mánudagur, júlí 31, 2006

Fjarðabyggð

Hún Elma skrifaði á blogginu sínu um daginn, um póstkortin sem gefin voru út til kynningar á Fjarðabyggð. Er alveg sammála því sem hún segir þar, en það sem stakk mig mest þegar ég fékk þetta í hendurnar er að það er engin mynd frá Neskaupstað. Ég held að þetta sé alveg rétt hjá mér, get ekki séð að nein væri héðan! Er alveg yfir mig hneyksluð. (Leiðréttið mig ef það er vitleysa).

Er búin að panta tíma fyrir Ingibjörgu í klippingu núna á fimmtudaginn. Þá er það í annað sinn sem hún fer í sjöningu. Hún er eiginlega orðin eins og Monsa um hárið, með þvílíkt sítt í hliðunum. Heimir fer líka, hann verður nú að vera eins og maður þegar hann fer til Danaveldis.


O.C. fer að byrja... má ekki missa af því :)

sunnudagur, júlí 30, 2006

Himnasæla

Mikið er yndislegt að vera uppi í sumarbústað. Manni er gjörsamlega kippt út úr þessu daglega amstri, ekki símasamband, ekkert sjónvarp, enginn í nágrenninu og ekkert áreiti. Alveg himneskt. Það eina sem maður heyrir er fuglasöngur og í vindurinn í trjánum. Heimir er voða hrifinn af þessu og hefði helst viljað vera þarna í allt sumar :) Nú er líka nóg að gera, verið að byggja nýjan pall og allt á fullu. Við fórum og kíktum upp á Kárahnjúka. Nú fer hver að verða síðastur :) Rosalegt mannvirki er þessi stífla, ekkert smá. Hlakka til að fara þarna þegar allt er búið. Ótrúlegt að hugsa að þar sem maður stendur og horfir yfir svæðið á eftir að fara allt undir vatn. Sá reyndar ekki neinn mótmælanda, var sagt að þeir hefðu farið niður á Reyðarfjörð. Veit ekki hvernig þetta lið nennir að standa í þessu. Það er ekki eins og það verði hætt við þetta. Veit allavegna að ég myndi ekki nenna þessu.
Ég gleymdi mér alveg yfir albúmunum upp í bústað. Upprunalegi bústaðurinn var byggður árið 1978 og hafa amma og afi haldið dagbók með myndum síðan þá. Þarna eru myndir af mér að byrja að brasa með þeim 2ja ára gömul og svo uppúr. Svakalega gaman að skoða þetta, svo góðar og skemmtilegar minningar sem ég á frá þessum stað. Færist alltaf kyrrð yfir mig þegar ég keyri upp á melinn og sé bústaðinn blasa við nokkrum sekúndum síðar. Hreinn unaður.

Jæja nú styttist í fyrsta barnaafmælið okkar :) Ætlum að halda það næsta laugardag. Reyndar tveimur vikum fyrir afmælisdaginn en það er í lagi. Verðum að halda þetta svona snemma svo að Heimir nái veislunni. Finnst mjög leiðinlegt að Heiða verði ekki á staðnum og ekki heldur Júlía Rós og fjölskylda. En svona er það.

Aðeins vika í að Heimir fari. Hrikalega leiðinlegt!

fimmtudagur, júlí 27, 2006

Skriðin af stað

Já Ingibjörg er byrjuð að skríða, og það á fjórum! :) Hún ákvað að fara af stað daginn eftir að við fórum suður, agalega sniðug. Ætlaði ekki að trúa mömmu þegar hún sagði mér þetta. En við komum heim í gær. Tókst allt vel í Reykjavík og höfðum við það voða gott hjá Heiðu og Mona. Keyrðum suðurleiðina heim og gistum í Geirlandi fyrir ofan Kirkjubæjarklaustur. Ægilega fínt allt saman. Rosalega er nú fallegt þarna! Við dóluðum okkur svo bara heim, skoðuðum Núpsstaði og Stafafell, rúntuðum um Höfn, ásamt því að borða Humarpizzu :) og tókum svo Djúpavog í nefið. Voða gaman.

Það styttist aldeilis í að Heimir fari út. Ótrúlegt hvað tíminn líður. Ingibjörg ársgömul 18. ágúst og svo er brúðkaupið hjá Heiðu og Mona 19. ágúst. Allt að skella á!

