laugardagur, desember 30, 2006

Næstsíðasti dagur ársins

alveg að renna sitt skeið og í gær tók frökenin á bænum heil 10 skref í einu!! :) Og það náðist upp á video :) Mikil kátína hjá fjölskyldunni. Hún er alveg æst í að labba þessa dagana með því að láta leiða sig og er aðal sportið að fara fram á gang, labba upp og niður tröppurnar og fara svo í lyftuna. Mikið stuð. Nú hlýtur þetta að fara að koma hjá henni, en það er sama tuggan... hún er bara svo varkár :)

Það er mikið búið að vera að gera hjá okkur síðustu daga. Við erum búin að fara í Tivolí, í dýragarðinn og göngutúra svo eitthvað sé nefnt, og í dag fórum við mamma bara tvær í Fields og gleymdum okkur þar í fjóra tíma. Í fyrrakvöld fórum við skötuhjú tvö út að borða og í bíó á nýju Bond myndina. Verð nú að segja að myndin er bara þrælgóð. Bjóst ekki við miklu þar sem ég er nú ekki mikill Bond aðdáandi. Finnst þeir alltaf svo glataðir eitthvað og bara leiðinlegar myndir. En þessi var góð. Mads var auðvitað bara flottur og mér líst vel á Daniel Craig í þessu hlutverki. Reyndar var Bond gellan að þessu sinni frekar glötuð og ekkert varið í hana. En nóg um Bond...

Heimir minn á afmæli á morgun. Það á því að halda smá afmælisveislu og bjóða systrum hans og fjölskyldu í kaffi. Það verður svo tvíréttað hjá okkur annaðkvöld, endur og hamborgarahryggur. Hlakka til :)

Ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og þakka samfylgdina á árinu sem er að líða. Gangið hægt um gleðinnar dyr og passið ykkur á rakettunum.

þriðjudagur, desember 26, 2006

Notalegheit

Þetta eru aldeilis búin að vera ljúf jól. Aðfangadagskvöld var æðislegt og hreindýrið algjört lostæti. Ég var búin að spá því að Ingibjörg myndi taka upp 2-4 gjafir eða svo og þá væri gamanið búið, nei mín sat sko og opnaði hvern pakkann á fætur öðrum :) og hafði sko gaman að. Það var frábært að fylgjast með henni. Þúsund þakkir fyrir okkur :)

Í gær var svo jólaboðið. Þar var mikið stuð, fullt af fólki og þvílíkur veislumatur. Dagurinn í dag er svo búinn að vera dagur letinnar í bókstaflegri merkingu. Við afrekuðum þó að fara í eins og hálftíma göngu sem var mjög hressandi.

En eins og ég var búin að segja fékk ég bæði Arnald og Yrsu í jólagjöf. Byrjaði á Yrsu og hún lofar góðu. Bíð svo spennt eftir því að kíkja á Arnald.

Á morgun er svo stefnan tekin á jólativolí. Loksins :)

sunnudagur, desember 24, 2006

Aðfangadagur og 4 í aðventu

Já það er sko kominn aðfangadagur hér í Danmörku sem og annarsstaðar. Og nú kveikjum við líka á fjórða kertinu sem er Englakertið. Minnir okkur á englana sem fluttu fréttina um fæðingu frelsarans.

Þetta er búinn að vera góður dagur. Möndlugrauturinn var borðaður í hádeginu og var það sko ÉG sem fékk möndluna :) það var samt ekki svindlað eins og fyrstu 14 árin mín, mandlan var ekki sett í diskinn minn! Vann þetta sko alveg fair.

Það er orðið mjög jólalegt hjá okkur, pakkarnir komnir undir tréð og ég er búin að hafa Bylgjuna í gangi í allann dag, svo íslensku jólalögin eru búin að hljóma í eyrum okkar í dag. Alveg yndislegt.

Mamma er búin að gera eftirréttinn, pabbi er að gera forréttinn og svo er Heimir að fara að undirbúa sig í aðalréttinn, hreindýrið. Ég mun svo sennilega vera í meðlætinu og dúllast í kringum þau.

