föstudagur, mars 31, 2006

Kettir

Mér er frekar illa við ketti. Finnst þeir smeðjulegir og falskir og maður veit aldrei hvar maður hefur þá. En það sem mér finnst ógeðslegast, er þetta veiðieðli í þeim. Ég held ég myndi urlast ef ég fengi dauðar mýs eða fugla inn til mín. Hugsanlega gæti ég samt átt kött sem færi aldrei út. Bara svona innikött því þá væri hann alltaf hreinn og væri ekki að éta einhvern viðbjóð. Ég fór að pæla í þessu því að kona hérna í næstu blokk fer einu sinni á dag með köttinn sinn út að labba í bandi. Þetta fannst mér alveg brilljant og þetta myndi ég gera við minn kött. Ekki það að ég ætli að fá mér kött, aldrei, ég er sko hundakona :)

Fann þessi líka fínu stígvél á útsölunni í gær. Einmitt það sem mig vantaði og ekki slæmt að fá þau á 5000 kall í staðinn fyrir 20.000 út úr búð!!


Hlakka óskaplega til Idol-sins í kvöld. Verður spennandi að vita hver dettur út, spái því að það verði Bríet Sunna, nú eða Snorri. Getur ekki annað verið en að Ína vinni þetta. Hafnarfjarðar fjölskyldan mætir í kvöld, þannig að það verður mikið stuð. Ætlum að gæða okkur á brauðréttum og svo góðum eftirrétt.

Góð helgi allir saman.

fimmtudagur, mars 30, 2006

Draumur

Mig dreymdi draum í nótt. Þar sem ég var svo niðursokkin í hugsanir um háralos í gær, þurfti mig auðvitað að dreyma að ég væri að missa allt hárið. Þetta var ógeð, ég var eiginlega eins og Ingibjörg Sólrún, nema hvað ég var með síðar lýjur og svo með einhverja flösubletti!! Ojjj þetta var hrikalegt! Nú ætla ég að hætta að hugsa um þetta og dásama öll nýju hárin sem eru að spretta upp :)

Gærkvöldið var einkar skemmtilegt! Maturinn auðvitað æðislegur og selskapurinn hreinn unaður :) Okkur var samt eiginlega bent kurteisilega á að fara út eftir tvo klukkutíma, en þá var reikningurinn lagður á borðið hjá okkur. Liðið var reyndar búið að stjákla í kringum okkur í smá tíma. Við hlógum nú bara að þessu. Röltum í bókabúðina og þar fann ég Stubbana á DVD! :) Tveir diskar saman. Varð aldeilis glöð með það.

Ingibjörg svaf eins og grjót til klukkan hálf 6 í morgun. Kannski að ég geti bara farið að flytja mig um set :)


Annars eigum við mæðgur stefnumót við Júlíu Rós og fjölsk. seinnipartinn í dag, ætlum að storma á for-útsölu hjá Ecco!

miðvikudagur, mars 29, 2006

Heimsókn

Pabbi kom til okkar í gær. Þeir komu inn á Þorlákshöfn að landa. Þetta var nú stutt stopp hjá honum, en alveg sama, gaman að fá hann og Ingibjörg var hin kátasta :) Hann kom færandi hendi, með fullan poka af humri!! Jammí! Það eru bara tvær vikur í að mamma og pabbi komi, en þau verða svo úti um Páskana og stoppa svo í nokkra daga í bakaleiðinni.

En það er Ítalía í kvöld með JR. Hlakka mikið til að gúffa í mig. Ég ætla auðvitað að fá mér hvítlauks sveppina mína í forrétt, veit ekki alveg með aðallaréttinn. Kannski það verði bara pizza/hálfmáni. Ég hinsvegar skora á JR að fá sér forrétt! Hún borðar alltaf svo lítið að ég er alltaf EIN með forrétt. Fíla mig alltaf sem algjört átvagl með henni.

Ég er að fara í skoðun í dag með augun. Búin að vera gleraugnalaus í viku!! Jei! Á ekki von á öðru enn að allt sé í góðu hjá mér.

