fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Nu gar jeg snart

Er nokkuð viss um að þetta er ekki rétt skrifað hjá mér :) en ég vil trúa því að þetta þýði: Nú fer ég að fara.
En nú er þetta að fara að bresta á. Við mæðgur fljúgum út viku fyrr en áætlað var, þannig að við förum aðfaranótt mánudagsins 11. sept. Þetta er síðasta flug frá Egilsstöðum í bili, en það verður ekki flogið aftur út til Köben fyrr en í október. Nú hellist yfir okkur það sem á eftir að gera og mikið assgoti er það mikið. Það er t.d. ekkert eðlilega mikið pappírsflóð sem þarf að redda til að geta sent dótið út. Á morgun fer ég svo á Reyðarfjörð að skila bílnum. Finnst það alveg grátlegt þar sem ég á það til að bindast dauðum hlutum tilfinningaböndum. Líka fyndið að hugsa að sennilega eigum við ekki eftir að eiga bíl næstu 5-6 árin! Skrítið!

Það eru blendnar tilfinningar í gangi hjá mér þessa dagana. Kvíði og sorg, mér finnst alveg hryllilega erfitt að vera að fara héðan og frá fjölskyldu og vinum, en svo mikil tilhlökkun að hitta Heimi og fara aftur að stofna saman heimili. Svo má líka segja að það er nú lítið mál t.d. fyrir mömmu og pabba að koma, beint flug frá Egilsstöðum og ekki er þetta nú langt flug. Heiða og Moni koma svo í nóvember og svo hitti ég mjög sennilega Júlíu Rós í október, þannig að ég get bara strax farið að hlakka til heimsóknanna :)

Fór til tannsa í dag... er með tvær sprungnar fyllingar og eina ponsu skemmd (helv... litlar kók í gleri!!) Þarf því tvisvar til hans í næstu viku og svo er ég búin að panta tíma í klippingu. Ætla til Önnu minnar, er alltaf svo ánægð þegar ég kem frá henni.

En jæja, bið að heilsa í bili.

þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Frumbyrja

Eitthvað er ég andlaus þessa dagana, þið verðið að fyrirgefa. Ég gæti nú samt sjálfsagt skrifað meira um jólin og alla spennuna í kringum næstu jól, en ég er að hugsa um að hlífa ykkur í bili... það er jú enn bara ágúst.

Annars er haustið pottþétt komið núna. Held að það sé alveg á tæru. Búið að vera hryssingur í veðrinu, skítakuldi og vindur, sem sagt alveg ekta haustveður.

Er búin að panta mér tíma hjá Pálma tannlækni á fimmtudaginn. Verð að láta tékka á tönnunum fyrir Danmerkurreisuna. Uss það verður eitthvað að ætla að finna sér tannlækni þarna úti! Kannski fréttir maður af einhverjum íslending? Aldei að vita.

Ég er búin að sækja meðgöngu- og fæðingarskýrsluna mína, og ég ætla að leyfa fyrstu setningunni úr aðgerðarlýsingunni að fljóta með hérna, því þegar ég las hana fannst mér ég vera lesa um belju en ekki sjálfa mig. "Um er að ræða 28 ára gamla frumbyrju sem búin er að rembast í tæpar 2 klst. án deyfingar..." jahérna hér!! Einhvern veginn finnst mér ekki eins og það sé verið að meina mig :) En mér finnst voða gaman að lesa þetta og það verður gaman næst þegar ég verð ólétt að bera saman t.d. þynd og blóðþrýsting. Mæli með því að þær sem eiga börn, að þær nálgist skýrsluna sína.

Magni í kvöld. Nenni auðvitað ekki að vaka svo ég tek það bara upp. Stórefa það líka að ég vakni til að kjósa hann, en auðvitað væri gaman ef hann kæmist einn þátt í viðbót.