Elsku vinir nær og fjær, ég óska ykkur gleðilegra jóla. Hafið það gott yfir hátíðina.

Jólakveðja frá Myggenæsgade 7,
Ykkar Úrsúla Manda

laugardagur, desember 23, 2006

Ætla bara rétt að láta vita af mér. Klukkan alveg að fara að slá í aðfangadag. Búið að vera nóg að gera eftir að mamma og pabbi komu til okkar, alveg yndislegt auðvitað. Erum búin að bralla fullt og hafa það gott. Fara á Strikið og niður í Nýhöfn, í Fields, baka smákökur og margt fleira. Í kvöld var svo skötuveisla hjá Hrafnhildi og Viðari, þar voru Ásta Sigrún og fjölskylda og fleiri. Mjög gaman.

Ætlum að hafa það náðugt á morgun, rétt að kíkja á Hrafnhildi og skila af okkur pökkum.

Bið að heilsa ykkur í bili.

þriðjudagur, desember 19, 2006

The Torn birds

Muni þið eftir Þyrnifuglunum? Þeir voru sýndir heima í kringum 198ogeitthvað. Richard Chamberlain lék séra Rhalp sem varð ástfanginn af stúlkunni Meggie. Á þessa þætti horfðum við mamma alltaf á og svo í seinni tíð höfum við fengið þá lánaða hjá einni sem hefur átt þá á spólum. Alveg eru þetta dýrðlegir þættir :) Jæja en það sem ég ætlaði að segja ykkur er að ég er búin að finna þá á DVD!! :) Jájá þeir eru til í Super Brugsen! Ég er bara ekki frá því að ég verði að kaupa þá! Væri ekki leiðinlegt að rifja upp kynnin við þau Ralph og Meggie um jólin.

Aðeins sólarhringur í foreldrana!! Jiii hvað ég er orðin spennt. Og Heimir er kominn í jólafrí. Eitthvað verður hann nú samt að læra í fríinu því prófið er 10. janúar.

Talaði við Heiðu mína í kvöld. Já við erum semsagt komin með heimanúmer. Það var bara eins og hún væri í næsta húsi :) Gaman. Svo hringdi Rut frænka í mig í dag og í kvöld talaði ég bæði við Elmu og Nönnu á Skypinu! Það er því búið að vera nóg að gera hjá mér í málæðinu í dag :)

Jæja, segjum þetta gott í kvöld.
Góða nótt.

sunnudagur, desember 17, 2006

Þriðji í aðventu

Þriðja kertið er Hirðakertið, nefnt eftir hirðingjunum sem fyrstir fengu fregnir um fæðingu frelsarans.

Já spáið í því, aðeins 1 vika til jóla!! Mér finnst alltaf svo gaman þegar 4 í aðventu lendir á aðfangadegi. Finnst það svo rosalega hátíðlegt. Svo styttist aldeilis í mömmu og pabba, aðeins 3 dagar! Pabbi ætlaði að athuga það á morgun hvað þau mættu vera með mikinn farangur, semsagt kílóafjöldinn. Held eiginlega að þau verði bara að taka nærbuxur til skiptanna og kaupa sér svo föt hérna úti, svona miðað við farangurinn sem kominn er. Held að það sé full taska og rúmleg það bara pakkar! Þá er jólasteikin (hreindýrið) eftir og fiskurinn og, og, og... þetta verður fróðlegt hjá þeim.

Fórum í heimsókn til Hrafnhildar og co í dag. Þar var ein lítil skotta sem er 14 mánaða og hleypur um allt!! :) Ferlega fyndið. Hún er líka eitthvað svo lítil og mikill kubbur að það var alveg með ólíkindum að sjá hana á ferðinni :) og hún fer ekkert hægt, neinei hún alveg æðir áfram. Ingibjörgu fannst þetta nú ekkert merkilegt og elti hana bara um skríðandi á sínum fjórum! Svei mér þá... markmiðið var að um jólin yrði hún farin að labba, en ég held að ég sé nú bara farin að færa það til Páskanna! Þá hlýt ég að vera nokkuð seif :)