Ég segi það nú bara enn og aftur að ég skil ekki að ég skuli ekki vera orðin sköllótt!! Þetta er ekkert grín þetta blessaða háralos á mér. Er að verða vitlaus. Reyndar eru að koma ný hár í kollvikunum, og það ekkert smá, þetta eru alveg brúskar sitthvoru megin... ógeðslegt!

Er enn í gestaherberginu. Nóttin í nótt var fín að sögn Heimis og besta nóttin síðan við byrjuðum á þessu. Hún vaknaði kl. 4 en vildi ekkert að drekka (vatn) og sofnaði bara fljótlega aftur. Ég vaknaði 7 í morgun, alveg gáttuð á því að Heimir væri ekki búinn að ná í mig. Laumaði mér því inn í svefnherbergi og þar lá Ingibjörg eins og krossfiskur við hliðina á pabba sínum :) Spurning hvenær ég flyt inn í herbergi. Bíð samt kannski aðeins lengur með það.

mánudagur, mars 27, 2006

Gestaherbergið

Já þar er ég búin að sofa síðustu ÞRJÁR nætur! Við erum með frk. Ingibjörgu í agaskóla, reyna að hætta þessum næturgjöfum. Hún var nefnilega enn að vakna svona 1-2 svar til að staupa sig og halda svo bara áfram að sofa. Voða nice hjá henni :) Þetta hefur nú bara gengið vel, hún hefur samt verið að leita af mér í rúminu en er farin að fatta að hún fær
ekkert. Spurning hvenær hún hættir að vakna á nóttunni. Og enn stærri spurning hvenær ég get flutt inn í herbergi!! Ég vildi þetta frekar enn að flytja hana út úr herberginu, því ég var með það á tæru að þá myndi ég gefast upp, er eitthvað svo lin!! En ég loka inn til mín og Heimir hallar inn til þeirra þannig að þá heyri ég ekki í henni ef hún er að kvarta eitthvað! :)

Er búin að ákveða það að urga mér ekki út úr húsi í dag!! Af hverju, jú af því að mér er ennþá kalt síðan við fórum í göngutúr í gær!! Shhhiiiit það var svo kalt! Algjört gluggaveður.

Áttum fína og rólega helgi, komumst ekki í sund þar sem Heimir var lasinn á laugardaginn og ég má ekki fara. Það verður þá bara næsta laugardag.

Við Júlía Rós ætlum að fara á Ítalíu á miðvikudaginn. Ummm hlakka til! Langt síðan að við höfum farið saman og ég efast ekki um skemmtunina :)

föstudagur, mars 24, 2006

Idol - Augu

Mikið um að vera í Idolinu. Var sátt við úrslitin, hefði viljað losnað við Ragnheiði Söru fyrir löngu!! Finnst hún mjjöööööög leiðinleg greyið og hún hefur farið í pirrurnar á mér síðan Idolið byrjaði. Merkilegt, því það er ekki eins og ég þekki manneskjuna neitt. Örugglega hin besta stelpa :) Hélt samt reyndar að Bríet færi núna, en ég held að úrslitin verði Ína og Snorri og sennilega mun Ína taka þetta.

Af augunum mínum er allt gott að frétta. Fór í eftirskoðun í gær og ég er með 100 % sjón á vinstra auga en á hægra er ég með 0,25 sjónskekkju. Þórður sagði að þetta væri rosalega flott, maður getur víst ekki verið með 100 % sjón á báðum. Þannig að ég get ekki annað en verið í skýjunum :) Reyndar er ég búin að teygja mig eftir gleraugunum þegar ég vakna og hef einnig ætlað að taka þau af mér þegar ég fer í sturtu, þessa tvo morgna sem ég hef verið gleraugnalaus :) maður er víst ekkert nema vaninn. En þetta er æði.