Góða nótt.

laugardagur, ágúst 26, 2006

Jólin

Í allann dag er ég búin að vera með hugann við næstu jól. Ég er orðin mjög sátt að ætla að eyða minni uppáhalds hátíð úti í Danaveldinu. Auðvitað ennþá æðislegra að mamma og pabbi ætla að koma. Jii hvað það verður gaman, fæ alveg fiðring. En já ég er búin að vera að hugsa hvað verður gaman að skrifa jólakortin (nú dönsk jólakort), kaupa jólagjafir á Strikinu og útbúa pakka til Íslands, skreyta (og ég ætla sko að skreyta snemma eins og venjulega og hafa fram í janúar!!) elda og borða góðan mat og kynnast öllu sem er þarna úti í kringum jólin. Ég vona að þeir séu með svona jólamarkaði eins og Þjóðverjar, það er svo æðisleg stemming. Sigrún er svoleiðis?! Held að þú sért alveg rétta manneskjan til að spyrja :) Svo ákvað ég um síðustu jól að við myndum baka piparkökur og leyfa Ingibjörgu að mála þær og gera eitthvað svona skemmtilegt. Er líka búin að ákveða að setja skóinn út í glugga fyrir dömuna. Síðast fékk hún bara á aðfangadag en núna á að taka þetta með stæl. Ætli Danir séu ekki með jólasveina... kannski hafa þeir bara einn eins og Ameríkanarnir? Sigrún? En já, það er best að reyna aðeins að róa sig í jólastússinu... það er víst ennþá ágúst.

Ég keypti mér bókina Ekkert mál um daginn og hef langað að lesa nýju bókina Eftirmál eftir þá feðga Njörð og Frey, síðan ég kláraði hina. Elma fór á bókasafnið og tók fyrir mig bókina. Ég byrjaði aðeins í gærkvöldi en var svo þreytt að ég sofnaði fljótt. Hlakka til að lesa á eftir. Það sem ég hinsvegar skil ekki er að maðurinn skuli enn vera á lífi. Finnst það óskiljanlegt. Veit ekkert hvar hann er núna, það síðasta sem maður heyrði var þegar hann var tekinn með heróínið. Ætli hann sé inni á Hrauninu? Greyið maðurinn.

Mamma og pabbi eru að koma siglandi frá Færeyjum á eftir. Pabbi fer svo út á morgun, en okkur mæðgunum þrem er boðið út að borða í Egilsbúð annaðkvöld með ömmu og afa. Ég hef ekki farið í Egilsbúð að borða síðan nýjir eigendur tóku við svo ég hlakka til að smakka matinn, ég læt ykkur vita.

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Supernova

Jæja nú held ég að það fari að koma að því að Magni detti út. Finndist samt frábært ef hann héldist inni næst og dytti svo út, því þá er hann kominn í 5 manna úrslitin alveg eins og ég spáði honum. En pælið í því hvað maðurinn er búinn og er að upplifa? Jeminn eini hvað þetta hlýtur að vera súrrealískt. Mætti segja mér að fjölmiðlarnir eigi eftir að éta hann þegar hann kemur heim.
En mikið rosalega finnst mér hann Tommy Lee ógeðslegur. Ég á bara ekki til eitt aukatekið orð. Hann er bara hreinn viðbjóður. Minnir mig einna helst á leðurblöku, svei mér þá. Hinir eru þó aðeins skárri og finnst mér hann Gilby bara nokkuð heill... eða svona.

Ég fékk áfall í morgun þegar ég fór með tómar flöskur inn í bílskúr. Nei ekki voru það áfengisflöskur. Ég hafði hinsvegar drukkið þrjár litlar kók í gleri í gær. Já ÞRJÁR. Venjulegt kók finnst mér alveg gott, en þegar ég leyfi mér að fá mér litla í gleri þá verður bara ekki aftur snúið! Ég hugsaði á leið minni inn aftur, já já þetta er allt í lagi, ég er að fara til Danmerkur og þá hætti ég þessu. Á því augnabliki mundi ég ekki eftir bjórnum sem bíður mín í Danmörku. Ussuss... það verður eitthvað. Núna bíður mín ein ísköld í ísskápnum, og ég á ekki eftir að standast þá freistingu.