Feðginin fara í jólaklippinguna á morgun. Ætli við skreppum svo ekki smá rúnt á Strikinu áður en Heimir fer í skólann. Alveg upplagt :)

Er orðin hálf stjörf af syfju hérna... bið Guð að geyma ykkur og dreymi ykkur vel.

laugardagur, desember 16, 2006

Jólatré í stofu stendur

Erum búin að skella upp jólatrénu, setja seríuna á og smá skraut. Verð samt að kaupa fleiri kúlur, hugsa rauðar og silfraðar þetta árið. Ekki svart eins og er í tísku! Dettur það bara ekki í hug, finnst það guðlast! Svart jólaskraut... hnuss!

Fékk sendar myndir úr jólasnjónum heima. Jiii hvað það er jólalegt í Mýrunum. Elma ég legg inn eina pöntun... langar í mynd af Gauksmýri 4 :) Ohh það væri notalegt að vera að fara heim í snjóinn. Það er allt annað upp á teningnum hér í Köben, hér er bara vorstemming, 10 stiga hiti og ljúft veður. Reyndar hefur ekki komið snjór hér í vetur síðan 1. nóvember þegar Heiða og Símon komu. Og þá bara smá föl.
Annars erum við að spá í að koma heim um Páskana. Við Ingibjörg kannski í mars einhvern tímann og Heimir svo þegar hann fengi frí. En það kemur allt í ljós. Ætli það verði hægt að fljúga beint til Egilsstaða? Þarf að kanna það.

Keypti í dag ramma fyrir brúðkaupsmyndina af Júlíu Rós og Hermanni. Þau taka sig vel út í silfur ramma. Nú er bara að bíða eftir myndinni af Heiðu og Símoni, og þá verður þeim stillt upp hlið við hlið uppi á hillu.

Erum að horfa á fréttirnar. Allt að verða vitlaust upp á Norrebro út af lokun Ungdómshússins. Götubardagi og alles. Ussuss. Hér á Bryggjunni ríkir hinsvegar friður og ætla ég að fara að koma mér í háttinn, þó fyrr hefði verið. Góða nótt.

föstudagur, desember 15, 2006

Tönn um tennur

Fyrsta augntönnin hjá Ingibjörgu leit dagsins ljós í gær. Hún er í efri góm og er hin alveg að koma líka. Pirringurinn er líka alveg eftir því, greyið skinnið. Í neðri góm sér maður líka móta fyrir hvítu alveg við holdið. Þetta er því allt koma. Þá eru bara öftustu jaxlarnir eftir þegar augntennurnar eru komnar.

Fyrsta myndajólakortið kom í dag. Lítill herramaður að nafni Helgi Gnýr prýðir kortið. Einstaklega fagurt barn. Elska að fá myndir. Sérstaklega ef maður sér börnin ekki reglulega, þá er gaman að geta fylgst með þeim svona og sjá breytingarnar sem verða á þeim.

Keyptum jólatréð í dag. Fyrsta jólatréð okkar :) Svakalega flott. Keyptum líka þennan fína jólatrésfót. Það er reyndar úti á svölum en það verður sett upp á morgun. Hlakka mikið til.

Annars sitjum við hér og gæðum okkur á eplaskífum. Dýfi þeim á kaf í rifsberjahlaupið hennar mömmu og svo auðvitað flórsykur. Mikið rosalega eru þær góðar. Legg samt ekki í að baka þær eins og ég veit að sumar ætluðu að gera.

Er enn að velta bloggbreytingunum fyrir mér. Þori því samt varla þó mig dauðlangi til þess. Gæti samt alveg prófað og skipt svo bara aftur yfir í hitt. Þarf aðeins að melta þetta lengur. Heiða, langar þig ekkert að prófa að skipta yfir í þetta blogg?! :) Slóðin á þig virkar ekki einu sinni á síðunni minni!! Gengur ekki!!

