júlíu Rós og fjölskyldu í afmæliskaffi á laugardeginum. Mikið gaman. Heiða og Símon koma svo í mat á sjálfan afmælisdaginn. Annars finnst mér ég vera orðin ansi dugleg, veit ekki hvort þetta þýði að ég sé að verða fullorðin. Málið er að ég er búin að fá 4 afmælispakka og hef setið á mér að rífa þá upp!! Fyrsta pakkann fékk ég þegar Líana kom um miðjan maí og svo hef ég bara sett hina pakkana hjá honum. Var nú reyndar næstum því búin að taka upp pakkann sem ég fékk á laugardaginn en Júlía náði að telja mig af því. Held samt að ég muni aldrei geta geymt að taka upp jólakortin!! Get það bara ekki. Talandi um jól, þá veit ég ekki hvort við verðum í Danaveldinu eða heima í Nesk. yfir jólin. Í Reykjavík verð ég allavegna ekki! Mig langar auðvitað heim, en það væri nú kannski allt í lagi að vera í Danmörku. Mamma og pabbi kæmu auðvitað pottþétt, en þá yrðu amma og afi ein. O jæja, ætla ekki að fara að velta mér upp úr þessu alveg strax...

Fórum á sunnudeginum í Smáralindina. Ætluðum í bæinn því það var nú einu sinni Sjómannadagur, en guð góður við vorum ekki að nenna því í rigningunni. Fann mér gasalega fína afmælisgjöf frá Heimi og varpaði hann öndinni léttar :) Fórum líka með hringana í minnkun og svo var auðvitað keypt bók handa Ingibjörgu.

Ingibjörg er að fá 7. og 8. tennurnar núna. Við hliðina á neðri framtönnunum. Ætli barnið verði ekki bara fulltennt á ársafmælinu sínu :) Hún verður allavegna örugglega ekki farin að labba þá... er nú ekkert að flýta sér í þeim efnunum.

Pantaði mér tíma í klippingu hjá Sigrúnu, laugardaginn 24. júní. Hárið á mér er nú þegar orðið ansi skrautlegt þannig að ég veit ekki hvernig ég ætla að meika það að bíða í næstum því tvær vikur. Úff úff.

Styttist í Lost.

föstudagur, júní 09, 2006

Í dag

Dagurinn í dag er búinn að vera ljúfur. Yndislegt veður, hlýtt og gott þannig að við mæðgur tókum okkur fínan göngutúr. Ingibjörgu finnst fátt skemmtilegra eins og að sitja uppi í vagninum og fylgjast með lífinu.

Unnar Þór kom í grill í kvöld. Aldeilis gaman að sjá hann, sjáum hann ekki mikið þessa dagana þar sem hann er á sjó í Eyjum. Hann bauð okkur íbúðina sína til að vera í eftir að við afhentum, sem er auðvitað bara frábært. Ætli það verði samt ekki bara Heimir sem verður í íbúðinni þar sem við verðum líklega farnar austur. Hann verður að vinna til 14. júlí og kemur svo.
Erum búin að selja sófann okkar, lazy boyinn og stofuborðið. Jú Unnar kaupir það :) Yndislegur. Mikið á ég eftir að sakna lazy boysins, hann er algjör draumur. Spurning hvort maður auglýsir restina inni á Kassi.is.

Senn líður að 29 afmælisdeginum og á morgun ætla Júlía Rós og fjölsk að koma í kaffi í tilefni þess. Að vísu eru einhver veikindi á litla kút, svo það er spurning hverjir mæta, hvort það verði bara mæðgurnar.
Á sunnudaginn er svo stefnan tekin niður í bæ í tilefni Sjómannadagsins.
Góða helgi gott fólk.
SELD

Já takk fyrir við erum búin að selja íbúðina!! :) Íhhaaa! Hlutirnir ekki lengi að gerast. Var að koma heim frá því að skrifa undir kauptilboðið, og í næstu viku er svo kaupsamningur. Jeminn eini ég er svo glöð :) Fólkið bað um að fá íbúðina sem fyrst, þannig að við ætlum bara að spýta í lófana og afhenta 1. júlí! Jájá ekkert að vera að hangsa neitt við þetta. Nú erum við bara að spá hvað við eigum að gera við dótið okkar. Hvort við ættum hreinlega að reyna að selja mest allt eða setja í gám, en það er samt svolítið erfitt því við erum ekki búin að fá húsnæði úti og vitum ekkert hversu stór sú íbúð verður. Það væri því afar hentugt að fá íbúð úti bara núna :) það myndi leysa ýmislegt. Ég get allavegna farið að skoða og pakka því dóti sem á að fara heim í geymslu.
Það styttist því í að við mæðgur förum austur, VEI :)

Ég bara varð að segja ykkur þessa STÓR frétt :)

miðvikudagur, júní 07, 2006

Myndavél og uppröðun

Já aðeins meira um myndavélar þar sem ég er svo miður mín að hafa tapað minni. En við grófum upp gömlu digital vélina hans Heimis og hún virkar ennþá!! Ég get því myndað barnið og notað þessa svona í hallæri. Pabbi gaf mér mína vél sem við keyptum úti í Þýskalandi, fyrir tveimur árum síðan og keypti sér alveg eins vél. Hann er nú með svo mikla ljósmynda dellu að hann er að hugsa um að fá sér nýja. Finnst afar líklegt að ég erfi hans myndavél. Er því nokkuð sátt... eða eins sátt og ég get verið yfir þessum missi. Ég er því búin að setja inn myndir á Barnalandið sem er búið að taka mig allt kvöldið, djö... getur vefurinn verið hægur!! Held að ég skelli líka inn myndum frá Danmerkurferðinni um helgina því þá fæ ég allar myndirnar á disk frá Hermanni. Hermann, þú verður að muna það!! :)