Við mæðgur vorum í kvöldmat hjá Elmu minni og áttum með henni fína kvöldstund. Fengum glænýjar kartöflur og gúllass :) Svakalega gott. Ingibjörg var þó hrifnari af ísnum, hún virðist ætla að verða eins og pabbi sinn, íssjúk.

Hádegismatur hjá ömmu og afa á morgun. Mitt uppáhald, skyrhræra. Það er víst á hreinu að maður á ekki að horfalla á meðan mamma og pabbi eru í burtu.

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

E.R.

Um 8 leytið í kvöld ætlaði ég að fara inn í herbergi að blogga, en ákvað nú samt að tékka hvort það væri eitthvað í tvinu áður. Guði sé lof þá gerði ég það því Bráðavaktin var að byrja. Þakkaði mínu sæla, því ég hefði orðið óð ef ég hefði misst af fyrsta þættinum í þessari seríu. Ég er sem sagt búin að horfa á þáttinn og varð vægt til orða tekið fyrir vonbrigðum. Fannst þetta leiðinlegur þáttur. Sakna Dr. Carters, hann er með svo flott nef. Skil svo ekkert í þessari Sam-druslu að vilja ekki Kovach. Ég meina það hver vill ekki Kovach!?! Skil svo ekkert í honum að vilja hana yfir höfuð!! Ég varð því bara fúl, en auðvitað horfi ég á næsta þátt :)

Mamma og pabbi eru farin til Föreyjanna. Verður spennandi að vita hvernig mamma fílar það, við erum nefnilega báðar á þeirri skoðun að þar sé ekkert að sjá. Held svei mér þá að mér finnist ekkert land eins óspennandi og Færeyjar. Finnst Grænland áhugaverðara. Heyrði í mömmu áðan og þá var bara þoka og hún sá ekki neitt. Örugglega alltaf þoka í Færeyjum og hvort sem er ekkert að sjá!! :)

Fæðingar- og meðgönguskýrslan mín er komin frá Reykjavík og bíður mín niður á spítala. Það er nú búið að vera meira vesenið að fá þessi gögn. Hringdi á Lansann til að fá skýrsluna og ætlaði að sækja hana þegar ég var fyrir sunnan. Nei það gekk ekki því það tekur viku að fá hana afhenta. Ég bað hana þá vinsamlegast um að senda mér hana, ég væri að fara að flytja til Danmerkur og ég YRÐI að fá hana!! Nei það var ekki heldur hægt. Ég yrði helst að fá lækni til að hringja og þá væri hægt að senda hana á Sjúkrahúsið hér. Þvílíkt og annað eins! Talaði við Hönnu Siggu frænku og hún reddaði þessu á nóinu. Ég ætla að sækja þetta í fyrramálið og hlakka ég mikið til að lesa hana :)

Fékk þær mæðgur Guðlaugu og Nönnu Björk í heimsókn í dag. Svakalega gaman að fá þær og var Nanna dugleg að leika við Ingibjörgu. Finnst alveg ótrúlegt að hún skuli vera orðin 6 ára og að byrja í skóla. Finnst eins og það hafi verið í gær þegar hún fæddist. Svei mér þá hvað tíminn líður hratt.

En jæja ég ætla að fara að horfa á Magna og taka svo úrslitin upp, meika það nú ekki að vaka yfir þeim og ekki heldur að ætla að bíða eftir þeim þangað til annað kvöld :)
Góða nótt.

mánudagur, ágúst 21, 2006

Reykjavíkurferðin

Ég er komin heim frá Reykjavíkinni og hef nú ekki hugsað mér að urga mér fyrr en ég fer til Danaveldis. Nenni ekki meiru nema þá kannski bara til að fara upp í sumarbústað.