Góða helgi öllsömul.

fimmtudagur, desember 14, 2006

Heimilisfang

Já Þóra Matthildur bað um heimilisfangið og ákvað ég bara að skella því hérna inn. Það er því engin afsökun að skrifa ekki jólakort til okkar!! Nú svo getið þið líka kíkt í heimsókn :)

Myggenæsgade 7, 5-2
2300 Köbenhavn S

Hef mikið verið að pæla í að skipta um bloggstað. Finnst allir vera komnir á mbl bloggið, blog.is dæmið. Veit samt ekki, það væri nú samt bara gaman að breyta aðeins til. Ég hef bara einu sinni breytt bloggsíðunni minni á einhverjum fjórum árum held ég!! Og það gerði Heimir fyrir mig þegar ég var ólétt. En ætli þetta sé eitthvað flókið? Hvað segi þið sem notið þetta?

Búin að vígja fína Weber grillið okkar og maturinn var sko æði. Heimir rumdi í öðrum hverjum bita og það veit á gott :) Gerði lystasósuna hans pabba, piparosta-sveppasósuna. Getur ekki klikkað!!

Jahérna, tvö blogg á einum degi... ussuss :)

10 dagar til jóla

Og fyrsta jólakortið kom til mín í gær. Það var frá Guðrúnu Sigríði og ég reif það strax upp!! :) Sennilega mun ég aldrei geta beðið með þetta fram á aðfangadagskvöld, eins og ég hugsa alltaf um hver jól. Svo fékk Ingibjörg líka pakka sendan frá Reykjavík. Reif hann ekki upp. Hefði samt mjög líklega gert það hefði Heimir ekki verið heima, og pakkað honum svo inn aftur því hann hefði orðið brjálaður!! Einhvern veginn spennist ég öll upp þegar ég fæ pakka í hendurnar. Þetta er bara eins og einhver fíkn. Ingibjörg náði sér í einn jólapakka áðan og rúntaði með hann um gólfin. Ég ákvað að leyfa henni það í þeirri góðu von að hún myndi rífa hann upp, eða allavegna rífa smá gat á hann, en nei það gerði hún ekki. Skoðaði skrautið bara vel og vandlega og hélt áfram að ýta honum á undan sér. Held að það sé bara ágætt að mamma og pabbi koma með flesta pakkana með sér. Þetta eru bara stanslausar freistingar annars. Þá er líka bara hægt að setja þá beint niður í geymslu, verð samt að sjá þá áður.

Ég er alveg að missa mig í jólasveinamálunum... að gefa í skóinn. Jólasveinninum á þessum bæ finnst mjög gaman að velja og kaupa það sem daman á að fá. Svo bíð ég alveg spennt á morgnanna að fara með hana að jólasokknum og sýna henni :) Í morgun ískraði í henni af spenningi þegar við nálguðumst sokkinn og varð hún voða glöð með það sem hún veiddi uppúr honum. Þetta er sko bara gaman :)

Sex dagar í mömmu og pabba. Já tíminn líður sko. Ég er farin að hlakka alveg óskaplega til að fá þau. Held að þetta verði bara hin fínustu jól. Ásta og fjölskylda að koma og veit ég að það verður skötuveisla hjá þeim á þorláksmessu, jólaboðið á Jóladag, fullt af fólki og nóg um að vera. Mér gefst kannski ekki mikill tími til að vera að velta mér upp úr "ef við værum heima núna þá" :) Enda verður það líka bara næstu jól!

Ég gjörsamlega hreinsaði út úr fataskápnum hennar Ingibjargar um daginn. Setti allt niður í kassa sem er orðið of lítið og henti samfellum og öðru sem var komið með einhverja fasta bletti. Mjög gott.

Á DR1 er verið að sýna Dawsons Creek og ég get ekki annað en hugsað um Tom Cruise. Finnst frekar skrítið að þau Kate Holmes skuli vera gift. Hvað ætli hún sé að hugsa manneskjan? Mér finnst hún eitthvað svo mikið barn, finnst hún svo sæt, og hélt beinlínis að hún væri ekki rugluð. Hvað ætli þetta hjónaband eigi eftir að endast lengi?

