þriðjudagur, október 31, 2006

Lyklavöld

Já við fáum lyklana í dag!! :) Ætlaði bara að láta ykkur vita af thví. Nóg að gera að fara að pakka niður fatnaði og öðru sem við vorum búin að taka upp hér. Veit ekki hvenær ég get skrifað næst, erum allavegna búin að sækja um internet og annað, en svo veit maður ekkert hversu hröð thjónustan er :)
Hafið thad gott thangað til.
Úrsúla Manda

mánudagur, október 30, 2006

U.S.A.

Búið að breyta klukkunni. Nú er bara einn tími á milli okkar :) Langt síðan ég hef tekið þátt í tímabreytingum, eða síðan árið 1999 í Ameríkunni. Fyndið hvað mér verður oft hugsað til þessa tíma sem ég var þarna. Finnst stundum sumt hér minna mig á minningar sem ég á þaðan. T.d. Helloween. Fannst alveg magnað að fá að upplifa það í Ameríku og það með litlum strákum sem lifðu sig algjörlega inn í þetta. Og hvað þá Thanksgiving!! Í alvöru þá er þetta eins og í sjónvarpinu :) Æði. Líka haustið þarna úti. Það var alltaf einhver spes lykt og hana finn ég stundum hérna. Þá sé ég alveg fyrir mér þegar ég sat með miðstrákinn í öllum laufunum í garðinum og við átum hnetur sem höfðu dottið úr trjánum. Hann var tveggja ára, leit á mig og sagði: Ursula, this is wonderful! Þetta sagði hann á sinni barnslegu bjöguðu ensku. Bræddi mig alveg. Algjör draumur. Reyndar fannst mér alltaf eins og það gæti ekki verið að ég væri í Ameríku þegar ég bjó þar. Hef alltaf haft mikið dálæti á USA og fannst þetta svo óraunverulegt, hugsaði oft... jiii það passar ekki að ég sé stödd hérna. Ég get nú alveg sagt ykkur að ég hef ekki fengið þessa tilfinningu hér. Ekki að mér líki neitt illa, held bara að það sé komin lítil reynsla á þessa búsetu mína.
Það sem mér fannst líka alveg frábært var opnunartíminn í búðum. Ef það var ekki opið allann sólarhringinn þá var allavegna opið til 9. Finnst mikill sjarmi að geta skroppið þegar manni hentar í búðina. Ef mér datt í hug að miðnætti að kíkja í Walmart, nú þá var ekkert því til fyrirstöðu :) þá voru líka fáir á ferli og yfirleitt bara starfsfólk að fylla á hillurnar. Hmmm, hér er ekki einu sinni opið á sunnudögum?!? Hvað er málið?!? Og ef manni vantar eitthvað í matinn þá getur maður fundið verslun sem er opin á sunnud. en þá eru vörurnar líka dýrari!! Er ekki alveg að ná þessu. Sennilega á ég samt eftir að venjast þessu. Held reyndar að danir séu líka bara latir.
En mér er mjög oft hugsað til fjölskyldunnar sem ég var að passa hjá úti, sá yngsti er núna að verða 8 ára! Váá, hann náði ekki að verða ársgamall þegar ég fór. Og sá elsti er 13!! Jeminn. Ég er búin að heita sjálfri mér því að fara aftur til Tulsa til að skoða og rifja upp minningar.

Að öðru. Við hringdum í húsvörðinn að Myggenæsgade 7 í dag. Spurðum hvenær við gætum fengið lykilinn. Hann sagði að við gætum jafnvel fengið hann á morgun!!! Já þannig að þetta er kannski síðasta nóttin hér í holunni, nú ef ekki sú síðasta - þá næstsíðasta :) Við eigum að hringja um hádegi á morgun til að ath. Vona eiginlega að við getum flutt á morgun, það hentar betur. Heimir búinn um hádegi í skólanum, og þá værum við ekki að standa í þessu daginn sem Heiða og Símon koma.

Annars var helgin fín. Við mæðgur vorum nú reyndar að mestu saman þar sem Heimir var að gera tvær eðlisfræðiskýrslur... á dönsku!! Við skelltum okkur í fínann göngutúr á sunnudeginum í kringum vatnið eða síkið (veit eiginlega ekki hvað þetta er) sem er í nýja nágrenninu okkar. Löbbuðum núna allann hringinn, ekki eins og síðast þegar við fórum yfir brúna. Ægilega skemmtilegur staður, greinilega vinsæll útivistarstaður því þarna er allt fullt af fólki bæði að skokka og ganga. Á öllum aldri líka, er ekki frá því að ég hafi nú bara fundið Stebba þorleifs Danmörku :) Maður um áttrætt sem skokkaði allavegna 2 hringi, í hlaupabúning og öllu. Alveg brilljant. Fannst gaman að spá í fatnaðinum hjá fólkinu. Sumir voru í spanndex gallanum alveg frá toppi til táa og másuðu og blásuðu eins og skokkarar eiga að gera. Ætli ég verði ekki komin í hópinn eftir árið :) vel mér þá fallega bleikan og bláan galla og hleyp með Stebba kallinum. Líst vel á planið.

En já, ég hafði ekkert að segja þegar ég byrjaði bloggið en datt svo niður í Ameríku hugsanir :) Gæti haldið áfram að dásema landið, geri það kannski síðar. Á örugglega eftir að dreyma vel í nótt. Læt ykkur vita á morgun hvernig fer með íbúðina.
Góða nótt.

föstudagur, október 27, 2006

Söngvaborg

Ingibjörg á Söngvaborg 3 og það get ég alveg sagt ykkur að ég er komin með upp í kok af þessu. Ef ég vakna á næturnar og get ekki sofnað strax aftur þá óma lög eins og þessi í höfðinu á mér :

Geturu tvistað og bent með fingrinum...
Við skýin felum ekki sólina af illgirni...
Og löggan prumpar svoooona...
Já busl, já busl, busl, busl...