Brúðkaupið var í einu orði sagt guðdómlegt. Hún Heiða mín er án efa fallegasta brúður sem ég hef séð. Ég vissi hreinlega ekki hvert ég ætlaði þegar hún labbaði inn kirkjugólfið með föður sinn sér við hlið. Hún var í svo fallegum kjól, hárið á henni var svo fallegt og svo er hún bara svo falleg eins og guð skapaði hana. Þarf sennilega ekki að taka það fram að ég grét alla kirkjuathöfnina og meira að segja í veislunni líka. Ég grét það mikið að eftir því var tekið, og þegar ég var að yfirgefa samkvæmið kom til mín maður sem sagði, já þú ert stúlkan sem er búin að skæla í allan dag! Já segið svo að það sé ekki tekið eftir manni :) En mikið er þetta erfitt! Það er alveg óskaplega erfitt að vera svona viðkæm og ef eitthvað er þá hef ég bara versnað. Og ég get ekkert að þessu gert. Akkúrta ekki neitt!! Þarf að skoða þá tillögu sem Rakel kom með, að láta sjóða fyrir táragöngin fyrir mína giftingu. Ég sennilega gifta mig ómáluð :) En já þetta var allt svo æðislegt, veislan skemmtileg og maturinn frábær, og meira að segja gott veður. Allt eins og best verður á kosið.

En mér tókst að koma þeim skötuhjúum gjörsamlega í opna skjöldu. Ég fékk Rakel með mér í lið og við fórum heim til þeirra og skreyttum svefnherbergið á milli kirkju og veislu. Það var æði :) Þetta hvarlaði ekki að þeim svo þetta kom þeim algjörlega á óvart. Ég hafði hnuplað húslyklum þegar við Heimir vorum bara tvö hjá þeim í júlí, svo það var greið leið :) Ohh þetta var svo gaman.

Ég gisti hjá Júlíu Rós og Hermanni, var mjög notalegt að vera hjá þeim. Þau lánuðu mér bílinn svo ég þeyttist um alla borg á ?egginu? þeirra :) Gaman líka að eiga smá stund með Júlíu þar sem ég er nú að fara að flytja. Takk elsku hjón fyrir mig. Á sunnudeginum kíktum við svo aðeins í Kringluna. Keypti þar svokallaða ?fyrstu skóna? handa Ingibjörgu. Nú er bara að sjá hvort hún rjúki ekki af stað í þeim.

Síðustu tveimur tímunum eyddi ég með Heiðu og Mona. Ég sé þau svo bara næst í nóvember. Hlakka orðið strax til!

Er sem sagt komin heim í blíðuna. Verð nú samt að segja að ég vona að henni fari nú að linna, ég er eiginlega bara föst inni út af ofnæmi! Meira helvítið! Þið fyrirgefið... En já svona getur maður nú verið eigingjarn... en ég má það alveg, ég er einkabarn :)

Læt þetta duga í bili. Ég kveð ykkur í kútinn, eins og Svanfríður myndi segja!

föstudagur, ágúst 18, 2006

ÁR

Nú er ár liðið síðan hún kom og heiðraði foreldra sína með nærveru sinni. Já hún á afmæli í dag, hún litla dóttir mín!! :) Jiii ég held svei mér þá ég sé að rifna úr stolti!! Hún kom nákvæmlega 14:35 í heiminn fyrir ári síðan. Um hálf 5 leitið var litla fjölskyldan komin inn á Hreiðrið og störðu foreldrarnir á þennann litla svarthærða gullmola. Stuttu síðar voru feðginin sofnuð eftir allt erfiðið, en móðirin var svo upptjúnnuð að hún sat spennt fyrir framan vögguna og gat engann veginn slitið augun af barninu.

Þetta er ótrúlegt, og enn ótrúlegra er að Ingibjörg skuli bara hafa dregið andann í eitt ár en ekki tíu, því mér finnst eins og hún hafi alltaf verið hérna hjá mér. En það er sko margt búið að gerast á þessu eina ári og við bíðum spennt eftir að vita hvað bíður okkar á ári númer 2. Verst að Heimir skuli ekki vera hjá okkur í dag, en svona er skólalífið :)

Ég fann tönn númer 12 í gærkvöldi!! Já frökenin ákvað að þóknast foreldrum sínum í þetta skiptið... 12 tennur á 12 mánuðum! :)


En jæja, ég bið ykkur að njóta dagsins í dag. Ég fer suður í kvöld og afmælisbarnið í bústaðinn með ömmu og afa. Brúðkaupið á morgun... þá verður Heiða mín, FRÚ Aðalheiður, fyndið :) Heyrumst eftir helgi.