Það er sund á morgun hjá familyunni, en ég verð víst bara á bakkanum. Bannað að fara í sund með augun.

miðvikudagur, mars 22, 2006

ÉG SÉ

Nú sit ég hér fyrir framan sjónvarpið ekki með NEIN gleraugu, horfi á Opruh og les textann!! GLERAUGNALAUS!! It?s a miracle! Aðgerðin gekk mjög vel og þetta tók sko ekki langann tíma. Þetta var ekkert mál, ég sver það.
Mér líður bara vel, finnst eins og ég sé með linsurnar í augunum og finn fyrir smá sviða annaðslagið. Er líka með smá móðu, það er eiginlega eins og ég sé í gufubaði, og það verður örugglega þannig líka á morgun. Er bara dugleg að nota augndropana til að laga augnþurrkinn og svo jafnar þetta sig. Ég má bara alls ekki nudda augun eða koma neitt við þau, því þá getur maður hróflað við flipanum. Hann verður að fá að gróa í friði. Má ekki heldur nota maskara í tvær vikur eða svo. Á morgun fer ég svo í skoðun, svo aftur eftir viku og í síðasta sinn eftir mánuð. Þá er ég útskrifuð.
En mikið held ég að ég eigi eftir að tapa mér í sólgeraugnakaupum!!! Guð góður, ætli ég verði ekki bara eins og Elton John eftir ár, verð komin með dágott safn :)

En jæja, ég ætla að fara að hvíla augun mín og þakka hlýja strauma, fann pottþétt fyrir þeim :)
Einn og hálfur tími

í aðgerð!! Er nokkuð róleg bara... þó aðeins með í maganum. Held reyndar að mínu nánustu séu stressaðari en ég :) Er alveg tilbúin, er með sólgleraugun með mér og í "réttum" fötum. Þarf bara að fá mér að borða. Ætla ekki að taka róandi eins og manni er boðið, hlýt að geta þetta án lyfja (fyrir utan staðdeyfiaugndropanna). Heimir er í fríi og skutlar mér og sækir.

Læt heyra í mér. Hugsið extra vel til mín á milli 14 og 16 í dag, takk fyrir :)

sunnudagur, mars 19, 2006

Komnar suður

Við mæðgur komum heim í gærkvöldi. Gekk allt eins og í sögu og var Ingibjörg eins og ljós á leiðinni. Það var fyndið að sjá hvað hún varð óskaplega glöð þegar hún hitti pabba sinn, já og hann sömuleiðis að fá okkur :) Höfðum það voða gott í dag. Fórum í bakaríið og tókum okkur svo góðan göngutúr í fína veðrinu.

Ætlum að kíkja á Heiðu á morgun, trufla hana við próflestur. Það verður í síðasta sinn sem að hún sér mig með gleraugu :) Jájá nú miðast allt við aðgerðina. Ég var einmitt að æfa mig í dag í göngutúrnum, tók gleraugun af mér og prufaði hvernig það væri. Ég varð nú bara svolítið feimin. Fannst ég hálf nakin eitthvað, og skrítið að fá vindinn alveg beint í augun. Jii hvað þetta verður spennandi!!

Idolið... já ég var sko ekki sátt við úrslitin. Fannst að Ragnheiður Sara hefði átt að fara. Þetta voru nú eiginlega fyrstu mistökin hjá honum Alexander og hann fékk sko aldeilis að gjalda þeirra.

Jæja ætlaði bara rétt að láta vita af mér.

miðvikudagur, mars 15, 2006

Eftir viku

Jájá þá verð ég orðin gleraugnalaus!! Bara að minna á það :) Er nefnilega að springa úr spennu. Mér er meira að segja orðið sama þó að gleraugun mín séu út kámuð eftir Ingibjörgu, en það hefur aldrei mátt vera skítur á þeim. Allt í lagi núna því ég er að fara að losna við þau :)

Er að reyna að koma mér inn í One Three Hill. Sá nokkra þætti úr fyrri seríunni en ég er samt ekki alveg að ná sambandi við þá. Þyrfti eiginlega að redda mér fyrri seríunni á dvd :) Á hana einhver? Þessi Lucas er samt eitthvað svo væminn finnst mér í útliti... held að hann sé bara allt of sætur.