ARGGGHHHHHH!
Ekki nóg með það en þá fer hún blessaða María alveg í mínar fínustu! Hvað er málið með hárið á henni á þessum disk? Get svarið það... svo er hún eitthvað svo stíf og ekki alveg að gera sig! Annað en hún Sigga :) finnst hún æði, svo glöð og ekkert tilgerðarleg, eðlileg í hreyfingum og ekkert vesen.
Svo er nú þessi læknir sem kemur þarna með smá pistil... er ekki alveg lágmarkið að maðurinn tali rétta íslensku?! Gæti öskrað í hvert sinn sem hann segir : og svo nota ég svona tengur!!! Arghhhh... og ég segi í hvert sinn: TANGIR asninn þinn!! Fyrirgefðu, en tengur... ég fæ bara gæsahúð við að segja þetta!
En já svo ég missi mig nú ekki alveg í þessu :) þá bað ég mömmu og pabba að kíkja eftir Söngvaborg 1 eða 2 á leið sinni um Leifstöð, svona svo ég myndi nú ekki tapa geðheilsunni. Frétti af þeim bæði í Smáralind og Kringlunni, þar sem þetta fannst og voru báðir diskarnir keyptir!! :) þeim virðist því annt um geðheilsu dóttur sinnar.

En Ingibjörg gjörsamlega elskar þennan disk og klappar og dillir sér alveg hægri vinstri. Og í hvert sinn sem maður kveikir á tölvunni þá sperrist hún öll upp og segir Möaaa! Veit ekki alveg hvað það á að þýða en... og svo bendir hún á hulstrið. Get ekki beðið eftir að fá hina diskana til að heyra eitthvað annað.

En mér finnst krakkarnir voða dugleg að syngja sem eru á disknum. Sérstaklega litli sjarmörinn sem syngur t.d. Róbert bangsi :) Hann er æði, með þvílíku taktana og allt á fullu hjá honum. Svo er ein stelpa sem er með alveg snjóhvítt hár sem mér finnst svo rosalega lík Huldu Elmu þegar hún var lítil :) fyndið.

Að allt öðru! Það var svakalega gaman hjá okkur Sigurlaugu í gær. Það var ekki eins og við höfðum ekki hisst í 1 og hálft ár, bara nákvæmlega eins og var alltaf. Fyndið :) Heimir hitti okkur niðri í bæ eftir skóla og tók Ingibjörgu og þá vorum við alveg eins og í the old days, tvær að skoða og versla :) Fórum svo auðvitað á MamaRosa og höfðum það gott.

En helgin bara komin. Sem þýðir að þetta er síðasta helgin hér á Öresundskolleginu!! YES!!!! Alveg að fara að flytja úr þessu skítabæli! Ohhh get ekki beðið!!

Fór í Nettó og Fakta í dag... Komið Jóladót í búðirnar!! :) Sá snilldar dagatalakerti. Eru 24 lítil kerti, merkt hverjum degi. Ætla pottþétt að kaupa svona í staðinn fyrir eitt stórt. Úúhúúhúú get ekki beðið :)
Góða nótt!

miðvikudagur, október 25, 2006

Fögnuður

Fórum út að borða á Jensen?s í kvöld. Fagna því að það er aðeins vika í flutning :) Vorum að labba út úr íbúðinni þegar Heimir hefur orð á því hvað það væri nú nice að fara bara tvö. Og ég med det samme, hringdi í Hrafnhildi og við skutluðumst með dömuna til þeirra :) ekki lengi að redda barnapössun í Köben! Þannig að við skötuhjú fórum bara tvö út að borða. Ægilega huggulegt hjá okkur. Þarf ekki að taka það fram að við átum á okkur gat!

En já, við heimsóttum vöggustofuna í morgun. Líst rosa vel á hana. Þarna eru 5 deildir, 12 börn á deild og þrír á starfsmenn á hverri deild. Það voru þrenn pör með okkur og þau voru öll með 3-4 mánaða kríli með sér!! Jeminn eini... En það er víst upp í árs bið að komast þarna að, en fyrst Ingibjörg er orðin eins árs ætti hún ekki að þurfa að bíða svona lengi. Þarf að hringja á skrifstofuna til að athuga með það.

Annars á ég í vændum skemmtilegan morgundag. Sigurlaug Eva er að koma til Köben og ætlum við að hittast á Strikinu (suprise?!) um þrjú leytið á morgun. Hlakka mikið til. Við höfum sennilega ekki sést í eitt eða eitt og hálft ár, svo það verður gaman að endurnýja kynnin. Heimir ætlar svo að koma eftir skóla og taka Ingibjörgu og þá verðum við Sigurlaug alveg eins og í the old days, tvær að rölta í búðunum :) Við áttum það nefnilega til að byrja fyrir hádegi á laugardegi og taka bæði Kringluna og Smáralind í nefið!! Enduðum síðan vanalega á Fridays en þar sem það er ekki í boði hér, að þá verður sennilega MamaRosa fyrir valinu (ennþá meira suprise?!) Jiii ég get bara ekki beðið eftir því að hitta hana!!

Við Ingibjörg röltum yfir í Amager Center í dag og þar var, mér til mikillar gleði búið að stilla upp jóladóti, og allt fullt af jóladóti í risakössum sem verið var að taka upp!! Get svarið það. Sá nokkrar tegundir af nammidagatölum, ferlega flott Disney í Fötex og bara allskonar. Verð að kaupa svoleiðis handa Ingibjörgu. Hugsa nú samt að ég verði líka að borða nammið fyrir hana þetta árið. Svo sá ég rosalega sniðug dagatöl þar sem maður rífur alltaf einn dag í einu af og þá eru þrautir og myndir til að lita og svona sniðugt. Gæti líka verið að hún yrði að fá svoleiðs og þá yrði ég líka að leysa þrautirnar og lita. Marg sem maður VERÐUR að gera í desember :) Fæ alveg fiðringinn.

