sunnudagur, apríl 30, 2006

Uss Uss

Það er búið að vera svo mikið að gera hjá mér að ég hef ekki gefið mér tíma til að setjast niður og blogga. Ég sem var búin að blogga á hverjum degi þvílíkt lengi, svaka dugleg :) En svona er þetta. Já semsagt búið að vera mikið stuð að hafa mömmu og pabba. Við mamma fórum tvær í Kringluna í gær og versluðum ýmislegt. Fann mér t.d. kjól og loksins almennilegar gallabuxur sem ég var búin að leita af lengi. Við Heimir fórum svo á Hafið bláa í gærkvöldi. Það var æði eins og við var að búast. Í dag á svo að taka sér rúnt í Grímsnesið í þessu dýrlega veðri.

Pabbi keypti Mörgæsamyndina á vellinum og við horfðum á hana í gærkvöldi. Jiii hvað hún er yndisleg! Ég gat meira að segja grátið yfir henni, en hún er allt í senn, fyndin, sorgleg, yndisleg og allt þar á milli. Frábærlega vel tekin og bara æðisleg! Og þær eru svo sætar þessar dúllur, sjá hvernig þær vagga áfram og fleygja sér á magann, sjá hvernig þær passa eggin sín og svo hvernig þær troða ungunum undir sig :) já þetta er frábær mynd.

Íbúðin er búin að vera á sölu núna síðan á fimmtudag og það eru tveir búnir að koma og skoða :) Aldeilis flott. Nú er bara að vona að það verði gert gott tilboð á þriðjudaginn. Finndist það nú samt eiginlega of gott til að vera satt.

Þórey, ég er búin að reyna að commenta þvílíkt oft hjá þér en það gengur aldrei. Óþolandi þetta MSN dæmi. Getur þú ekki flutt þig á eitthvað annað blogg?! Þá myndi ég commenta á hverja færslu hjá þér því þú ert svo skemmtilegur penni. Já þannig að þá veistu að ég er ekki feimin :)


Jæja hafið það gott í dag.

fimmtudagur, apríl 27, 2006

Jeminn

Já það voru sko orð að sönnu að móðir mín tapaði sér algjörlega í fatakaupum á barnabarnið :) Ingibjörg fékk t.d. gallajakka, tvenna kjóla, buxur, peysur, sokka, dvd mynd, sandala, derhúfu og náttgalla svo að eitthvað sé nefnt! Ég get svo svarið það!! En það er voða gaman að þau skuli vera komin og flott að þau fara ekki fyrr en á mánudag.

Það var hringt í morgun frá heilsugælsunni til að afboða skoðunina þannig að ég þarf að bíða í enn eina viku til að vita málin á Ingibjörgu. Hundfúlt.
Ég búin að minnka gjafirnar niður í tvær á dag. Nú fær hún að drekka á morgnanna og á kvöldin. Þetta er dagur númer 2! Þarf sennilega ekki að taka það fram að ég er að drepast og að springa, og það er svo freistandi að gefa henni súpa! En ég ætla að standast þetta. Nú hlýtur þetta að fara að lagast.

Íbúðin er komin á sölu! Við ákváðum að selja hana frekar en að leigja hana, þar sem við erum eiginlega ákveðin í því að fara heim eftir þessa útlegð. Nú ef við myndum ekki fara heim og vera hér fyrir sunnan, þá er ég alveg búin að sjá það og finna að ég myndi ekki vilja vera í Grafarvoginum. Svo einfalt er það bara. Þannig að það er bara best að selja! Ég hugsa líka að við förum bara heim :)

Loksins búin með Geisjuna, rosalega góð bók og hlakka ég núna mikið til að sjá myndina. Er hálfnuð með Ótuktina eftir Önnu Pálínu Árnadóttur - blessuð sé minning hennar. Hún er bæði skemmtilega og vel skrifuð, og frábært að lesa hvernig hún ákvað að takast á við helv... krabbann. Allt spurning um hugarfar.