Annars ætlum öll að skella okkur uppí bústað á morgun. Vera þar yfir helgina og hafa það nice. Kíkja jafnvel upp á Kárahnjúka.
Hafið það gott og góða helgi.

laugardagur, júlí 22, 2006

Suður á bóginn

Þá leggjum við af stað suður í fyrramálið. Ætlum norðurleiðina núna og syðri tilbaka. Bara svona til að taka hringinn :) Ég fer í aðgerðina á mánudaginn og erum við að hugsa um að keyra eitthvað áleiðis á þriðjudag og svo heim á miðvikudag. Gista jafnvel í Hörgslandinu góða. Ingibjörg verður skilin eftir í góðu yfirlæti hjá mömmu og pabba. Það verður nú ekki vandamálið.

En við vorum að koma heim, fórum út að borða á Hótel Eddu með Júlíu Rós og Hermanni. Voða gaman, æðislega góður maturinn og allt voða fínt þarna. Verst að þokan er svo rosaleg núna að það sást varla út á sjóinn!! Og hvað þá á milli húsa núna í þessum skrifuðu orðum. Ég sem ætlaði að sjarmera Hermann alveg upp úr skónum með útsýninu yfir fjörðinn. Hann er nefninlega ekkert svo ægilega hrifinn af staðnum. Ég get nú reyndar verið sammála honum með innkeyrsluna í bæinn, finnst hún ekki mikið falleg og allt of mikið af drasli í kringum sum hús og vinnusvæði. Finnst t.d. gamla olís vera til háborinnar skammar... afhverju er ekki búið að rífa þetta? En eins og Hermann segir, þá lagast þetta þegar maður kemur að Trölla og hann var voða hrifinn af Mýrunum, svo honum er fyrirgefið :)

Við fórum í 3ja ára afmæli yfir á Eskifjörð í gær. Fröken Hólmfríður átti afmæli. Ægilega gaman að hitta alla fjölskylduna hennar Júlíu, gaman að sjá hinar tvær systurnar sem ég hef aldrei hitt og svo auðvitað Kristjönu. Hún er búin að bjóða mér yfir til sín í skrapp föndur við tækifæri. Hún á allar græjur til þessa og ætlar að kenna mér. Það kæmi mér ekki á óvart að ég fengi æði fyrir því, sem er svosem ágætt... get dundað mér í Danmörku :)

En já, ég er ekki alveg að nenna að fara að leggja afstað á morgun suður. Langar akkúrat ekki neitt!! En það verður nú samt gaman að vera hjá Heiðu og Símoni þessa daga. Það er ljósi punkturinn við þessa ferð. Jæja, ég segi bara bless í bili og við heyrumst seinnipartinn í næstu viku. Hafið það gott þangað til og gangið á Guðs vegum.

P.S. Kristjana rosa fínar myndirnar úr afmælinu og þá sérstaklega af okkur :)

þriðjudagur, júlí 18, 2006

11 mánaða í dag

Já þá er Ingibjörg orðin 11 mánaða sem þýðir að það er mánuður í ársafmælið!! :) Frekar skrítin tilhugsun. Hún er orðin voða dugleg að brölta um þó hún sé nú ekki farin að skríða ennþá. Það vantar samt ekki mikið upp á, hún fer upp á fjórar og vaggar sér fram og tilbaka, vantar herslumuninn. Svo er hún farin að geta reist sig upp við sófann og er þá voða roggin með sig :) Það hefur svo ótrúlega mikið gerst hjá henni þroskalega séð síðustu tvær vikurnar, það verður gaman að vita hvað hún verður farin að gera eftir mánuð.

En já það hefur ýmislegt á daga mína drifið síðustu daga. Við mæðgur fórum í bústaðinn sem var æðislegt. Þvílík afslöppun, þetta er bara draumur. Heimir kom svo á föstudeginum og þá fórum við heim. Hann er búinn að ná hreindýrinu sínu. Mjög glaður með það og ég líka, því ég fæ þá nóg að borða :) Fórum upp á Egilsstaði í dag. Alveg merkilegt hvað mér finnst alltaf gaman að koma þangað. Svo mikið líf og mikið af fólki.

En jæja, ætlaði bara rétt að láta vita af mér. Horfi á austfjarðarþokuna læðast hér inn fjörðinn og því best að fara að koma sér í háttinn. Bið ykkur vel að lifa. Góða nótt.

miðvikudagur, júlí 12, 2006

Helgin byrjar snemma

Jæja við fórum í göngutúr í dag þrátt fyrir afar kaflaskipt veður. Skelltum okkur út þegar það stytti upp og vorum komnar aðeins áleiðis þegar það byrjaði að rigna, alveg eins og hellt hefði verið út fötu! Jeminn eini. En þetta var hressandi eins og alltaf, og enginn er verri þótt hann vökni.