Ætla að hætta áður en ég tapa mér alveg í jólastemmingunni og bið ykkur vel að lifa.

þriðjudagur, október 24, 2006

24. desember... nei ég meina október :)

Þá er hið daglega amstur hjá okkur byrjað að nýju, Heimir fór í skólann í gær eftir yndislegt vikufrí. Helgin var tekin mjög rólega, ég var að kafna úr kvefi og tókst auðvitað að smita dótturina. Greyið hún ætlaði ekki að geta andað aðfaranótt mánudags. En hún er hin hressasta í dag, með lítið sem ekkert kvef.

Á sunnudeginum tókum við okkur göngutúr um síkið sem er rétt hjá nýja staðnum. Voða fallegt, þar sem trén eru í sínum besta haustbúning. Það verður nice að geta trítlað þangað og fengið sér góðan göngutúr. Annars hringdum við áðan á leiguskrifstofuna til að ath hvort við gætum kannski fengið íbúðina um næstu helgi. En nei það var ekki séns. Óliðlegir þessir baunar!! En ég hef nú ekki gefist upp og ætla því að hringja í húsvörðinn á mánudaginn næsta til að tékka hvort við gætum fengið lykilinn fyrr :) Nú ef ekki, þá stefnum við að því að flytja miðvikudaginn 1. nóv. Leigjum bíl og fáum gott fólk með okkur í þetta svo þá ætti þetta ekki að taka neinn voðalegan tíma.

Þarf sennilega ekki að taka það fram miða við fyrirsögnina, en ætla nú að gera það samt... það eru nákvæmlega 2 mánuðir til jóla!!! Bara að minna ykkur á það :) Nú geta sko allir farið að hlakka til. Annars var ég að plana dagana fyrir jól sem að mamma og pabbi verða hérna. Er að hugsa að 21. des sé tilvalinn í rólegheit og rölt um Tívolí, 22. færum við í dýragarðinn og 23. værum við á Strikinu á jólamörkuðunum og jólaglögginu og svoleiðis skemmtilegheit. Held að þetta sé nokkuð gott plan.

Er hálfnuð með bókina sem ég fékk senda frá Eskifirði :) "Gleymið að þið áttuð dóttur" eftir Söndru Gregory. Rosaleg lífsreynsla, Guð góður, og lýsingarnar úr fangelsinu... Maður skilur ekki að manneskjan skuli yfir höfuð hafa komist lífs úr þessu. Mæli með henni!

Búið að vera rigning hér í allann dag... eða svona eins og þetta er hérna, með nokkrum uppstyttum. Ég hugsa ekki um annað en flutninginn. Er meira að segja farin að dreyma þetta á næturnar líka, hvernig ég ætla að raða inni í íbúðina og annað í þeim dúr :) Verð sennilega búin á því þegar að þessu kemur!

Jæja, það er heimsóknin á vöggustofuna í fyrramálið. Það verður spennandi að vita hvernig allt er, verst að geta ekki borið þetta saman við leikskólana heima og hvernig þar allt virkar. Þetta er jú bara mitt fyrsta barn :) Læt ykkur vita hvernig þetta lítur allt saman út.

laugardagur, október 21, 2006

Malmö

Já við fórum til Svíþjóðar í gær. Ótrúlegt að þetta skuli ekki taka nema ca. klukkutíma, héðan frá okkur og á járnbrautarstöðina í Malmö. Þetta var voða gaman, við löbbuðum í miðbænum, göngugöturnar og kíktum í búðir. Mjög fallegt þarna. Fengum okkur Subway, og n.b. ég hef ekki borðað svoleiðis síðan í júní!! Held að Subway fyrirfinnist ekki hér í Köben. En það var sko ljúffengt að sporðrenna einum 12 tommu :) Fórum inní búð sem er með allt fyrir heimilið, nema húsgögn. Varð hugsað til þín Þórey, því það var til allt í svörtu!! Það var meira að segja svartur uppþvottabursti, og þá meina ég að hárin voru líka svört, svört gerviblóm, svartur brauðkassi og bara allt!! Spurning hvort ég fari þarna aftur áður en við flytjum heim og kaupi fyrir þig og setji í gám? :) Eftir svona 6 ár!

En þetta var allt saman mjög gaman. Mér finnst vera munur á Köben og Malmö þá það sé svona stutt á milli. Mér fannst aðeins öðruvísi stíll yfir byggingunum og svona ýmislegt. Finnst Malmö líkari Þýskalandi, sem er auðvitað bara plús. Vildi að Heimir hefði valið skóla í Þýskalandi. Ohhh það hefði alveg verið draumur... þ.e.a.s. minn draumur :) Við eigum nú pottþétt eftir að fara þangað aftur. Sennilega samt ekki um jólin, það er að verða ansi þétt dagskrá fyrir yfir þau :)

Sjónvarpið okkar á að koma í næstu viku. Við erum reyndar bara að spá í að láta það vera í kassanum viku í viðbót og taka það upp á nýja staðnum. Óþarfi að fara að vesenast við að tengja og græja allt fyrir rétt viku. Við erum líka orðin svo sjóuð í sjónvarpsleysinu :) Heimir hafði nú reyndar orð á því í dag að hann héldi að Nágrannar hefðu alveg bjargað mér, annars hefði ég verið farin yfir um! Hugsa jafnvel að það sé rétt hjá honum :)

Annars byrjaði ég að hnerra í Christianiu og ég hef svei mér þá ekki stoppað. Hélt fyrst að ég væri kannski bara með ofnæmi fyrir andrúmsloftinu á placinu :) en það er sko ekki. Er bara komin með kvef og er hundslöpp. Þið vitið... höfuðið fullt af einhverju gumsi þannig að maður heyrir eiginlega ekki neitt, getur ekki dregið almennilega andann og fleira svona miður skemmtilegt. Erum því bara búin að hafa það rólegt í dag.

