laugardagur, desember 31, 2005

Síðasti dagur ársins

Og þetta ár kemur aldrei aftur. Árið liðið og nýtt og óþekkt tekur við. Stærsta stund lífs míns varð einmitt á þessu ári 2005, fæðing dótturinnar, þannig að þetta ár mun ætíð vera minnisstætt.

Það sem er líka merkilegt við þennan dag er að þetta er afmælisdagur Heimis míns :) Já hann á afmæli í dag þessi elska. Gerði sælgætisbombu handa honum sem ég get ekki beðið eftir að gúffa í mig. Já svo eru mamma og pabbi búin að vera gift í 31 ár í dag!! Jesús minn... greinilegt að þetta er dagur fjölskyldunnar :)


Gleðilegt ár kæru vinir og vandamenn, gangið hægt um gleðinnar dyr og passið ykkur á rakettunum. Heyrumst á nýju ári, 2006 :)

miðvikudagur, desember 28, 2005



Partítröll

Þú ert nýjungagjörn, tilfinningarík félagsvera.

Partítröllið fylgist vel með nýjustu straumum og stefnum hvort sem um er að ræða föt, tónlist eða græjur. Það eru 74.5% líkur á því að það eigi iPod, 61% líkur á því að það eigi Fred Perry póló bol og 96% líkur á því að það eigi Adidas skó. Partítröllinu finnst The OC vera skemmtilegur þáttur.

Partítröllið er vinsælt - eða telur sig að minnsta kosti vera það. Þótt margir laðist að því eins og flugur að mykjuhaug eru aðrir sem eru ónæmir fyrir þokka þess og enn aðrir sem hafa jafnvel ofnæmi fyrir því. Það eru þeir sem eru í eldhúspartíinu á meðan partítröllið hristir rassinn og baðar út öngum á dansgólfinu.

Þegar gamaninu slotar er partígríman þó fljótt tekin niður og undan henni kemur viðkvæma blómið sem partítröllið raunverulega er.

Hvaða tröll ert þú?

Hmmm það eru nú reyndar NIKE skór hjá mér :)


Annars spiluðum við Heimir Matador í dag. Fann það einmitt í háalofta ferðinni. Það er kannski ekki í frásögur færandi nema að ég gerði karlinn gjaldþrota :) Hann varð svo svekktur að það var bara fyndið. Ég á eftir að lifa á þessu lengi!!

Stefnan tekin á Egilsstaði á morgun og sumarbústaðinn. Þarf að skipta bókinni og eitthvað meira skemmtilegt :)

þriðjudagur, desember 27, 2005

Brrrr...

Hér er búið að vera svoleiðis skítaveður í dag að við höfum ekki haggað okkur út fyrir húsins dyr. Rok og rigning og við höfum það nice inni :) Fengum bara Heiðu og Símon til okkar í kaffi, voða gott og gaman.

Hafði mig loksins í það að skrifa upp jólagjafirnar hennar Ingibjargar og frá hverjum, raða þeim upp og taka myndir :) Allt mjög merkilegt svona fyrstu jólin :) Hún fékk allt á milli himins og jarðar... peninga, föt, teppi, bangsa, bækur, skartgripaskrín og leikföng svo eitthvað sé nefnt.

Ég er búin að fara eina háalofta ferð og gramsast í gömlu dóti sem ég átti. Þarf að vísu að fara aðra ferð, ég gleymi mér alltaf í gömlu skóladóti, skoða allskonar krot og skemmtilegheit :) Ég kom þó niður með allar Smjattpattabækurnar mínar og Herra bækurnar. Elskaði Smjattpattana!! Fann svo Vísnabókina, en það var skemmtilegasta bókin á tímabili, hún rétt hangir saman á nokkrum þræðum. Mamma og pabbi gáfu þó Ingibjörgu nýju útgáfuna þannig að sú gamla fer sennilega aftur upp á loft. Tími sko ekki að henda henni! Fann líka hana Líönu mína, hundur sem að Líana gaf mér fyrir löngu. Dýrið lítur þó ótrúlega vel út miðað við aldur!! Þarf endilega að fara aftur upp á loft og athuga hvað ég finn meira spennandi.