Bið ykkur vel að lifa... Góða nótt.

miðvikudagur, apríl 26, 2006

Krónan og valbrá

Við mæðgur fórum í Krónuna í dag. Fínt að fara í bæinn á miðjum virkum degi. Ekkert nema gamalt fólk og konur í fæðingarorlofi :) En allavegna þá stoppaði mig gamall maður sem stóð við hveitið og spurði mig hvort þetta væri ekki örugglega sykur. Elska gamalt fólk :) Eftir að hafa vísað honum að sykrinum þakkaði hann mér kærlega fyrir hjálpina. Ég horfði svo á eftir honum þar sem hann stjáklaði um búðina með langan innkaupalista. Jiii ég vorkenndi honum svo. Hefði alveg viljað labba með honum hring um búðina og hjálpa honum að tína í körfuna, en kunni nú ekki við að bjóða það. Fór strax að spá í hvar konan hans væri... kannski hefur hún ekki nennt í bæinn og sent hann í staðinn með risalista, kannski var hún veik, kannski er hún dáin... maður veit ekki.

Hitti mann í dag. Hendurnar á honum voru ekki eins á litinn. Önnur var hvít en hin var fjólublá!! Ég var ekki að geta einbeitt mér að tala við hann, því ég var allann tímann að spá hvað væri að honum. En svo sá ég að uppúr hálskraganum komu rauðir flekkir þannig að ég hugsa að hann sé bara allur í valbrá. Eða hægra megin allavegna. Greyið... ég var alltaf alveg komin að því að spyrja hann hvort þetta væri valbrá, en náði að halda mér á mottunni! Fæ plús fyrir það :)

Jæja þá er komið að 8 mánaða skoðuninni hjá Ingibjörgu í fyrramálið. Spennandi að vita nýjustu tölur. Vona að hún verði ógurlega dugleg í sprautunni þar sem ég verð ein með hana, en hún á nú örugglega eftir að láta í sér heyra :)


Segjum þetta gott í bili, Oprah að fara að byrja og svo er það Medium. Ætla svo í rúmið að klára Geisjuna.
Nighty-night.

þriðjudagur, apríl 25, 2006

Matur

Ég var að skoða matseðilinn hjá Hafinu bláa, ummm get ekki beðið eftir að borða þar. Ætlum á laugardagskvöldið. Það verður þá í þriðja skiptið sem við förum þangað, enda alveg geggjaður matur. Mæli eindregið með honum!
Á föstudaginn er hinsvegar matur á Hereford með vinnunni hans Heimis. Það verður öruggulega gaman líka. Hlakka samt meira til humarsins :)

Hlakka mikið til að fá mömmu og pabba heim. Þau koma á fimmtudaginn. Mamma sagðist alveg hafa misst sig í búðunum og keypt ýmislegt á nöfnu sína. Það verður gaman að sjá afraksturinn :) Þau ætla að stoppa fram á mánudag. Æðislegt.

Almáttugur, nú er Las Vegas í sjónvarpinu... hvað er málið með Löru Flynn Boyle?! Jiii ég ætlaði ekki að trúa því fyrst að þetta væri hún. Ég meina það, hún er svoleiðis búin að dæla sílikoni í varirnar á sér, bæta holdi í kinnarnar og fjarlægja freknurnar úr andlitinu að hún er nær óþekkjanleg!! Samt ofur hallærislegt að vera freknulaus í andlitinu en svo er allur líkaminn þakinn freknum!! En hún ætlar kannski bara að taka þetta í svona hollum... tekur næst bringuna og handleggina :) Allavegna finnst mér hræðilegt að sjá hana.

Ég á þrjá kafla eftir í Geisjunni. Það sem er nýbúið að gerast, er að Grasker sveik hana og mætti með Formanninn á staðinn en ekki Nobu! Hlakka til að lesa á eftir.

Styttist í Prison Break. Rosalegir þættir!! Við Heimir höfum verið að spá í að taka upp nokkra þætti og horfa svo á þá alla í einu, maður hefur ekki þol í að bíða eftir næsta þætti.
Kveð að sinni.

mánudagur, apríl 24, 2006

Bækur

Ég fékk auðvitað 1000 kr. bókaávísun senda í pósti, og var strax farið á stúfana að versla. Þessu var eytt í Ingibjörgu og græddi hún þrjár bækur. Tommi og miðnæturævintýrið (með blikkandi stjörnum), Rauðhetta (sem er líka púslubók) og svo bókina um Lúlla og Gunnu. Mér finnst samt ekki nógu gott að vita af ávísuninni liggjandi á andyrisgólfinu heima í Gauksmýrinni og ekki geta notað hana. En samt, þetta gildir til 3. maí er það ekki? Mamma og pabbi fara austur 1. maí þannig að þau ættu þá að geta fundið eitthvað í Tónspil. Vonandi er eitthvað úrval af barnabókum þar. En ég er að vinna markvisst að því að gera Ingibjörgu að bókaormi. Vona að það takist hjá mér.