Jæja, ætla að fara að horfa á mína ástkæru Nágranna.
Góða nótt.

fimmtudagur, október 19, 2006

Christiania

Við skelltum okkur loksins í fjölskylduferð til fyrirheitna landsins, Christianiu. Mig hefur langað að fara þangað síðan ég veit ekki hvenær. Við ætluðum að kíkja þegar við vorum hérna með Júlíu Rós og Hermanni, en það vannst ekki tími til þess. Svo núna loksins fórum við. Og þvílík upplifun!! Mér fannst þetta æði. Hugsið ykkur að búa þarna, ekkert lífsgæðakapphlaup og ekkert vesen. Allir bara ánægðir í sínum kofa, með sitt dót og drasl og reyna að nýta hvert einasta járnrusl í búskapinn. Allir bara ligeglad, reykja hass og drekka bjór. Rosalega skrítið að koma þarna. Þarna finnast alveg hin fínustu hús og svo algjörir kofar, þannig að manni dytti ekki í hug að fólk byggi þar. Reyndar var nú lögreglan á svæðinu, þeir voru að vakta eitthvert gengi sem var þarna. Svo kíktum við á sölubásana hjá fólkinu. Þar var hægt að verlsa sér allt til hassneyslu, pípur og pappír og allt þar á milli. Ég þræddi hvern básinn á fætur öðrum og endaði hjá konu sem sat og prjónaði húfur og meira til, til að selja. Sagði við Heimi að það væri nú alveg fyrir mig að leigja mér bás þarna, sitja, prjóna og selja :) Held það væri nú bara gaman. Hugsið ykkur, þá gætu þið komið í heimsókn til mín í vinnuna... í Christianiu :) En sem sagt, mér fannst rosalega gaman að koma þarna og ætla aftur um jólin með mömmu og pabba!

Mamma og pabbi eru búin að panta sér flugfar. Koma 20. des og fara heim aftur 4. jan. Jii hvað það verður gaman. Held að það eigi svo að vera jólaboð á Jóladag, við Hrafnhildur vorum að spá í að leigja salinn sem er í hverfinu þeirra. Við verðum svo mörg hérna um jólin, Ásta og fjölskylda kemur og svo eru náttúrulega ansi margir hér úr fjölskyldu Heimis. Ætli við yrðum ekki allt í allt um 20, svei mér þá. Svo er spurning hvort við förum yfir til þýskalands Annan í jólum, og tilbaka aftur fyrir Gamlárs. Kemur allt í ljós.

En það er Malmö á morgun. Það er að segja ef það verður ekki rigning, vonandi ekki. Annars er ótrúlegt að fríið hans sé að verða búið. Aldeilis búin að líða hratt þessi vika, en við erum líka búin að gera ýmislegt.


Er farin upp í rúm að lesa. Góða nótt.

miðvikudagur, október 18, 2006

Ýmsilegt

Ætla að byrja á að segja ykkur að ástæðan fyrir bloggleysinu er ekki sökum leti! Það er búið að vera svo mikið að gera hjá okkur undanfarna daga að það hefur ekki verið tími til að blogga. Nú svo erum við alveg dottin í Sequense, þannig að við höfum verið dugleg við að spila :) þetta er sko bara skemmtilegt spil og maður verður alveg húkt á því!

Annars er Ingibjörg 14 mánaða í dag!! Litla skvísan... og nei ekki enn byrjuð að labba!! Finnst nú eins og allir segi alltaf, isss vertu bara fegin á meðan hún er róleg :) Jújú ég er það líka alveg, en mér finndist nú samt allt í lagi að hún færi að fara að stað blessunin.

En já við fórum með Elsu og Kasper í Tivolí á sunnudeginum. Svaka gaman hjá okkur. Rosa flott að sjá Tivolíið í þessum Halloween búning. Jiii hvað ég hlakka til að koma þarna um jólin.

Í gær fórum við svo loksins í dýragarðinn með Hrafnhildi og krökkunum. Það var sko æði, og svakalega gaman að fylgjast með Ingibjörgu :) Hún gerði sér nú lítið fyrir og öskraði á móti ljóninu þegar það lét í sér heyra og sýndi allskonar svipbrigði þegar við
fylgdumst með öpunum, bara fyndin. Ég fór svo með hana til geitanna og þar hló hún og hló þegar hún snerti þær, eða þangað til ein þeirra fór að sleikja á henni hendurnar, þá var nú minni nóg boðið! :) Við keyptum okkur árskort í dýragarðinn svo við ætlum pottþétt að vera dugleg að mæta þangað. Næst verður það um jólin :)

Við erum búin að hafa það nice í dag. Nú eru feðginin að leggja sig svo ég ákvað að blogga á meðan... enginn sem getur spilað við mann Sequense :) Við tókum okkur hjólatúr áðan á Íslandsbryggju til að kíkja á vöggustofur. Þær eru tvær sem eru mjög nálægt okkur og sérstaklega önnur. Eitthvað álíka langt að fara þangað eins og frá Gauksmýrinni og til Elmu (svona fyrir þá sem eru kunnugir Neskaupstað :)). Sem sagt mjög stutt. Okkur leist líka miklu betur á þá stofu og fengum við pantaðann tíma eftir viku til að koma og skoða og svona. Hlakka til :) Svo þarf auðvitað að sækja um og það er nú alveg ábyggilega einhver bið. En það kemur bara í ljós. Vonandi bara fær hún pláss. Hlakka mikið til þegar hið daglega líf kemst í almennilegt horf. Þegar við verðum búin að koma okkur fyrir, Ingibjörg byrjar á vöggustofu, hvað ég fer að gera, hvort það verður vinna eða skóli, eða vinna til að byrja með.