Heimir kemur ekki á morgun heldur hinn!! Vei!! :) Hlakka mikið til. Við förum í bústaðinn á morgun og ætlum að kíkja í búðir og svona skemmtilegheit á Reyðarfirði og Egilsstöðum. Spáð góðu þannig að það verður æði. Heiða og Moni eru svo að koma um helgina og verður gaman að hitta þau.

Helgin byrjar snemma hjá mér svo ég segi núna góða helgi.

þriðjudagur, júlí 11, 2006

Leti leti

Þvílíkur letidagur hjá mér í dag. Kenni rigningunni um. Gott að geta kennt einhverju um :) Er eiginlega bara búin að horfa á sjónvarpið og prjóna í dag. Reyndar búin að gera það nauðsynlegasta eins og að hugsa um barnið mitt, borða og fara á klósettið. Vona að það verði sól á morgun svo ég geti drifið mig út í göngu. Jú ég afrekaði eitt í dag og það var að elda matinn. Fengum Elmu í mat og ég sá um eldamennskuna :)

Fór upp á háaloft í gær. Var að reyna að finna eitthvað gamalt dót sem ég gæti sýnt Ingibjörgu. Það sem ég fann voru tveir stórir kassar fullir af böngsum og dúkkum og það er svo vond lykt af þeim að ég býð henni það ekki einu sinni. Svo fann ég þarna nokkrar harðar bækur sem frökenin hefur aldeilis dundað sér við að skoða og svo reiknisstokk sem mamma og Líana áttu :) Meira af dóti fann ég ekki. Semsagt, móðir mín kær hefur hent öllu dótinu mínu, eins og mig svosem grunaði!! En það sem mér finnst voða gaman er að ég á ennþá allt skóladótið mitt. Get skoðað það aftur og aftur. Krotið á möppunum, I love þennan og I love hinn :) Yndislegt.

Annars erum við að hugsa um að taka stefnuna á sumarbústaðinn á fimmtudag. Það verður notalegt. Hef ekkert komið uppeftir síðan að mamma og pabbi eignuðust hann. Heimir kemur svo á föstudag og þá ætlum við heim, við þrjú.


Segjum þetta gott í bili, góða nótt.

mánudagur, júlí 10, 2006

Skírnarkjóll

Loksins. Ég er byrjuð að prjóna skírnarkjól. Ég hef ætla að gera þetta síðan ég byrjaði að prjóna en aldrei fundið neinn sem mér hefur líkað. Fyrir ca. einu og hálfu ári síðan lágum við Anna yfir prjónablöðum og öðru til að finna kjól og vorum að spá í að smella tveimur saman, en það varð ekkert úr því. Ég nennti ómögulega að fara að telja út og vesenast þannig að ég hætti bara við allt saman og ætlaði bara að bíða þangað til ég fyndi þann rétta. En nú lét ég verða að því. Anna á draumakjólinn, svo við erum búnar að telja út, finna lykkjufjöldann, munstrið og allt heila klabbið, þannig að nú get ég bara byrjað :) Næsta barn ætti því að vera skírt í mínum kjól! Tek það nú samt skýrt fram að ég er EKKI ólétt!! EKKI ólétt!! :)

Hef ekkert séð vibbagula köttinn síðustu daga... kannski hefur einhver annar en ég náð honum?! Frétti af honum síðast í garði á Mýrargötunni :)

föstudagur, júlí 07, 2006

Kattaróféti

Hérna fyrir utan hús er mamma með risastóra fjallarós, mætti eiginlega halda að plantan væri á sterum hún er svo stór. En allavegna eru þrastarhjón búin að hreiðra um sig þarna og situr kellan öllum stundum á hreiðrinu en það eru ekki komin egg ennþá. Bæði í gærkvöldi og fyrrakvöld hefur svo risa gulbröndóttur ógeðslegur köttur búinn að vera að sniglast þarna. Er samt ekki viss hvort hann sé búinn að fatta að þeir séu þarna. En þessi tvö kvöld hef ég heyrt þessi líka svaklegu læti í fuglunum og þá er helvítið að vesenast þarna. Í gær sá ég svo kattarfjandann með eitthvað hvítt í kjaftinum og hann hreyfði sig varla fyrr en ég svoleiðis dúndraði í rúðuna. Sem betur fer var hann bara með bein sem að hundurinn hér fyrir ofan var að gæða sér á í gærdag. Ég er hinsvegar að hugsa um að sitja fyrir honum í kvöld með grjót og henda í hann. Hann er líka svo ljótur, svo feitur og viðbjóðslegur! En ég hef miklar áhyggjur þegar ungarnir fara á stjá, ætli við verðum ekki bara að taka vaktir svei mér þá. Ég bara þoli ekki ketti!!