Ætlum að fara á eftir og kaupa gas í nýja fína gasgrillið okkar sem við fengum í jólagjöf. Svo á að elda nýrindis nautasteik með öllu tilheyrandi. Jiii hvað það verður gott. Jammí!

Það eru 8 prósent líkur á hvítum jólum hér í Köben.

sunnudagur, desember 10, 2006

Annar í aðventu

Annað kertið sem við kveikjum á heitir Betlehemskertið, og heitir eftir fæðingarbæ Jesús.

Jæja allt fínt að frétta héðan. Ég fór í klippingu í gær og ég lét sko aldeilis klippa mig! Hef ekki verið með svona stutt hár í mörg ár! Það er bara við axlir! Er ekkert að grínast. Og ég hef líka aldrei verið svona dökkhærð... svei mér þá, veit ekki hvað er að koma yfir mig. En það er nú bara gaman að fá smá breytingu, en þetta var erfið ákvörðun, sérstaklega fyrir jafn vanafastar manneskjur eins og mig :) En hárið vex víst aftur, það er eitt sem víst er.

Við fórum öll út að borða í gærkvöldi á Hereford. Svakalega fínt og góður maturinn. Fékk mér aftur sniglana í forrétt, en þá prufaði ég þegar við vorum hérna í sumar með Júlíu Rós og Hermanni. Sviku sko ekki... svo var auðvitað steik og að lokum ís með marineruðum ávöxtum, bara gott. Var veeeel södd. Best að reyna að stækka magann þar sem ég sé fram á svona mat þær tvær vikur sem mamma og pabbi verða hérna, Guð hjálpi mér.

Og talandi um mat. Uppskriftin af fylltu kjúklingabringunum, ég fékk hana hjá Júlíu Dröfn (hverri annarri?! :)) og má sko með sanni segja að við kylliféllum fyrir þessu. Vessegú Þórey og Sigrún :)

-- Vasi er skorinn í bringurnar og þær smurðar með smurosti með sólþurrkuðum tómötum, pestói (okkur finnst rauða pestóið betra en græna) og svo er settur fetaostur í olíu ofan í vasann og bringunum lokað. Ég smyr svo bringurnar alltaf aðeins með pestói ofan á og set nokkra fetaostabita ofan á. Sett inn í ofn og bakað þangað til tilbúið.

Fyrsti jólasveinninn er væntanlegur á morgun, hlakka mikið til. Veit að Stekkjastaur ætlar að koma við hér á Myggenæsgade, ohh það verður gaman.

Ég er búin með öll jólakortin, kláraði þau í dag. Ætla því að nota næstu viku til að hreingera íbúðina, taka alla skápa í gegn og endurraða og skipuleggja betur í fataskápunum okkar og Ingibjargar. Reyndar er Ingibjörg búin að taka þvílíka vaxtarkippinn núna undanfarið að hún er vaxin upp úr helmingnum af fötunum. Svei mér þá. Ég þarf að fara yfir fötin hennar og pakka niður því sem er orðið of lítið. Það verður gaman að vita hvort maður eignist aðra stelpu til að geta notað fötin aftur :)

Segjum þetta gott í bili. Góða nótt.

miðvikudagur, desember 06, 2006

Julegaver

Ég er búin með allar jólagjafir nema Heimi, mömmu og pabba!! Allt búið sem þarf að senda heim. Já og mér líður OFUR vel. Við mæðgur fórum í Fields og þar sópuðumst við um í rúma tvo tíma og kláruðum mest allt. Hef hins vegar ekki haft neinn tíma í jólakortin í dag, en það er nú í lagi, skrifa bara á morgun. Og já á morgun má ég sækja myndirnar af Ingibjörgu, hlakka til að sjá þær :)

Foreldrar Heimis voru hjá okkur í dag og í kvöld. Gerði fyllta-kjúklingabringu-réttinn sem ég hef ekki gert síðan Elma var í mat einhvern tímann í sumar. En mikið er hann alltaf góður. Ásdís færði mér svaka flotta jólarós sem kemur vel út hérna í stofunni. Ætlaði einmitt að fara að fá mér eina, finnst þær svo fallegar. Vona að ég nái að halda lífi í henni í langan tíma.