Ætla að halda áfram að innipúkast og borða góðan mat :)

mánudagur, desember 26, 2005

Gleðileg jól

Mikið ógurlega erum við fjölskyldan búin að hafa það gott þessi jól. Fyrstu jólin hennar Ingibjargar :) Erum reyndar aðallega búin að vera heima við, sofa, borða og lesa eins og það á að vera, og jú farið í göngutúr og dregið að okkur fríska og hreina loftið. Mikið um pakka á Aðfangadagskvöld og fékk Ingibjörg ansi marga. Hún svaf af sér matinn en vaknaði passlega í pakkana :) Að vísu tókum við foreldrarnir aðallega upp, henni gekk ekkert allt of vel að tæta þá, þótt hún reyndi. Við þökkum kærlega fyrir okkur. Ég fékk að sjálfsögðu Vetrarborgina frá ömmu og afa, Heimir fékk hana frá vinnunni svo ég ætla að skipta og fá Þriðja táknið eftir hana Yrsu. Held að hún sé góð. Vetrarborgin byrjar vel og lofar góðu, vonandi verður það þannig áfram. Ég varð fyrir svo miklum vonbrigðum með Kleifarvatn, sem ég fékk í fyrra, að ég er ekki ennþá búin að klára hana!! Ætla nú samt að gera það.

Ingibjörg tók upp á því á Jóladagsnótt að sofa alla nóttina!! Jájá hún vaknaði ekki fyrr en klukkan hálf 8, fékk sér að drekka og svaf til hálf 11!! Get svo svarið það. Ég var samt alltaf að rumska alla nóttina, mér var nú eiginlega hætt að standa á sama. Ég hélt að hún myndi nú ekki gera þetta aftur, en síðustu nótt svaf hún alveg til kl. 7 og hélt svo áfram að lúlla sér til 10 :) Ansi ljúft!! Spurning hvað hún gerir í nótt. Myndi segja að við slyppum ansi vel ef við þyrftum ekki að standa í því að venja hana af því að vakna á næturnar til að fá sér að drekka. Mig var virkilega farið að kvíða fyrir því. Finnst þetta samt eiginlega of gott til að vera satt :) við sjáum hvað verður, hún er kannski bara að spila með okkur.

föstudagur, desember 23, 2005

Senn koma jólin

Þorláksmessa að líða og jólin á morgun. Hlakka voða til :) Við Heimir sitjum hér fyrir framan sjónvarpið og horfum á Uncle Buck (bara snilld), Ingibjörg er farin að lúlla sér og mamma og pabbi eru að stússast í eldhúsinu. Er ekki frá því að þau séu að taka heimalagaða ísinn úr frysti svo hægt sé að gæða sér á honum fyrir svefninn. Yndislegt líf :)

Það er svosem búið að vera nóg að gera hjá okkur síðan við komum austur. Búin að fara í klippingu, heimsóknir og annað svona dúll. Erum búin að slappa vel af og hafa það nice. Allt tilbúið auðvitað fyrir jólin, skreytti jólatréð í gær þannig að jólabaðið er bara eftir held ég.
Við fórum með Ingibjörgu í skoðun í dag. Mér fannst of langur tími líða á milli næsta tíma hjá henni fyrir sunnan, þannig að ég fékk tíma fyrir hana hér. Hún er orðin 67 cm og 6,7 kg svakalega fín. Búin að stækka um 4 cm síðan 19. nóv. Hlakka til að vita hvað hún mælist 17. jan.

En jæja, ætli maður fari ekki að koma sér í bólið að lesa. Óska ykkur öllum gleðilegra jóla og hafið það óskaplega gott, kæru vinir.

Jólakveðja Úrsúla Manda

sunnudagur, desember 18, 2005

Á leið heim í heiðardalinn

Jæja það er komið miðnætti og ég er ekki enn búin að pakka sjálfri mér niður!! Held samt að allt hitt sé komið, allavegna eru feðginin tilbúin í tösku, allar jólagjafirnar komnar, bara ég eftir. En við leggjum semsagt af stað keyrandi í fyrramálið. Ætlum suðurleiðina og keyra þetta bara í einni bunu. Ingibjörg hlýtur að þola það, við verðum bara dugleg að stoppa og teygja úr okkur.