RockStar Supernova... æji þeir eru ekki alveg að gera sig fyrir mig. Enda er ég nú kannski ekki þekkt fyrir að vera mikill rokkari :) Mér finnst þessir kappar þarna líka svo sjúskaðir og ógeðfelldir eitthvað. En flott hjá Magna að hafa komist áfram, vonandi kemst hann bara sem lengst. Vona þó að hann vinni ekki, svona fjölskyldunnar vegna. Held líka að það sé engin hætta á því :)

Við Brynja örkuðum bæinn þverann og endilangan í ausandi rigningu í dag. Það var þó bara hressandi og gott og fínt að stoppa á Kaffihúsinu og drekka í sig smá hita.

Jæja ætli það sé ekki best að fara að finna sér grjót og koma sér fyrir í leyni :) Góða nótt.

fimmtudagur, júlí 06, 2006

Nóg að gera

Þið verðið að fyrirgefa en það er svo mikið að gera hjá manni hérna í sælunni að ég gef mér bara engann tíma til að blogga :) annars líður mér óskaplega vel hérna heima. Við mæðgur erum búnar að fara í göngutúr með Brynju og Valþóri Snæ og kíktum á Kaffihúsið. Svaka gaman og verður án efa endurtekið fljótlega aftur :)
Veðrið er búið að vera yndislegt í dag, bara búið að sitja úti á palli í blíðunni. Við mamma fórum í göngu, hittum Elmu og fengum okkur ís og dúlluðum okkur.

Snorri Idol Snorrason er alveg málið núna. Get svo svarið það! Keypti mér diskinn hans í dag og hann er bara æðislegur... syngur alveg eins og engill, drengurinn.

Mig dreymdi í nótt að ég væri á Sálarballi, svakalega skemmti ég mér vel. Ætla ekki að segja ykkur hvað ég hlakka hryllilega til Verslunarmannahelgarinnar!! Er bara frekar smeik um að ég eigi alveg eftir að missa mig :) jeminn ég er svo spennt!

Footballers Wifes eru byrjaðir aftur, snilldarþættir :)

mánudagur, júlí 03, 2006

Heim í Heiðardalinn

Jæja þá er ég flutt heim í bili. Búin að pakka öllu og fylla bílskúrinn hjá Júlíu Rós og Hermanni :) Vorum eins og útspýtt hundskinn síðustu dagana en við fengum góða hjálp frá góðu fólki. Takk öll. Við náðum ekki að skila íbúðinni á föstudeginum þannig að við afhentum hana á laugadeginum og keyrðum svo til Kirkjubæjarklausturs og gistum í bústað í Efri vík. Ferðalagið gekk svaka vel og heyrðist ekki múkk í Ingibjörgu allann tímann. Komum auðvitað við á Ósnum á Höfn og fengum okkur humarpizzu, fastur liður eins og venjulega :) Komum svo heim í gær og fór Heimir tveimur tímum síðar aftur suður... fljúgandi, best að taka það fram svo þið haldið ekki að við séum eitthvað rugluð :) En já við mæðgur erum því bara tvær hérna í góðu yfirlæti.

Óskaplega finnst mér fallegt á Höfn og í nágrenni. Finnst líka miklu skemmtilegra að keyra syðri leiðina en norður leiðina. Finnst svo fallegt undir Eyjafjöllunum og á Kirkjubæjarklaustri. Eitt fallegasta bæjarstæði fyrr og síðar er líka á leiðinni, Foss á Síðu.

Uss uss ég hélt ég færi yfirum yfir Grey?s anatomy í kvöld. Guð minn eini, ætli Dr. Burke sé ekki dáinn?! Og hvað er Izzy að gera?! Ég kom með þá kenningu að maðurinn fengi hjartað úr Dr. Burke, en Heimir var fljótur að drepa það niður og sagði að þeir myndu pottþétt báðir deyja!! Hlakka til að sjá næsta þátt.

LOST!