Júlía Rós, ég er búin að fá tvö póstkort, takk svo mikið og líka bókina, senda frá Eskifirði?!? Geri ráð fyrir að mamma þín og pabbi hafi sent hana að lokum... Takk fyrir það líka :) Meira vesenið með þessa bók... Fæ kannski að lána Hrafnhildi hana þegar ég er búin? Og Hermann takk fyrir diskinn, Heimir er búin að sjá hana en ekki ég :)

Annars er ég bara alltaf að horfa á Nágranna :) tók t.d. sex þætti í gær! Held ég sé komin langt fram úr ykkur heima. Vil samt ekki segja frá neinu ef ég skyldi vera að kjafta frá. En jeminn þið eigið spennandi þætti í vændum :)

TVÆR VIKUR krakkar mínir í flutning!!!! Get ekki beðið!!! Líka TVÆR VIKUR í Heiðu og Mona... get ekki heldur beðið eftir því!!! :) Verst að mér er strax farið að kvíða fyrir brottför þeirra, þannig að það er eins gott að nýta tímann vel. Gleyma sér ekki í flutningnum. Þó aldrei að vita nema maður blikki Heiðu í eldhússkápana :) hún er nú alveg sérfræðingur í þeim geira. Þá fær hún
líka að kynnast því hvernig það er að taka upp úr kössum því sem hún pakkar!! Það væri eiginlega bara mátulegt á hana :) Við erum að tala um að hverjum hlut, hversu lítill og ómerkilegur hann er, er vel vafið inn í nokkur stykki dagblöð!! En ég hlakka til að sýna þeim nýju húsakynnin og líka að sýna þeim litlu holuna :)

Jæja smá update af síðustu dögum. Veit ekki hvað við gerum restina af vikunni. Sennilega skógarferð með Hrafnhildi ef veður leyfir, og svo er alltaf spurning með Malmö... svona ef við nennum :)

Hafið það gott.

laugardagur, október 14, 2006

Dömudagur

Já við Hrafnhildur áttum þennan líka fína dag, tvær einar í miðborg Kaupmannahafnar. Erum að hugsa um að gera þetta mánaðarlega. Við vorum minnst á Strikinu og þræddi Hrafnhildur allar hliðargöturnar með mig. Allt fullt af litlum sætum búðum sem túristinn fer örugglega framhjá... það er alltaf bara STRIKIÐ!! Júlía Rós, við förum þarna næst þegar þú kemur, og Heiða, við förum þarna bráðum :) Ætla að segja ykkur það að það er komið JÓLAdót í sumar verslanirnar!! Jájá, bara gaman. Keypti samt ekki neitt, alveg satt, en fann nú ýmislegt sem ég get hugsað mér að kaupa. Geri það í næstu dömuferð :) Við fórum svo á hlaðborð á Ítölskum veitingastað þar sem við átum á okkur gat og gleymdum okkur í málæði í nokkra tíma. Bara æðislegur dagur!!

Í gær fórum við familyan á menningarnótt niður í bæ. Löbbuðum Strikið, fórum út að borða (já á MamaRosa) og kíktum í búðir. Voða gaman.

Á morgun er svo plönuð Tivolí ferð með Elsu Sæný, hlakka til, í vikunni ferð í dýragarðinn með Hrafnhildi og co, hlakka til, og svo ferð til Malmö, hlakka líka til. Sem sagt bara tilhlökkun fyrir komandi viku :)

Hef þetta ekki lengra að sinni, hafið það gott það sem eftir er af helginni.

miðvikudagur, október 11, 2006

Grasekkjulífi lokið

Heimir minn er kominn heim! Jiii hvað ég er glöð og Ingibjörg varð ekki síður glöð, hún stökk alveg upp í rúminu þegar hann mætti :) Hann kom auðvitað með fisk og hreindýrakjöt og allt hitt sem ég bað hann um að kaupa. Stóran innkaupapoka fullann af sælgæti :) Er búin með einn poka af Nóa kroppi, eitt Pipp og langt komin með Tópas pakka... skola þessu svo niður með kóki. Bara hollusta hér á bæ :)

Heimir er að fara í viku vetrarfrí í skólanum. Tveir dagar eftir af þessari viku og svo frí. Eitt og annað sem við erum búin að ákveða að gera. Það er menningarnótt núna á föstudaginn og ætlum við að kíkja eitthvað í bæinn og skoða mannlífið. Svo er stefnan tekin á Tivolí með Elsu í næstu viku en þeir eru með opið yfir Halloween. Við ætlum okkur einnig að fara eins og einn dag til Malmö í Svíþjóð, það verður örugglega gaman.

En já, við mæðgur fórum og hittum Júlíu Rós og foreldra hennar á MamaRosa í gærkvöldi. Ægilega gaman hjá okkur og alveg yndislegt að hitta Júlíu. Vildi bara að hún gæti komið í hverjum mánuði :) Spurning hvernær við sjáumst næst?

Gleymdi að segja ykkur að ég sá jólasvein í fyrradag. Hann var að vísu ekki komin í fötin sín, en hann var greinilega að gera sig tilbúinn fyrir komandi vertíð því hann var að viðra sængina sína út um gluggann á íbúðinni sinni... ég er ekki plata ykkur.

Heimir er farinn að "suða" hérna fyrir aftan mig svo ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili. Ætla að skríða undir heita sæng en hana hef ég ekki átt í 6 nætur!!
Góða nótt :)

mánudagur, október 09, 2006

Blessuð jólin

Dagurinn búinn að vera rólegur hjá okkur mæðgum í dag. Fórum tölt á Amager Brogade og í Centerið líka. Borguðum fyrstu greiðslu inn á nýju íbúðina, tvo mánuði og tryggingu.