Ætli það verði gerður annar íslenskur Bachelor þáttur? Jeminn eini það væri nú meira... nema þeir geri þá bara eins og í henni Ameríku, láti Jenný velja sér stegg. Það væri nú fyndið. En ég fylgdist
ekki með síðustu Amerísku Bacherlor seríu. Horfði bara á síðasta þáttinn og held að hann hafi valið þá stúlku sem að Júlía hélt með. Ég er hinsvegar búin að ákveða að horfa á næstu seríu þar sem Jen verður Bachelorettan :) Það verður gaman að fylgjast með því!

Já sumarið komið og það er bara snjókoma hér í borginni... Ísland í dag.
Lost á næsta leiti, ætla að gera mig tilbúna.

sunnudagur, apríl 23, 2006

Í dag

Það var voða gaman á Sumarsýningunni í dag. Við röltum þarna um allt og skoðuðum, en rúsínan í pylsuendanum var svo auðvitað hann Snorri :) Hann söng 4 lög og var alveg eins og engill þarna á sviðunu. Finnst samt frekar slæmt að drengurinn skuli reykja... á svo bágt með að þola það eins og þið sennilega vitið. En hann syngur vel blessaður, verra samt ef hann reykir röddina í burtu.

Eftir Laugardalinn var svo haldið í Hafnarfjörðinn í DÚNDUR súkkulaðiköku hjá Hermanni. Þvílíkt og annað eins! Voða gaman að hitta þau öll, höfum ekkert sést síðan fyrir Páska. Spurning hvenær næsti hittingur verður, sennilega samt ekki fyrr en um þarnæstu helgi. Svo styttist nú óðum í Danmerkurferðina hjá okkur :)

Ingibjörg fékk nýjan bílstól í gær. Nú er daman orðin svo stór að hún snýr fram. Það er frekar fyndið að sjá hana svoleiðis :) voða mannaleg þar sem hún situr og horfir út um gluggann og fylgist vel með öllu. Við ætluðum að leigja stól en mér leist nú ekkert á það sem var í boði, þannig að það var auðvitað bara keyptur nýr stóll undir bossann á prinsessunni... en ekki hvað?! :)

En það er farið að síga á seinnihlutann hjá mér í kvöld... bið ykkur vel að lifa að sinni.
Guten nacht.

laugardagur, apríl 22, 2006

Hvað er að?!

Ekki skil ég hvað er að mér. Ætli ég sé haldin einhverri sjálfspíningarhvöt eða hvað ætli þetta sé? Ég les núna daglega blogg hjá stúlku sem á dóttur, en hún er hægt og rólega að fjara út en hún er með efnaskiptasjúkdóm. Litla stelpan er á svipuðum aldri og Ingibjörg þannig að ég á það til að hugsa, jiii þetta gæti verið Ingibjörg. Og það þarf ekki að taka það fram að ég græt eftir hverja bloggfærslu. En ég læt þetta ekki nægja, heldur er ég líka að fylgjast með bloggi hjá foreldrum stráks sem hrapaði niður af 4 hæð á Kanarí. Hver veit hvernig það endar.

Svo eru það auðvitað minningargreinarnar í Mogganum sem fara alveg með mig. Ég er ekki áskrifandi en fæ hann núna þar sem mamma og pabbi eru ekki heima. En málið er að þegar ég veit um einhvern ungan eða einhvern sem ég þekkti sem var að deyja, bið ég mömmu um að halda þeim greinum eftir svo ég geti lesið þær. Svo græt ég og græt og líður alveg óskaplega illa. Heimir skilur ekkert í mér, hvað ég sé að kvelja mig á þessu þar sem ég þarf ekkert að lesa þetta. Er ég eitthvað furðuleg?

Jæja, sundið gekk vel í dag. Frökenin er alveg hætt að rífa sig þegar hún er sett í kaf, þannig að nú tekur hún þvílíku dýfurnar og kemur svona næstum því brosandi upp úr :) Eigum fjóra tíma eftir, og held ég að við látum það bara duga, sleppum framhaldsnámskeiðinu.
Ætlum á morgun að fara á Sumarsýninguna í Laugardalshöllinni og ég ætla sko að láta tímann passa þannig að ég sjái hann Snorra syngja!! Hann á að syngja kl. 15 :) Verð svo agalega hissa þegar hann byrjar og á bara ekki til orð hvað við séum heppin að hitta akkúrat á hann, hahahaha :)

En jájá, akkúrat ekkert í sjónvarpinu þannig að ætli ég horfi ekki bara á Aðþrengdar sem ég tók upp á fimmtudaginn og fari svo bara í rúmið.
Góða nótt!