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Ofnæmi

Nú er svoleiðis bongóblíðan hér í firðinum fagra, ekki skýhnoðri á himni. Hvað uppsker ég... jú svona hryllilegt ofnæmi að ég get eiginlega ekki verið úti! Sat í hálftíma úti á palli í gær, fór svo inn og klóraði augun næstum því úr mér. Samt er ég með töflur og augndropa en það hefur ekkert að segja. Þetta er ógeð! Ég er sem sagt ekkert búin að fara út í dag, en það er spurning hvort ég hætti mér í smá göngutúr þegar Ingibjörg vaknar.

Annars er þetta fjórði dagurinn hans Heimis í skólanum. Hann var nú í hálfgerðu sjokki eftir fyrsta daginn, en nú lítur hann björtum augum á framtíðina. Gekk vel í stærðfræðinni og eðlisfræðinni svo þetta er allt að koma. Auðvitað bara erfitt að kunna ekki málið almennilega. Hlakka til að heyra í honum á eftir og vita hvernig þessi skóladagur hefur gengið.

Júlía, pakkinn kom í gær. Skreytingarnar á honum voru ÆÐI, en annars liggur hann óhreyfður uppi í hillu :)

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Afmæli og brúðkaup

Þá erum við komin heim. Komum í gær. Æðislegir dagarnir uppi í bústað. Segi það enn og aftur, og meina það, þetta er himnaríki á jörðu!

Annars hugsa ég um lítið annað þessa dagana en afmæli og brúðkaup. Litla dýrið mitt verður eins árs á föstudaginn og ég er ekki að fatta það. Trúi því bara ekki að hún sé að verða ársgömul! Þar sem barnaafmælið er afstaðið ætla ég að halda smá kaffiboð á afmælisdaginn, svona fyrir fullorðnu vinkonurnar og langömmu og langafa :)
Nú svo eru Heiða mín og Símon að fara að gifta sig á laugardaginn. Ég hlakka alveg rosalega til, en kvíði samt svolítið fyrir því ég á sennilega eftir að gráta úr mér augun, og þegar ég byrja skal ég ykkur segja, þá er ekkert aftur snúið!! Hálf ömurlegt líka að hafa ekki Heimi með í þessu... svona til að styðja mig :) En ég fæ að sitja við hliðina á Rakel og svo hugsa ég nú að Jóhanna Björg verði ekki langt undan.
En ég fer því suður á föstudagskvöld, gisti hjá Júlíu Rós og Hermanni og fer svo austur á sunnudag. Þetta verður skemmtilegt. Mamma og pabbi ætla því að vera með Ingibjörgu uppi í bústað á meðan. Það verður örugglega ekki síður skemmtilegt hjá þeim :)

Annars er tanntakan að gera Ingibjörgu lífið leitt þessa dagana. Hún er eitthvað ónóg sjálfri sér blessunin og sefur ekki vel á næturnar. Var að rannsaka í henni munninn og þá er 11 tönnin komin fram, jaxl uppi og mér sýnist að hann sé á leiðinni hinum megin líka. Þetta allt svo bólgið og þrútið, mikið óskaplega hlýtur þetta að vera sárt. En ég er að vona að hin tönnin láti sjá sig fyrir afmælið, ekki leiðinlegt að ná tönn á mánuði :)

Hef ekki snert á neinum pakka... ennþá :)