Líana hringdi í gær. Við erum að spá í að reyna að hittast öll á milli jóla- og nýárs. Fara þá til þýskalands, til Heiligenhafen þar sem Líana er með íbúð. Lísa systir ömmu býr þarna, svo það yrði gaman að hitta hana líka. En þetta kemur allt í ljós.

Annars réðst ég á jólakassann áðan :) Gat ekki annað, hann blasir alveg við manni, fremst í staflanum sem er inni í eldhúsi/stofu. Var aðeins að skoða og finna jólakortin sem við fengum í fyrra. Alltaf gaman að kíkja á jóladót. Hlakka mikið til að fara að skrifa jólakort. Hef samt ekki enn fundið nein í búðunum... finnst þeir svolítið seinir í því. Ég gróf upp einn jólasvein handa Ingibjörgu og er hún bara hin kátasta með hann, búin að dröslast með hann um öll gólf :) Heimir sagði að danir byrjuðu að skreyta 1. nóv. Getur einhver staðfest það? Gruna að hann sé að rugla í mér. En það myndi gleðja mig, ég myndi þá flytja inn og skreyta allt í leiðinni! Setja seríurnar upp í alla stóru gluggana, með reglustrikunni auðvitað, og gera fínt. Spurning Jóhanna, hvort ég yrði ekki að fá þig til að hjálpa mér. Kenna þér réttu tökin á þessu. Ef ég man rétt þá "hendir" þú seríunum í gluggana!! :) Hlakka annars mikið til að sjá hvernig danir skreyta gluggana hjá sér. Verð að taka mér seríu-hjólarúnt og taka þetta út. Hlakka til.

Markmiðið fyrir þessi jól er að Ingibjörg verði byrjuð að labba! Get alveg sagt ykkur það að ég er ekkert viss um að það takist. Hún er nú samt orðin ótrúlega stöðug þegar hún stendur upp við hluti, hún riðar ekkert lengur. En hún er ekki mikið viljug til að labba blessunin. En það er kannski allt í lagi. Á jólunum verður hún 16 mánaða.

En já, nóg um þessar jólahugleiðingar. Þýðir samt ekkert að skamma mig núna fyrir að vera allt of snemma að rausa um jólin... það er sko ekki langt í þau! Tveir og hálfur mánuður eða svo, og sá tími er ekki lengi að líða.


Hitti Júlíu Rós á morgun. Hlakka mikið til. Ætlum út að borða á MamaRosa. Er búin að ákveða að fá mér pizzu... jammí þær eru algjört lostæti þar.

Ætla að fara upp í rúm að horfa á Nágranna, er núna þar sem Connor er nýkominn og er fluttur til Harolds. Eru þið komin miklu lengra?

Heimir kemur ekki á morgun heldur hinn!! JEI.

sunnudagur, október 08, 2006

NÁGRANNAR!!!!!!

Ertu að grínast í mér Anna Kristín?!?! Ekki veit ég hvernig ég get þakkað þér þetta!!! Jú ég gæti hýst þig og þína ef þú átt leið um Köben :) Er ekki frá því að þú hafir bjargað geðheilsu minni! Get svo svarið það!! ÉG SÉ NÁGRANNA!!!!!!!!!! :) :) :) Er meira að segja búin að finna nákvæmlega þar sem ég hætti að horfa!!! Ó minn blíðasti... Ég ætla að tileinka Nágrönnum (þeim áströlsku Elma, ekki þínum :)) þetta blogg, eða svona að hluta til.

Ég byrjaði að horfa á Nágranna þegar þeir voru fyrst sýndir heima á Íslandi, sem var 198 og eitthvað. Ég man meira að segja að ég var heima hjá Hrafnhildi Hólmgeirs, og biðum við spenntar fyrir framan sjónvarpið, eftir að sjá þessa þætti sem tóku við af Santa Barbara. Við vorum nefnilega EKKI ánægðar þegar Stöð2 hætti að sýna þá! Og hugsið ykkur, ég er enn að. Stórefa að Hrafnhildur fylgist enn með... þó aldrei að vita. Ég hef að vísu misst úr, eins og þegar ég bjó úti í Ameríku, farið í sumarfrí og svona þetta venjulega. Ég get samt alveg sagt ykkur það að þegar ég fór til þýskalands til að vinna hérna um árið, þá fékk ég hana Heiðu mína til að rölta yfir á Austurströnd 10 á sunnudögum, til að taka upp alla þættina!! Já ég er ekki að grínast í ykkur. Ef ég man rétt þá bað ég hana að segja ekki lifandi manni frá þessu... og hér með er ég búin að varpa þessu á netið! Vona að þið fyrirgefið mér þetta :)

Við Ingibjörg fórum í hverfið okkar komandi. Fannst voða gaman að skoða þetta frá því sjónarmiði að við ættum eftir að eiga heima þarna. Löbbuðum um göturnar og ekki var það leiðinlegt... ekkert nema íslensk nöfn á götunum. Njálsgata, Leifsgata, Bergþórugata, Gunnlaugsgata, Háfldansgata og svo lengi mætti telja. Bara skemmtilegt. Enn og aftur, get ekki beðið eftir að flytja.

En jæja, ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili. ER FARIN AÐ HORFA Á NÁGRANNA :) Anna Kristín, ég sendi þér þvílíkt fallegar hugsanir, vona að þú finnir fyrir þeim.

"Neighbours... should be there for oneanother... that's when good neighbours become good friends..."

Sweet dreams :)

laugardagur, október 07, 2006

Haustið og Nágrannar

Alveg er netið tímaþjófur!! Sérstaklega þegar enginn er í rúminu og suðar stanslaust: Ertu ekki að fara að koma? :) Settist niður fyrir tveimur tímum síðan til að blogga en ákvað að kíkja samt fyrst á mínar föstu síður. Og auðvitað rambar maður þá óvart inn á hinar og þessar síður... og gleymir sér :)

Er ekki búin að kíkja á nýja hverfið. Geri það kannski á morgun ef það verður ekki rigning. Annars er dagurinn búinn að vera fínn. Fór um hádegi og hitti Hrafnhildi og krakkana á Kongens Nytorv. Óhætt að segja að bærinn hafi verið troðinn, landsleikur gegn Írum og allt fullt af bullum. Bara gaman :) Restinni af deginum eyddum við mæðgur svo í huggulegheitum heima hjá Hrafnhildi og co.