(Finnst þessi blái litur bara nokkuð góður... ætla samt að hafa mismunandi liti :) Þá er það ákveðið!!)

föstudagur, apríl 21, 2006

Sumardagurinn fyrsti

Má eiginlega segja að við höfðum eytt Sumardeginum fyrsta í Smáralindinni og var það bara voða gaman :) Enduðum daginn á Fridays. Held við höfum ekki borðað þar síðan ég var ólétt!! Jammí það var gott.

Fór svo til Jóhönnu og fékk hjá henni danska spennusögu :) Ætli það sé ekki best að fara að rifja upp þessa dönsku sem maður var einu sinni mellufær í. Þau hjónakornin voru á fullu að pakka og bara allt að gerast hjá þeim, enda fara þau líka út núna 30. Jesús ég fæ nú bara í magann við tilhugsunina að fara að pakka... ojjjbarasta. En isss við verðum sjálfsagt fljót að þessu þegar við byrjum. Ég verð allavegna ekki kasólétt eins og í síðustu flutningum :)

Er að klára húfu sem ég var að prjóna á Ingibjörgu, á bara dúskinn eftir. Ég var gjörsamlega búin að gleyma því hvernig ég ætti að gera dúsk, sem er fyndið því þegar ég var krakki var ég alltaf að búa til dúska :) En þetta er nú allt að koma og ég er búin að sníða pappann til.

Jæja hafið það gott um helgina. Veit ekki alveg hvernig helginni verður háttað hjá okkur, allavegna sund á morgun, vinna hjá Heimi og vonandi að hitta Júlíu Rós, Hermann og börn.

1. P.S. Heiða, ég ætlaði bara að láta þig vita að ég get ekki commentað hjá þér... hef ekki getað það í langan tíma?!?! Veit ekkert hvort það sé eitthvað að hjá mér eða þér :)

2. P.S. Er ekki bara svolítið sniðugt að hafa fyrirsagnirnar mismunandi á litinn? Er enn að velta því fyrir mér... Þórey, finnst þér kannski ekki mikil festa í því? Óþægilegt að vita ekki að þær eru alltaf bleikar eða bláar?

fimmtudagur, apríl 20, 2006

8 mánaða

Já Ingibjörg varð 8 mánaða núna 18. Ekki veit ég hvað hefur orðið af þessum tíma, hann hefur gjörsamlega flogið áfram. Og hún er orðin svo dugleg, þessi litla snúlla. Ætla að láta ykkur strax vita að þetta blogg er eingöngu um Ingibjörgu, þannig að fyrir þá sem hafa ekki áhuga að lesa frásögn móður að lofa barnið sitt, geta hætt strax!! Sko, lét ykkur vita :)

En allavegna, hvað haldið þið... hún er sko farin að sofa ALEIN inni í sínu herbergi!! Sver það... er búin að sofa þar síðustu þrjár nætur og gengið þvílíkt vel. Held kannski að þetta hafi verið erfiðara fyrir mig en hana :) og mér stóð eiginlega ekki á sama eftir að hafa horft á Lost þáttinn þar sem Charlie var alltaf að taka barnið. Ég meina hvað ef hún hefði bara verið horfin um morguninn?!?! Maður veit aldrei!
En hún virðist bara sofa vel þarna, við rumskum ekkert við hana fyrr en á morgnanna. Hún vaknar á milli 7 og 8, fær sér þá sopa og leggur sig stundum aðeins lengur, en annars er hún bara í rúminu hjá mér að dúlla sér eitthvað ef mig langar að dorma aðeins lengur :) voða notalegt.