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Pakkar

Nú eru afmælispakkar farnir að streyma til Ingibjargar. Áðan fékk hún pakka frá Líönu og co frá Þýskalandi. Ég get alveg sagt ykkur það, að mér finnst erfiðara að láta hennar pakka vera heldur en mína eigin! Mig langar svvvooo að opna þá, en ég ætla að reyna að standast þetta. Þetta er frekar erfitt þar sem mamma er jafn pakkaglöð og ég, og spyr hvort ég ætli virkilega að geyma pakkana þangað til 18. Fyrst ég gat látið jólapakkana í friði, þá hlýt ég að geta þetta líka :) Það væri þó betra ef Heimir væri á staðnum til að passa upp á þetta, því ég gæti alveg óvart ráðist á pakkana. Ég er þó búin að ganga frá þeim þannig að ég sé þá ekki... veit bara hvar þeir eru :)

Talandi um afmæli, en þá á hún Júlía Rós vinkona mín afmæli í dag. Og það ekkert smá afmæli, nei skvísan er þrítug!! Til lukku með það mín kæra. Veit að Hermann ætlaði með hana í óvissuferð :)

Það er sumarbústaðurinn á morgun. Hlakka til að koma í kyrrðina og við ætlum að vera alveg til mánudags. Hafið það því gott á meðan og við heyrumst eftir helgi.
Góða helgi.

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Fréttir

Það er svo mikið í fréttum að ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja!! Aðalfréttin er sennilega sú að VIÐ ERUM KOMIN MEÐ ÍBÚÐ!! :) Já það er sko þungu fargi af okkur létt. Við fengum inn á kollegi stutt frá Hrafnhildi og fjölskyldu á Amager. Aldeilis fínt. Fáum íbúðina 1. september þannig að við mæðgur förum út í byrjun sept. Gott að vera búin að fá tíma á það. Nú fyrstu gestirnir eru svo væntanlegir fyrstu helgina í nóvember og verða þau Heiða og Moni í 5 daga hjá okkur. Ekki leiðinlegt það. Svo veit ég að Júlía Rós og Hermann eru að spá í að koma og verður það vonandi sem fyrst, eða allavegna fyrir áramót.

Neistaflugið búið. Toppurinn á því var auðvitað Sálarballið! Það leiðinlega var hinsvegar að Heimir fór út strax eftir varðeldinn (það var nú reyndar aldrei kveikt í bálkestinum en...) á sunnudeginum. En ég tapaði ekki gleðinni og skellti mér á ball. Þar hinsvegar tapaði ég mér :) því ég hafði ekki farið á ball með þeim síðan í okt. 2004. Þetta var því kærkomin útrás sem ég fékk þarna á dansgólfinu.

Nú svo er fyrsta barnaafmæli okkar skötuhjúa liðið :) Það tókst vel og kom fullt af fólki. Þúsund þakkir fyrir Ingibjörgu.

Annars erum við að hugsa um að stinga af upp í sumarbústað á fimmtudag og vera yfir helgina. Pabbi er búinn að lofa mér því að ég fái að gera svolítið sem ég fékk aldrei að gera þegar ég var krakki. Mála :) Held að ég eigi að mála bústaðinn!!

Fyrsti skóladagurinn hans Heimis míns er á mánudaginn. Hlakka til að heyra hvernig það gengur og hvort hann sitji alveg eins og álfur og skiji ekkert í dönskunni :)


Eru fleiri en bara ég miður sín yfir lokaþættinum í O.C. í gærkvöldi?! Jeminn eini... eru ekki fleiri þáttaraðir vitið þið það? Ég bara á ekki til eitt aukatekið orð!

föstudagur, ágúst 04, 2006

4. ágúst

Í dag er ár síðan að Ingibjörg ÁTTI að koma í heiminn. Ótrúlegt. Man þennan dag vel og mun sennilega muna hann alltaf :) Beið allann daginn eftir að eitthvað færi að gerast en nei, mín prinsessa ákvað bara að taka því rólega í leiguhúsnæðinu og kom ekki fyrr en hálfum mánuði seinna. Jiii hvað það var ekki samkvæmt mínu plani. Samt var ég alveg ótrúlega róleg meðan allir í kringum mig voru alveg að missa það :) Þá sérstaklega mamma og pabbi. Já svona er það, ég hlakka til að vita hvernig næsta barn muni haga sér.