Það kom fólk að skoða íbúðina í dag. Reyndar búinn að vera rífandi gangur í að sýna hana og búið að koma eitt tilboð sem við reyndar höfnuðum. En allavegna, konan spurði hvort hún mætti kíkja í einn skápinn inni í svefnherbergi og ég hélt það nú! Reif svo sjálf upp nærfata- og sokkaskúffuna mína svo hún sæji hvað skúffurnar væru stórar. Þá rak konan upp óp og sagði: Jiii hvað skúffurnar eru snyrtilegar hjá þér! Ég alveg, Ha? Já þetta er svo skipulega raðað hjá þér! :) Ég fór þá að spá hvernig þetta væri hjá henni. Hvort hún myndi t.d. HENDA sokkunum og nærbuxunum í skúffurnar. Trúi því eiginlega ekki. Af því að skúffurnar hjá mér eru svo stórar og djúpar, þá hef ég vinstra megin sokkana og hægra megin naríurnar. Sokkunum raða ég eftir því hvaða pör ég nota mest og eru í uppáhaldi og nærbuxunum bæði eftir lit, hversdags/spari og tegund. Ætli ég sé eitthvað biluð?! Nei í alvöru... ég gæti bara aldrei HENT sokkunum einhvern veginn ofan í skúffu eða nærbuxunum án þess að brjóta þær saman og flokka þær. Finnst ykkur ég vera skrítin? Heimi finnst ég ekki skrítin. Hvernig er þetta hjá ykkur? Hmmm, þið þurfið ekkert að svara :)

þriðjudagur, júní 06, 2006

06.06.06

Rosalega voru tónleikarnir flottir hjá Bubba. Finnst hann samt eitthvað hálf spastískur í hreyfingum og á bágt með að horfa á hann þegar hann er að hoppa. En lögin hans og textar eru magnaðir, það verður bara að segjast.

Myndavélin er glötuð!! Ég gæti grátið. Hún er ekki hjá Hrafnhildi, ekki hjá Júlíu Rós og Hermanni, ekki í leigubílnum sem við tókum út á völl og ekki í flugvélinni!! Get ekki ímyndað mér hvar ég hef glatað henni. Ohhh... en það er þá ekkert annað í stöðunni en að kaupa nýja. Ekki er hægt að vera myndavélalaus með lítið barn.

Við mæðgur lögðum okkur í tvo tíma í dag. Það er sjálfsagt ástæðan fyrir því að ég get ekki sofnað núna. En þetta er svo notalegt og svo gott að sofna með Ingibjörgu þétt upp við sig, haldandi utan um hálsinn á manni. En ég ætla að fara upp í rúm og lesa, og reyna að sofna.

mánudagur, júní 05, 2006

Danmerkurferðin

Jæja þá erum við komin heim eftir alveg hreint frábæra ferð. Má eiginlega segja að ég er alveg yfir mig hrifin af borginni og er jafnvel, tek fram jafnvel, orðin svolítið spennt að flytja út :) Ætla bara rétt að vona að við fáum almennilega íbúð, ekki eins og þessa sem við vorum í. Samgöngurnar þarna eru alveg frábærar, hjól, Metro og Bus. Hlakka mikið til að fá mér hjól með körfu og stól fyrir Ingibjörgu, og svo ætlum við auðvitað að kaupa svona "hlífðar"vagn fyrir hana :) Jiii þetta verður stuð. Gerðum heil ósköpin öll á þessum fáu dögum, skoðuðum skólann hans Heimis, fórum í bátsferð um síkin, fórum á Strikið og í Fields, í Tívolíið, fórum auðvitað til Hrafnhildar og fjölskyldu og í mat þangað, fórum út að borða og svo mætti lengi telja. En það sem stendur upp úr ferðinni er laugardagskvöldið. Eftir að hafa borðað á okkur gat á Hereford röltum við upp Strikið, kíktum á pöbb og svo um miðnætti skellti Heimir sér á skeljarnar á miðju Ráðhústorginu! :) Já já. Átti ekki til eitt aukatekið orð hvernig honum tókst að leyna mig þessu og hvað þá að hafa tekist að fela hringana fyrir mér! Skil það reyndar ekki enn! :)

En það er því ekkert nema gott um þessa ferð að segja nema hvað ég virðist hafa týnt myndavélinni! Eini staðurinn sem ég á eftir að ath með er flugvélin. Ætla rétt að vona að hún sé þar! Myndirnar eru þó ekki glataðar því Hermann var búinn að hlaða þeim inn á tölvuna þeirra, thank God!

Næst á dagskrá hjá okkur ferðafélögunum er ferð til London. Bara ekki komin tímasetning :) og svo koma þau auðvitað til okkar til Köben.

Hrafnhildi tókst allavegna ætlunarverk sitt og það er að ég er orðin ástfangin af Kaupmannahöfn!! Þakka þér Hrafnhildur! Og þar hafi þið það :)