Fórum til Öllu í morgun og brunuðum svo til Hrannar í skólann. Ingibjörg var voða hrifin af henni en hrifnust var hún þó af Smára Geirs og Einari Þórarins :) Hlógum mikið af því hvað hún var dugleg að senda þeim töfrandi bros. Kíktum líka til Önnu Kristínar að skoða nýja húsið, æðislega flott hjá þeim. Er, held ég að verða komin yfir flesta sem ég ætlaði að heimsækja, sennilega verða nú samt einhverjir eftir en ég kem aftur, ég kem ALLTAF AFTUR :)

Á morgun förum við svo í mat til Elmu, pabbi kemur í land á föstudaginn, fer með Ingibjörgu í skoðun á föstudag og svo förum við á laugardag. Þetta líður allt voða hratt.

Jæja, ætla að skríða upp í rúm til dóttur minnar, hjúfra mig upp að henni og lesa Geisjuna. Góða nótt.

þriðjudagur, mars 14, 2006

Sæla - Sæla

Geggjað veður búið að vera í dag. Varla líft hérna í húsinu sökum hita. Við mæðgur heimsóttum Brynju og Valþór Snæ, voða gaman að hitta þau. Verst að þau skuli ekkert geta komið út að labba með okkur, Valþór búinn að vera svo mikið lasinn.

Amma og afi buðu okkur út að borða á Capitano í kvöld. Tælenskur matur í boði. Get nú alveg sagt að ég hef alveg smakkað betri mat, en þetta var ágætt. Um sjöleytið fylltist svo staðurinn af körlum sem eru að vinna hér í bæ og við það sperrtist Ingibjörg öll upp. Það var eiginlega bara fyndið, hún fylgdi þeim alveg eftir og skoðaði þá vel og vandlega. Snemma beygist krókurinn, eins og afi sagði :)

Er alveg veik í ilmvatnið hennar Söru Jessicu Parker. Finnst það æði! Á pottþétt eftir að fá mér hana. En ef það er eitthvað sem mig vantar ekki þá er það ilmvatn. Ég á ekkert eðlilega mikið af þessu dóti. Á samt ábyggilega eftir að blikka mömmu til að versla í fríhöfninni um Páskana :)

Er búin að bóka tíma hjá frk. Hrönn. Hún er svo busy manneskjan :) Við mæðgur eigum að mæta í skólann kl. hálf 11 í fyrramálið.


Prison Break að fara að byrja, þarf að setja mig í stellingar því þátturinn í síðustu viku endaði svo svakalega spennandi!!

mánudagur, mars 13, 2006

Fyrstu skrefin

Nei Ingibjörg er ekki farin að ganga. Ég hinsvegar horfði á þáttinn Fyrstu skrefin í síðustu viku. Þar var verið að sýna frá fæðingu. Aldrei í lífinu hefði ég viljað þetta!! Vera með heilt myndatökulið og spyril og læti í miðjum átökum! Jahérna? Það fór nú líka svona nett um mig að horfa á þetta. Alveg á hreinu að ég er ekki tilbúin að ganga í gengum þetta aftur á næstunni. Þessi þáttur hefur mikið verið til umræðu á bloggsíðum sem ég hef rekist á, og virðist þetta hafa farið fyrir brjóstið á mörgum. Þá sérstaklega þeim sem ekki eiga börn. Ég skil það nú svosem. Ég var nú ein af þeim hörðustu sem sagðist ætla að fara í keisara... ég gat ekki hugsað mér að eignast barn á eðlilegan hátt og ég varð bara máttlaus við tilhugsunina. Var með það á hreinu að ég gæti þetta bara alls ekki! En annað kom nú á daginn, tókst þetta meira að segja án allra lyfja!! Fæ nú feitt prik fyrir það :)
En já nú þegar ég veit betur þá myndi ég aldrei vilja fara í keisara. (Þeim skoðanaskiptum má eiginlega þakka fæðingar/foreldra fræðslunni.) Tíminn sem það tekur fyrir konuna að jafna sig eftir þessa aðgerð, svo ekki sé nú talað um greyið barnið sem er bara rykkt út í veröldina á einu góli. Held að náttúrulegasta leiðin sé best fyrir báða aðila... svona þegar allt gengur eins og það á að ganga.