Annars eru 2 og hálfur moli eftir í Nóa Siríus konfektkassanum. Heimir hefur ekki fengið einn mola! Hef samt alveg boðið honum, hann segir bara alltaf nei. Sagði við hann áðan að ég væri að verða búin svo ef hann ætlaði að fá þá yrði það að vera núna! Hann vildi ekki. Ætla samt að gefa honum þennan hálfa mola, finnst hann nefnilega ekki góður. Nema ég gefi kannski Ingibjörgu hann frekar. Hún verður ábyggilega glöð :) það kemur svo kíló af konfekti með mömmu og pabba eftir hálfan mánuð!! Hlakka til!

Segjum þetta gott í kvöld.

þriðjudagur, desember 05, 2006

Skrifi skrif

Sko maður rétt nær að blogga fyrir miðnætti. Segið svo að ég sé ekki að standa mig!! :)

Byrjaði á jólakortunum í kvöld. Eyddi að vísu einum og hálfum tíma í að spjalla við Heiðu á msn, en kom svo sterk inn aftur í skrifin. Að vísu voru það kortin hennar mömmu sem voru kláruð frá, byrja á okkar á morgun. Jii hvað mér finnst gaman að skrifa jólakort. Finnst samt svolítið vanta að ég sé ekki við eldhúsborðið í Gauksmýrinni, með íslenska jólatónlist og mömmu eitthvað að snúllast í kringum mig. En það verður sko svoleiðis fyrir næstu jól, semsagt jólin 2007 :) Jiii mig hlakkar til!! Mætti segja mér að ég eigi eftir að fá heimþrá núna um jólin, þó ég sé með mömmu og pabba hjá mér. Æji ég er bara svo vanaföst að mér finnst frekar erfitt að vera ekki heima. Amma og afi ekki og bara allt sem ég er vön að hafa í kringum mig. Eins gott að mamma og pabbi selji aldrei húsið... ég myndi samt mæta um hver jól og planta mér bara fyrir framan húsið!!

Annars fórum við niður við Nýhöfn í dag með foreldrum Heimis. Ferlega gaman að sjá jólabúninginn sem Nýhöfn er komin í og svo auðvitað jólamarkaðurinn skemmtilegur. Ég hálf öfunda nú bara Elsu Sæný að eiga heima í þessu öllu :) Reyndar tók ég eftir því að þetta endar hjá þeim, 22. desember!! Jólin eru ekki einu sinni komin þá! Finnst þetta nú svolítið skrítið. En við náum að fara með mömmu og pabba þarna 21.

Ætla á morgun að skella mér í Fields og reyna að klára sem mest af jólagjöfunum sem eftir eru. Hugsa að það takist þar sem ég er nú með ýmislegt í huga.

Jæja, ætla að fara að leggja mig svo ég verði til í jólahasarinn á morgun.

mánudagur, desember 04, 2006

Fjögur skref

Ég ætlaði nú aldeilis að vera dugleg í kvöld og byrja á jólakortunum. En nei, ég gleymdi mér á netinu! Ekki í fyrsta skipti sem að það gerist. Held að flestir kannist við þetta :) Þegar ég fór svo að huga mér til hreyfings þá var klukkan bara orðin hálf 11!

Ingibjörg tók fjögur skref í dag :) jájá, hún fer sér hægt og er ofur varkár en þetta hlýtur að fara að koma hjá henni. Get ekki beðið eftir því að sjá hana labba um eina og óstudda, það verður sko bara gaman.

Talaði við mömmu, afa og ömmu á Skypinu áðan. Get ekki hætt að dásema þetta blessaða Skype og vefmyndavélin er auðvitað algjört möst! Nú bara verður þú, Heiða mín að fara að koma þessu upp hjá þér.

Náði engu sambandi við John Grisham bókina, svo ég er að hugsa um að taka upp þráðinn þar sem ég skildi við Karitas án titils, aftur. Ætli ég þurfi bara ekki að byrja upp á nýtt á henni. Annars bíð ég svo spennt eftir jólabókunum, það er kannski þess vegna sem ég næ ekki að festast við neina. Endilega ef þið hafið lesið einhverja góða bók nýlega, látið mig vita.