Held að haustið sé komið. Búið að vera kalt, rigning og vindur. Brrr... vantar sárlega lopapeysuna mína en Heimir kemur með hana. Hann kemur líka með fullt af sælgæti, pítusósu, kokteilsósu, gráðostasósu og piparost, ýsu a la pabbi, hreindýrakjöt og svona ýmislegt. Ég skrifaði upp tossalista fyrir hann svo ekkert færi úrskeiðis :) Sendi hann líka í búðina Einu sinni var, til að kaupa vegglímiða í herbergið hennar Ingibjargar. Hlakka svaðalega til að fara og versla hillur og annað sem vantar, gera fínt hjá henni. Get reyndar ekki beðið eftir því að flytja, svona ef það hefur farið framhjá ykkur :)

Jeminn eini hvað ég er búin að hlæja, var að horfa á Kastljósið síðan í gær. Auddi var aldeilis tekinn í bakaríið. Mátulegt á hann :) Langar að sjá þessa þætti, ætli þeir séu sýndir á netinu?

Annars sakna ég Nágranna alveg rosalega. Ég er ekki að grínast! Það liggur við að ég kaupi áskrift til að geta horft á þá á netinu, svei mér þá. Ætli Connor og Dylan séu komnir heim? Og eru David og fjölsk. virkilega dáin? Og hvað með Izzy og Paul, og Susan og Alex? Og Karl??!!?? Held ég fái mér áskrift!! Verð þá að gera það þannig að Heimir komist ekki að því... held að hann myndi senda mig heim.

Er búin með Grey's Anatomy, fyrstu seríuna. Alveg elska ég þessa þætti. Finnst hann George O'Malley dásamlegur. Bað Heimi einmitt að kíkja á seinni seríuna á Flugstöðinni, verð að eignast hana. Ætla að fara að koma mér í bælið, spurning hvað ég horfi á, kannski bara Friends. Þeir eru alltaf skemmtilegir.

Góða nótt.

fimmtudagur, október 05, 2006

Home alone

Þá er Heimir minn farinn. Við mæðgur því bara einar heima. Ferlega skrítið eitthvað. Við fórum í mat til Hrafnhildar áður en Heimir fór og svo röltum við dömurnar heim. Ingibjörg sofnaði auðvitað á leiðinni og náði ég að rífa hana úr hverri spjör, skipta á henni og klæða hana í náttfötin án þess að hún vaknaði :)

Er að hugsa um að taka mér annað hvort hjólatúr eða labbitúr á morgun um nýja place-ið. Skoða hverfið með það fyrir sjónir að það verði ?mitt? innan tíðar :) Mikið verður það ljúft.

Jæja, hef ekkert að segja ykkur í þetta skiptið. Klukkan orðin margt og ég búin að eyða kvöldinu hérna fyrir framan tölvuna að skoða hitt og þetta á netinu. Er að hugsa um að lufsast í bælið og horfa eins og á einn Greys Anatomy þátt áður en ég sofna.

Keypti mér tvær milli í gleri, búin með eina.
Góða nótt.

miðvikudagur, október 04, 2006

Nýtt heimilisfang:

Myggenæsgade 7, 5-2.
VIÐ FENGUM ÍBÚÐINA!!!!!!!!!!!!!!! :)
Ég vissi ekki hvert við ætluðum í morgun þegar við opnuðum umslagið, en þið megið trúa því að dóttirin starði í forundran á foreldra sína stíga einhvers konar stríðdans á stofugólfinu :) Það eru semsagt nákvæmlega 4 vikur eftir hér í litlu holunni. Fáum íbúðina 1. nóv en ég ætla nú samt að prufa að hringja í húsvörðinn 30. okt til að tékka á stöðunni :) Jiii hvað ég er spennt!! Þá fær Ingibjörg sitt herbergi, við fáum svalir, stórt baðherbergi, stóran ísskáp, uppþvottavél, þvottavél og þurrkara inni hjá okkur, almennilegt eldhús og bara allt!!! :) Jeminn eini, viss um að ég eigi eftir að fara yfir um á þessum 4 vikum.

Heimir er að fara til Íslands annað kvöld. Það kom upp í gær að hann þarf að bera vitni í sambandi við Færeyska togarann sem var tekinn við meintar ólöglegar veiðar í sumar. Hann var að vinna við að ná gögnum úr tækjunum svo hann á mæta á þriðjudag upp á Egilsstaði. Reyndar ætlar hann austur á laugardag, fara upp í bústað með mömmu og pabba og fara á gæs. Hann kemur svo aftur miðvikudaginn 11. Svolítið leiðinlegt að við mæðgur verðum tvær einar eftir, en guði sé lof þá eru nú Hrafnhildur og fjölsk nálægt okkur. Spurning hvort við flytjum ekki bara til þeirra á meðan :)

Dreymdi í nótt að ég væri ólétt. Er það samt ekki. Veit ekki hvað þetta táknar og Draumráðningarbókin mín er einhvers staðar niðurpökkuð. Asskotans vesen.

En jæja, ég bið ykkur vel að lifa, ætla að fara að leggja mig.

Keypti ekki kók í dag. Gleymdi því hreinlega.