Fórum á setninguna á Neistafluginu. Það létti til þegar líða tók á daginn svo að það sást í fjallið hinumegin :) Þetta var voða gaman eins og alltaf, Bjarni Freyr söng eins og engill nokkur Queen lög, mér finnst þeir félagar Gunni og Felix alltaf jafn skemmtilegir og svo toppaði Jónsi það auðvitað í lokin.

En jæja, er búin að vera að baka og stússast í dag. Nú er á ég bara eftir að setja kremið á :) Bíð ykkur góðrar nætur og farið varlega um helgina.

fimmtudagur, ágúst 03, 2006

Loksins

rofaði til hér hjá okkur!! Reyndar ekki fyrr en eftir hádegi, en það var gott að sjá sólina :) Kominn tími til. Ég sem var nýbúin að kvarta... kannski les einhver æðri bloggið mitt, hver veit :)

Feðginin fóru í klippnigu og er Ingibjörg komin með þennan fína topp, er samt ennþá með lufsurnar í hliðunum. Það verður nú bara að vera þannig fyrst hún er að safna. Hmmm eða fyrst ég er að LÁTA hana safna :) Nú er bara greitt á bak við eyrun.

Við vorum að koma úr 2ja ára afmæli hjá Arnari Frey. Voða gaman og mikið af fólki. Sá litlu Matthildi í fyrsta skipti, svaka myndarleg stelpa. Samt svo fyndið að sjá svona lítið barn, get bara alls ekki munað að Ingibjörg hafi nokkurn tímann verið svona lítil. Maður er svo fljótur að gleyma.

Neistaflugið byrjar á morgun. Jiii hvað það verður skemmtilegt. Get ekki beðið eftir Sálarballinu. Það verður nú samt skrítið, því Heimir fer út á sunnudagskvöldið. Hann nær varðeldinum og því en ekki ballinu. Ógeðslega leiðinlegt því við vorum búin að hlakka svo til þess. En svona er það. Við förum bara saman á Sálarball í Köben :) Nú svo verður haldið upp á afmælið hennar Ingibjargar á laugardaginn svo það er nóg að gera.

En jæja, látum þetta gott heita í bili.

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Den eneste Ene

Hrafnhildur og fjölskylda gáfu mér þessa dönsku mynd í afmælisgjöf. Við skötuhjú settumst loksins niður til að horfa á hana, og hún er sko í einu orði sagt æðisleg. Hún er bara frábær, maður hlær sig máttlausan og grætur svo inni á milli. Ég byrjaði reyndar á því að segja við Heimi að ég ætlaði að hafa enskann texta svo ég myndi nú ná einhverju samhengi, en þá var það ekki í boði. Alveg er ég viss um að Hrafnhildur hefur gert það viljandi :) hún hefur leitað að spes útgáfu sem væri ekki með enskum texta :) En já við horfðum semsagt á þessa mynd með dönskum texta. Leist nú ekkert á þetta til að byrja með, sofnaði meira að segja yfir myndinni, en var svo vel vakandi yfir seinni hlutanum. Við áttum samt frekar erfitt með að skilja dönskuna þegar við lásum ekki textann, en svo þegar leið á myndina var þetta allt annað. Ætla nú rétt að vona að maður nái þessu blessaða máli fljótt, en mikið óskaplega er það leiðinlegt.

Við áttum skemmtilega kvöldstund með Brynju og Óla Val í gærkvöldi. Okkur var boðið í þetta fína matarboð og voru dýrindis kræsingar á borðum. Ingibjörg var alveg yfir sig hrifin af Írisi Ósk, sat og starði á hana og fannst allt merkilegt sem hún gerði og var með.

Við mamma brunuðum á Reyðarfjörð í dag til að versla í afmælið. Ætla bara að láta ykkur vita af því að það var sól og blíða um leið og maður kom yfir Skarðið!! Jahérna hér? er farin að halda að þetta sé eitthvert skítabæli hér. Er orðin hundleið á þessari þoku og rigningu!