Hef lítið sem ekkert að segja ykkur, bíð ykkur því góðrar nætur.

sunnudagur, desember 03, 2006

Fyrsti í aðventu

Fyrsta kertið sem við kveikjum á í dag, er Spámannskertið, en það minnir á fyrirheit spámannanna um komu frelsarans. Svona smá fróðleikur í tilefni dagsins :)

Annars allt gott að frétta héðan. Sigurjón Gísli millilenti hér á föstudaginn á leið sinni heim, og kíkti til okkar í nokkra tíma. Ægilega gaman að sjá hann, verst að hann skyldi ekki stoppa lengur. En hann kemur kannski aftur einhvern tímann og þá kannski bara öll fjölskyldan :) Aldrei að vita.

Ingibjörg er auðvitað farin að opna dagatalið sitt. Finnst nú samt eins og ég sé miklu spenntari en hún yfir þessu :) hún borðar þó súkkulaðið með bestu lyst.

Við tókum jólakortamyndina af dömunni í gær og fórum með í framköllun. Tókst svaka vel og var hún skellihlægjandi á þeim 60 myndum sem var smellt af henni :) þær voru bara allar svo góðar að við áttum í erfiðleikum að velja!! Heimir kom með þá uppástungu að senda bara disk til allra :) Held samt ekki. En það varð svaka fín mynd fyrir valinu :) Nú er bara að setjast niður og hefjast handa við að skrifa, ohh það er svo gaman að skrifa jólakort.

Tókum Nágrannamaraþon um helgina! Get svarið það, ekki veit ég hvað við horfðum á marga þætti föstudags- og laugardagkvöldin, en þeir voru sennilega yfir 20!! Jiii og það sem þeir eru ekki spennandi, alveg eigið þið mikið í vændum!! :) Hvar eru þið ca. stödd núna? Nennir einhver að segja mér...

Vorum í 9 ára afmæli hjá Önnubellu í dag. Voða gaman. Ásdís og Gylfi komu líka í dag og komu þau með fullar töskur af mat!! T.d. venjulegt Cerios (sem virðist ekki fást hér), krydd, osta, flatbrauð og súrmat svo eitthvað sé nefnt. Það síðarnefnda er auðvitað BARA handa MÉR :) Jú kannski að ég prufi að gefa Ingibjörgu smakk á pungum.

Annars þegar ég lít út um gluggana á íbúðinni þá sé ég orðið jólatré í fullum skrúða í öðrum hverjum glugga!! Jájá, um að gera að vera ekkert að skreyta neitt, bara að setja upp jólatréð 1. des!! Ekki í lagi með þessa Bauna!! Við ætlum nú að fara að fjárfesta í einu stk. svo að maður verði ekki búinn að missa af bestu trjánum. Held samt að ég bíði með að skreyta þangað til að mamma og pabbi koma. Já var ég búin að minnast á breytt plan? Nei held ekki. En við förum sem sagt ekki til Heiligenhaven á milli hátíða eins og ráðgert var. Ég er því aðeins búin að breyta planinu, dýragarðurinn er bara á dagskrá á milli hátíða. Taka bara Tívolíið fyrir jól og dúllast saman í bænum. Flott plan :) þið hafið bara samband ef þið þurfið að plana eitthvað :)

Horfi hér á Spámannskertið brenna og í sjónvarpinu er Love Actually. Alveg er hún yndisleg sú mynd. Ég kemst sko alveg í rétta jólagírinn yfir tónlistinni. Og djö er nú Hugh flottur í henni! Heimir er farinn inn að sofa, svo ætli ég láti þetta ekki nægja og komi mér inní rúm að lesa. Veit samt ekki alveg á hvaða bók ég á að byrja. Á nokkrar sem ég er ekki búin að lesa, og svo keypti Heimir bók á ensku eftir John Grisham sem freistar líka. Jú ætli ég byrji ekki á henni, ath hvernig mér finnst hún.

Sofið vært!