Við mæðgur tókum daginn snemma í dag. Fórum í bæjarleiðangur og kíktum til Önnu Kristínar en stelpan er 25. ára í dag. Til lukku :) Fór svo í skólann en ég ætlaði að reyna að hitta á Hrönn bekkjarsystur. Hún var hinsvegar ekki við þannig að við verðum bara að gera aðra tilraun til að heimsækja hana. Fékk alveg flash back við að koma inn í skóla, hef ekki komið þangað í mörg ár! Það var ýmislegt sem rifjaðist upp, æðislegt :)

sunnudagur, mars 12, 2006

Rólegheita líf

Mikið óskaplega hefur maður það nú gott hérna í sælunni. Svei mér þá. Við mæðgur erum í þvílíka dekrinu, en það er nú svo sem ekkert nýtt :) Veislumatur á hverjum degi og svo eyðum við dögunum í heimsóknum, göngutúrum og öðru dúlli. Já svona á sko lífið að vera... vantar bara Heimi. Ingibjörg er í stöðugri þjálfun hjá ömmu sinni, hún er að kenna henni "Hvað ertu stór" og "Klappa saman lófunum" :) Markmiðið er að hún kunni þetta áður en við förum suður. Hún hefur hinsvegar lítinn áhuga á því að klappa saman lófunum, en skellihlær bara framan í ömmu sína þegar hún er að þessu :)
Helgin er búin að vera ljúf. Við brunuðum á Reyðarfjörð á laugardeginum, í slyddu og vetrarveðri. Í dag var svo dagur heimsókna, fengum heimsóknir og svo kíktum við mæðgur til Guðlaugar. Amma og afi komu svo í mat í kvöld.

Er alveg dottin niður í Minningar Geisju! Já það kom að því :) Það var eina bókin sem ég tók með mér austur þannig að ég bara varð að lesa hana. Líst vel á.


Ein spurning til ykkar sem þekkið til, er ekki hægt að fá Stubbana á DVD?

Jæja ætlaði bara rétt að láta vita af mér, kveð í bili.

fimmtudagur, mars 09, 2006

Hálfur mánuður

Eftir nákvæmlega tvær vikur verð ég laus við gleraugun!! Já laserinn er 22. mars. Ég get svo svarið það, er eiginlega ekki að trúa því að ég verði gleraugnalaus eftir hálfan mánuð! Ég get talað um þetta endalaust og á örugglega eftir að minnast á þetta aftur áður en yfir líkur :) Mér finnst þetta nefnilega svo mikið kraftaverk! Reyndar er mig búið að dreyma aðgerðina nokkrum sinnum. Í eitt skiptið þurfti ég að fara í svæfingu fyrir aðgerð og allt var í vitleysu, og í öðrum draumi breytist Þórður læknir í Sandy Choen í O.C :) Já já, ekki er öll vitleysan eins! En ég er viss um að þetta sé bara fyrir því að ég eigi eftir að sjá í gegnum holt og hæðir eftir aðgerð.

Annars eyddi ég deginum í gær hjá henni Önnu Kristínu í klippingu og allsherjar yfirhollingu. Er svaka fín, finnst alltaf agalega gaman þegar ég er búin í svona fíneríi. Hugsaði reyndar, þar sem dóttirin á það til að rífa all duglega í hárið á mér, hvort ég ætti kannski bara að láta klippa það við axlir eða svo. En ég gerði það auðvitað ekki. Langar svo oft að gera eitthvað róttækt en renn svo alltaf á rassinn með það. Ég lét allavegna klippa toppinn svona á ská og meira að segja svolítið stutt :)

Gleymdi alveg að segja ykkur hvað við vorum rosalega ánægð eftir Argentínu ferðina. Þetta var ekkert smá góður matur! VÁ! Ég held að ég hafi ekki orðið svona södd síðan ég var ólétt. Úff, ég var gjörsamlega að springa! Þjónninn sem var með okkur var líka alveg frábær. Það skiptir miklu máli finnst mér, þegar þeir eru professional. Reyndar sagði ég við Heimi að aldrei í lífinu myndi ég vilja gera það að ævistarfi mínu að vera þjónn. Jiii ég myndi bara ekki meika það. Hundleiðinlegur vinnutími og hundleiðinlegt job held ég. En sem betur fer vilja ekki allir gera það sama? það væri hálfleiðinlegur heimur.