Annars endurheimti ég Heimi minn seint í gærkvöldi, voðalega gott að vera búin að fá hann heim. Eitthvað var nú Ingibjörg hissa þegar hún heyrði aðra rödd en rödd móður sinnar í morgun þegar við vöknuðum, rak upp stór augu, en svo fagnaði hún honum ógurlega :) Við fórm svo á jólahlaðborð á Fjörukránni í Hafnarfirði í kvöld, með fjölskyldu Heimis. Það var voða fínt, gott að borða en reyndar fannst okkur við eiginlega frekar vera komin á Þorrablót heldur en jólahlaðborð. En gott samt :)

Ég ætla að fara að halda áfram pökkuninni... læt næst heyra frá mér að austan. Hafið það gott á meðan.

fimmtudagur, desember 15, 2005

Piparsveinninn

er búinn!! Var ekki sátt við valið en svona er það nú. Hélt að hann myndi velja Gunnsu því mér fannst Jenný vera hálfgerð fýlubrók, en svo er þetta sjálfsagt bara hin besta stelpa. Gat samt varla horft á þegar hann var að gefa henni hringinn... jesús minn þetta var svo hallærislegt :) En ég horfði svo auðvitað á Sirrý á eftir, fannst það nú frekar fyndinn þáttur. Þær skutu þarna alveg hægri vinstri á hvor aðra :) En ekki get ég ímyndað mér að það verði gerð önnur sería... og þó maður veit aldrei.

Kringluferðin var fín hjá okkur Jóhönnu Björgu. Gátum báðar verslað eitthvað og saxað á jólagjafalistann. Held svei mér þá að þetta sé allt búið hjá mér í ár, mig vantar aðeins einn hlut handa Heimi og hann ætla ég að kaupa á morgun.

Jahérna hér, var að kíkja á Ingibjörgu og þetta er þriðja kvöldið í röð sem hún sofnar bara ein, sér og sjálf!! Og ekkert vesen :) Ég hef farið með hana inn í rúm, gefið henni að drekka og farið svo framm. Hún fer reyndar alltaf eitthvað að dúlla sér, frussa og "tala" en svo fellur allt í dúnalogn og mín bara sofnuð!! Rumskar varla þegar ég færi hana yfir í sitt rúm. Vona að þetta verði bara svona í framtíðinni :)

Ég ætla að fara að horfa á Aðþrengdar eiginkonur og prjóna... Góða nótt!

miðvikudagur, desember 14, 2005

Grasekkja

Nú erum við mæðgur búnar að vera einar síðan á mánudag, en Heimir er í Englandi á námskeiði á vegum vinnunnar. Við erum nú samt búnar að hafa það ágætt því við erum búnar að hafa nóg fyrir stafni. Guðfinna kom og heimsótti okkur á mánudagskvöldið. Það var æðislegt að hitta hana, við höfum ekki sést í langan tíma þannig að það var æði. Í gær kom svo Júlía Rós í kvöldmat. Það var voða gaman hjá okkur eins og alltaf þegar við hittumst :) Nú í kvöld kemur svo hún Helena mín og sonur hennar. Það er því búið að vera nóg að gera í gestgjafahlutverkinu :) Bara gaman að því. Á morgun ætlum við svo í Kringluna með Jóhönnu Björgu, en það er eitthvað smotterí sem ég á eftir að gera.

10 dagar til jóla takk fyrir!! Guð hvað það er stutt í þetta, og ennþá styttra í að við förum austur, bara 4 dagar!! :) Jiii ég hlakka svo til. Heimir kemur á föstudagskvöld, við ætlum að nota laugardaginn í að klára það sem þarf að gera, sækja pakka og koma pökkum á rétta staði og svo á bara að bruna af stað á sunnudaginn. Veit ekkert hvenær við komum tilbaka, ætli það verði nokkuð fyrr en á vordögum :) Nei því miður... en Heimir tekur allavegna mánuð í fæðingarorlof þannig að við komum sennilega um miðjan janúar.

Er búin að fá þrjú jólakort. Ég hef alltaf haft þann háttinn á að rífa þau strax upp, en hugsaði núna að það væri sniðugt að bíða með það og
opna þau á aðfangadag. En nei ég gat það auðvitað ekki! Fékk kortið frá Júlíu Rós og fjölskyldu í gærkvöldi, vissi að ég fengi tvær myndir frá þeim, þannig að hún var varla farin frá mér þegar ég réðst á umslagið. Svo komu tvö í pósti í dag sem ég var ekki lengi að rífa upp. Reyndar þekkti ég skriftina á öðru kortinu en hitt þekkti ég ekki og þar var mynd, þannig að ég bara gat ekki beðið. Heimir er líka ekki hérna til að stoppa mig... spurning hvort ég ætti að setja þau aftur í umslögin og líma fyrir svo hann verði ekki hneykslaður á mér?! :) Ingibjörg fékk svo jólapakka í gærkvöldi frá Hólmfríði og Birni Hermanni... Nei ég er ekki búin að opna hann!! En ég var með hann í höndunum í dag og hugsaði... ætti ég... en ég stóðst það og mun standast það!! :) Það er alveg hræðilegt að vera svona og hvað þá þegar enginn er til að stoppa mann!!