þriðjudagur, október 03, 2006

Saddur Rasmus

Já og eiginlega alveg rúmlega... fórum á Jensen's Böfhus í kvöld. Mikið svakalega er það góður staður, ég er agalega hrifin. Nú verður farið með alla þangað sem koma til Köben :) Fékk mér nautasteik með svaka góðri sósu og kók. Já kók, ekki ÖL! Annars kókið... haldið þið ekki að ég hafi fundið litla kók í gleri!! Get svarið það. Hún er reyndar ekki jafn lítil og lítil kók í gleri og ekki eins stór og stór kók í gleri, er þarna einhvers staðar á milli. Og mikið svakalega er hún góð! Ég er samt ekki búin að drekka nema þrjár svona millistærð í gleri, síðan ég kom út. Tel það nú ansi gott bara, svona miðað við að ég var farin að drekka þrjár litlar Á DAG heima! Neita því nú samt ekki að mér er oft hugsað til einnar ískaldrar... uss hefði ekki átt að skrifa um þetta því nú langar mig svooo í!! Fæ mér pottþétt á morgun :)

Það á einhver afmæli í dag sem ég þekki, og ég get ómögulega munað hver það er. Einhver sem ég hef alltaf óskað til hamingju með daginn, svo ég segi bara sorry ef afmælisbarnið les þetta. Afmælisdagbókin er nefnilega pökkuð niður í einhvern af þessum rúmlega 40 kössum sem eru hér og ég nenni ómögulega að fara að leita. En sá hinn sami fær bara tvöfalda kveðju frá mér á næsta ári :)

Ingibjörg er komin í Rasmus Klump klub!! Já ég er búin að stofna bankabók hér í Amagerbank og þá fékk mín Rasmus Klump bauk :) Hún ætlar alveg að missa sig þegar hún hefur séð þessa bauka, og inni í bankanum er RISA stór stytta af kappanum svo það varð bara að gera eitthvað í málinu. Við Heimir vorum einmitt að rifja upp Rasmus Klump og félaga. Ég átti nokkrar bækur um hann og svo voru auðvitað þættirnir í sjónvarpinu. Við gátum samt hvorugt munað almennilega eftir vinum hans, mundum eftir storkinum ekki fleirum. Muni þið?

Hafði það ofur notalegt í gærkvöldi. Heimir var frammi að læra, Ingibjörg sofandi í sínu rúmi, þannig að ég kom mér vel fyrir uppi rúmi með prjónadótið og nammi og horfði á þrjá fyrstu þættina af fyrstu seríunni í Grey?s Anatomy. Jiii hvað þetta var gaman og jiii hvað þetta eru skemmtilegir þættir!! Alveg verð ég að eignast seríu númer 2.

Jæja, ég byrjaði á bókinni Hann er ekki nógu skotinn í þér, og guð almáttugur hvað hún er leiðinleg!! Ekki skil ég þessar vinsældir á henni, meira að segja Oprah mælir með henni?! Gafst upp eftir ca. 30 bls. Jeminn eini... Er að hugsa um að byrja aftur á Karitas án titils, hún lofaði góðu. Svo er ég nú að vonast eftir einhverjum bókaglaðning þegar Júlía Rós kemur :)

En já, liðið er sofandi fyrir aftan mig, ég ætla að fara að leggja mig líka enda klukkan að verða 11 hér á bæ.
Góða nótt góðir hálsar.

mánudagur, október 02, 2006

Í rigningu og sól

Í þessum skrifuðum orðum er eins og hellt sé úr fötu. Þetta er þriðji rigningardagurinn síðan við mæðgur komum út og í dag eru akkúrat þrjár vikur síðan það var. Samt er alltaf svo skondið með rigningar í útlöndum, það virðist ekki geta ringt eins og heima, allann daginn. Þetta kemur bara í köflum, núna er t.d. sólin farin að skína. Maður veit því aldrei hvernig maður á að vera klæddur í svona vitleysis veðri.

Fjölskyldan skellti sér á ströndina í gær. Fengum okkur hjólatúr í fínu veðri, vopnuð skóflum og sandkassadóti. Ægilega gaman að kíkja á Amager strand. Það er búið að vera að gera allt upp þarna og allt orðið voða fínt. Ætli þetta verði ekki okkar annað heimili á næsta sumri, get ímyndað mér það.

Á föstudeginum fórum við í Fields (mollið). Það var opið til 10 um kvöldið og röltum við um og fengum okkur svo að borða. Vorum með það á hreinu að Ingibjörg myndi sofna en svo var nú aldeilis ekki. Hún var manna hressust kl. hálf 11 þegar við dröttuðumst inn úr dyrunum :) Keypti á hana tvennar buxur, leit ekki við neinu bleiku, heldur keypti gallabuxur og svo rauðar svaka fínar efnisbuxur. Barnið á eiginlega bara bleik föt, hún á tvennar rauðar Nike peysur og svo rauðann útigalla. Svei mér þá, held að það sé næstum því upptalið. Ákvað því að gera bragabót á þessu bleika ástandi :)

Nú styttist í að Júlía Rós komi með foreldrum sínum. Hlakka mikið til. Hún mætir 10. okt og þá er stefnan tekin á MamaRosa að borða. Ætli MamaRosa taki ekki við af Ítalíu hjá okkur :) Alltaf þegar hún kemur til Köben þá förum við þangað. Líst vel á það fyrirkomulag. Nú svo koma Heiða mín og Símon 1. nóv. Það verður ægilega gaman, dúllast á Strikinu og gera eitthvað skemmtilegt saman.

Er að klára bókina Sólskinshestur eftir Steinunni Sigurðar. Veit ekki alveg hvað mér finnst um hana, hún er ekki leiðinleg og ekkert óskaplega skemmtileg, en hún er mjög vel skrifuð og þar af leiðandi get ég ekki hætt að lesa hana. Næst á dagskrá er svo Hann er ekki nógu hrifinn af þér. Hlakka til að lesa hana.

Enn er ekkert að frétta af íbúðinni, en við hljótum að fá eitthvað um hana í pósti þessa vikuna, trúi ekki öðru.

Lofa að láta ekki líða svona langt á milli blogga næst :)