mánudagur, mars 06, 2006

HEIM

Þá erum við mæðgur komnar heim í heiðardalinn. Yndislegt! Verst að Heimir skuli vera fyrir sunnan, en við hlökkum ógurlega til að hittast aftur :) ég hlýt að lifa þetta af. En það er nú bara vetur konungur sem tekur á móti okkur hér. Skítakuldi en fallegt veður.
Flugið gekk rosalega vel en ég var búin að hafa áhyggjur af því að Ingibjörg fengi kannski í eyrun. En hún bara drakk, bæði í flugtaki og lendingu, þannig að þetta reddaðist allt saman. Og þá er hún 6 og hálfs mánaða, búin að fara í fyrstu flugferðina og keyra austur 2-svar sinnum :)

En já, meira af Ingibjörgu... framtennurnar í efri góm eru komnar!! Daman semsagt komin með 4 tennur. Frekar fyndið að sjá hana og skemmtilegt að sjá breytinguna sem verður á henni :) Það fer hins vegar hryllilega í mig þegar hún nuddar þeim saman, gnístir tönnum. En hún er voða hrifin af þessum nýju tólum sínum.

Jæja, við pabbi ætlum að fara að galla okkur upp í göngutúr.

fimmtudagur, mars 02, 2006

Ljúfur dagur

Mamma og pabbi komu um miðjan dag og við vorum varla komin hingað inn í íbúð þegar þau voru rokin út með Ingibjörgu í vagninum :) Grilluðum svo hreindýr í kvöld... jiii það var gott.

Kíktum til Unnars í nýju íbúðina, orðið voða fínt hjá stráknum. Skrýtið að vera ekki með stelpuna með, en það kom auðvitað ekki til greina þar sem mamma og pabbi vilja alltaf vera að passa :)

En það er Argentína á morgun, nammi namm.

miðvikudagur, mars 01, 2006

Öskudagur

Mikið lifandi skelfing er ég nú fegin að hafa ekki verið að vinna í apóteki í dag! Það var allt í lagi svona í byrjun en þegar líða tók á daginn var maður kominn með upp í kok á að hlusta á hinar ýmsu útgáfur af Gamla Nóa og stundum miður fallegan söng. Úfff maður fór heim með höfuðverk í lok dags. Það var samt skemmtilegt þegar það komu krakkar sem höfðu lagt eitthvað í búningana og æft sönginn.

Í minni tíð var samt ekki farið í búðir og betlað sælgæti. Allavegna gerði ég það aldrei. Held þetta hafi verið að byrja þegar ég hætti að dressa mig upp. Það var samt alltaf voða gaman á þessum degi. Þar sem við Hrafnhildur vorum vinkonur var alltaf stormað niður í Starmýri 9 þar sem Bára og Sigrún höfðu yfirumsjón með make-upinu :) Maður var mættur eldsnemma um morguninn í förðun og "klæðningu". Ég man að einhvern tímann vorum við Hrafnhildur "gellur". Þá vorum við í fötum af þeim systrum, m.a. tjullpilsunum sem voru mjög vinsæl hjá okkur. Svo einhvern tímann var ég Perja-trúður. Þessi sem er allur hvítur, og með svart tár. Ég held og mig minnir að mitt síðasta gervi hafi verið Landnámsmaður :) Svaka flott. Þetta er svona það sem stendur upp úr í búningasögu minni.
Mig langar hinsvegar mikið að vita hvort Öskupokarnir séu enn við líði. Mér fannst það svo skemmtilegt alltaf.

Þakka Guði fyrir að vera ekki að eignast barn núna í þessum skrifuðu orðum, verkfall hjá ljósmæðrunum í heimaþjónustunni. Jiii ég hefði ekki tekið það í mál að þurfa að dvelja lengur en í sólarhring þarna niður frá.

Mamma og pabbi koma á morgun! Hlakka mikið til :)