Voðalega er eitthvað vetrarlegt og kuldalegt í dag. Ekta dagur til að vera bara inni og hafa það gott. Við mæðgur erum líka búnar að hafa það ótrúlega gott í dag. Vöknuðum ekki fyrr en kl. hálf 11 í morgun, skelltum okkur þá í sturtu, setti í þvottavél, skúraði íbúðina, skipti á rúminu hennar og er búin að strauja!! Ingibjörg gafst upp í miðjum skúringum og lagði sig í tvo og hálfan tíma. Einnig náði ég að lesa 16 síðna verkefni fyrir Heiðu og svo núna kl. hálf 5 er ég að blogga :) Tel þetta bara nokkuð gott í dag!
Jóhanna og Helgi Gnýr komu í heimsókn í gær. Voða gaman að sjá þau, hef ekki séð Helga Gný í meira en ár, ef það nálgast ekki bara 2 ár! Ingibjörg var voða hrifin af þeim mæðginum og var ekkert að spara brosin :) Þau gáfu henni svaka fínann gallaskokk og bol innan undir, takk fyrir það :)
Við Jóhanna gátum rifjað upp hrifningu hennar á Garðar Thor Cortes. Ég horfði nefnilega á Sjálfstætt fólk á sunnudeginum og það eina sem ég hugsaði um var Jóhanna. Hún sendi honum bréf á sínum tíma (tíma Nonna og Manna semsagt) og fékk tilbaka áritaða mynd af honum sem hún stillti upp í ramma á náttborðinu sínu :) Hún lét nú ekki staðar numið þar, heldur veggfóðraði hún herbergisveggina með plakötum af honum :) Jesús góður það var fyndið. Ég var nú aldrei neitt voða spennt fyrir honum... man ekki hverjum ég var spennt fyrir þarna á þessum tíma... manst þú það Jóhanna? Ætli það hafi ekki bara verið hann Kristján minn!! Það hefur aldrei verið neinn nema hann :)
Reyndar man ég nú eftir að hafa verið voða skotin í honum Eiríki Haukssyni á tímabili, ekki skil ég það nú í dag. Ég rakst fyrir nokkrum árum á hann á Gauknum og þá notaði ég tækifærið og strauk á honum hárið, nokkuð sem mig hafði lengi langað til að gera. Hann tók því nú bara vel. Þarf sennilega ekki að taka það fram (en best að gera það samt) ég var vel við skál :)
Jæja ég æði úr einu yfir í annað hérna... er að hugsa um að fara að skrifa jólakort.