fimmtudagur, desember 08, 2005

Oliver

í kvöld. Við bekkjarsysturnar að heiman erum að fara út að borða. Hlakka mikið til :) Get vonandi verið aðeins lengur en síðast þegar við hittumst, því ég er ekki enn farin að mjólka mig!! Held ég geri það bara ekki neitt þar sem hún er að verða 4ra mánaða og ég ætla ekki að vera með hana á brjósti til elífðarnóns. Sætti mig þá bara við að komast ekkert of langt frá henni í nokkra mánuði í viðbót :)

Annars var ég í fyrsta skipti í gærkvöldi alein heima... já ALEIN síðan að Ingibjörg fæddist. Það var þó ekki nema í ca. hálftíma, en mikið var það skrítin tilfinning! Fannst það eiginlega bara óþægilegt. Ég var alveg niðursokkin í ER þegar þau feðginin brugðu sér út, en eftir að þau voru farin missti ég fljótlega athyglina af ER og fór að pæla í því að ég væri EIN. Mér fannst ég alltaf heyra í stelpunni innan úr svefnherbergi eða einhver hljóð frá henni. Þakkaði mínu sæla þegar þau gengu inn um dyrnar. Það er einhvern veginn öðruvísi þegar ég skrepp eitthvað ein, en þegar ég er skilin eftir ein :) Mjög skrítið!

þriðjudagur, desember 06, 2005

Hver er maðurinn?

Jóhanna er alveg að tapa sér í því að finna út hver það var sem ég hitti í Smáralind :) Ég segi það nú enn og aftur að þetta var nú ekkert voða merkilegt, nema þá bara fyrir mig og hann. En svona er forvitnin, hún ætlar mann lifandi að drepa :) kannast nú alveg við það. En þú ert nú búin að fá nokkrar vísbendingar mín kæra...
- Hann er sextugur
- Hann bjó í mínu hverfi
- En ekki í minni götu
- Og það eru meira en 10 ár síðan hann flutti, kannski 15 ár.
Ég held þú fáir ekki fleiri í bili, ef ég segi við hvað hann starfaði eða fyrsta stafinn hans þá fattar þú þetta strax :) Nú verður þú bara að "ganga" á húsin þarna í huganum. En þetta hafa verið mjög skemmtilegar tilgátur hjá þér... já og fleirum.

sunnudagur, desember 04, 2005

Desember

Já það er sko bara kominn desember, 2. sunnudagur í aðventu alveg að líða, vika í að Heimir fari út :( finnst það ekki skemmtilegt, og tvær vikur í að við förum austur!! :) JEI! Svo eru það bara jólin. Almáttugur hvað ég hlakka til, þetta verður algjör draumur!

Helgin búin að vera fín, á laugardaginn fórum við í smá búðarráp. Kíktum meðal annars í Smáralindina og þar hitti ég mann sem ég hef ekki séð í ca. 10 ár eða meira! Já eða kannski bara ekki síðan að hann flutti að heiman og það er langt síðan. Ég hef hugsað til hans ansi oft og hef aðeins einu sinni séð hann eftir að ég flutti suður og það var á rauðu ljósi. Þannig að ég sagði við Heimi að við yrðum að stoppa og tala við hann, ég myndi ekki fyrirgefa mér það að labba framhjá honum. Svo að ég gekk að honum, hann þekkti mig að vísu ekki fyrr en ég sagði nafnið mitt en hann var svo glaður að sjá mig og þakkaði mér held ég þrisvar sinnum að hafa komið og heilsað sér :)
En já, við náðum að klára nokkrar jólagjafir, meðal annars gjöfina hennar Ingibjargar sem við keyptum í búðinni Krakkafjör. Frábær búð með rosalega flottum og vönduðum (dýrum) leikföngum. Fann líka á hana svaka fínar sokkabuxur og samfellu innanundir fína jólakjólinn hennar, sem mamma keypti úti á Lanzarote :) Hún ætti því ekki að lenda í jólakettinum þessi fyrstu jól sín.


Jæja ég er að verða þreytt, nenni ekki meir... bið ykkur vel að lifa... góða nótt.