Já það er ótrúlegt hvað hefur gerst á þessum 8 mánuðum. Hún er farin að mjaka sér áfram á maganum, eða reyndar bakkar hún eiginlega bara og snýr sér í hringi. Svo situr hún og ýtir sér úr stað, og skellir sér svo bara á magann ef hún er orðin leið á að sitja. Eftir að hafa skellt höfðinu nokkrum sinnum niður í parketið við þessa iðju, virðist hún hafa lært að gera þetta voða hægt og varlega og passa höfuðið :)

Fimmta tönnin leit svo dagsins ljós í gær. Staðsett nákæmlega í efri góm hægra megin við hliðina á framtönninni :)

Hún er líka voða dugleg að borða og gefur frá sér ánægju hljóð eftir hvern bita, ummmm :) Hún fær nú enn að nærast á móður sinni, en ég er búin að minnka gjafirnar niður í 3 á sólarhring. Svo fer nú að koma að því að þetta hætti. Þetta er bara svo notalegt :) Ég passa reyndar vel upp á að hún sofni ekki, sérstaklega á kvöldin, set hana svo bara yfir í sitt rúm (inni í SÍNU herbergi núna) og þá sofnar hún. Ekkert vesen.

Jæja, segjum þetta gott af fréttum af Ingibjörgu í bili :)


Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn!!

sunnudagur, apríl 16, 2006

Gleðilega Páska

Já og mín yndislega móðir á afmæli í dag, til lukku elsku mamma mín. Nú eru þau að spóka sig um á Tenerif og koma sjálfsagt eins og svertingjar tilbaka. Þau komu aðeins við hjá okkur á miðvikudaginn ásamt Önnu og Þórði en stoppuðu bara stutt því þau gistu í Keflavík. En þau verða svo í nokkra daga í bakaleiðinni svo það verður nú aldeilis fínt. Við Heimir erum búin að plana bæði bíóferð og út að borða :) ætlum á Hafið bláa... mmmm lobster baby!

Erum búin að hafa það gott. Að vísu er ég með einhverja bölvaða pest, full af hori, heyri ekki hálfa heyrn og fleira svona álíka skemmtilegt.
Á Skírdag tókum við okkur rúnt í Grímsnesið og kíktum á nýja bústað tengdaforeldranna, ásamt lóðunum sem þau voru að kaupa þar. Bústaðurinn er æðislegur, heitur pottur og nice. Heimir þurfti svo að vinna á Föstudaginn langa!! En það er Páskamatarveisla í Grímsnesinu á eftir.

Já fyrstu páskarnir hennar Ingibjargar, og hún alveg að verða 8 mánaða! Mamma og pabbi færðu henni auðvitað páskaegg :) ætli hún verði ekki bara mynduð með það og svo endar það ofan í okkur. Reyndar er ég ekkert svo mikið fyrir eggin, finnst skemmtilegast að opna þau og lesa málsháttinn, borða svo innihaldið og smá súkkulaði. Heimir spænir þessu hinsvegar í sig.

Enn og aftur gleðilega páska kæru vinir, og hafið það gott það sem eftir lifir hátíðarinnar.

mánudagur, apríl 10, 2006

Páskar á næsta leyti

Fór niður í geymslu í dag og sótti Páskaskrautið. Þreif svo stofuna og er núna búin að skreyta :) Ingibjörg var agalega spennt yfir öllu dótinu, ætli það hafi ekki verið þessi skæri guli litur sem gleður augað. Hlakka mikið til Páskanna, en finnst nú samt frekar fúlt að mamma og pabbi verða úti. Annars hefði maður nú drifið sig austur.

Verð nú að minnast á eitt... þessa blessuðu veðurfréttakonu á stöð2. Hún er bara ekkert að lagast! Var búin að ákveða að ég ætlaði að gefa henni séns, og mér finnst hún nú aldeilis vera búin að fá tíma til að sanna sig, en nei, hún skánar bara ekki neitt! Greyið konan. Hún er alveg eins og fálki þarna á skjánum.

Jæja höfum þetta gott í dag. Heimir er enn að vinna en kemur nú vonandi í þennan líka eðalfiskirétt sem ég er að fara að matreiða, sem inniheldur meðal annars mozzarella ost, mmmm :)

LOST í kvöld!!

sunnudagur, apríl 09, 2006

Fermingin mín

Nú opnar maður varla blað nema þar sé verið að ræða um fermingar og fólk að rifja upp allt sem viðkom þeirra fermingu. Mér finnst nú alveg makalaust hvað sumir muna hreinlega ekki eftir fermingardeginum sínum og aðrir sem bölva myndunum sem teknar voru á ljósmyndastofu. Ég á bara góðar minningar af mínum degi og fannst allt æðislegt við ferminguna sjálfa. Og ég er enn þeirrar skoðunar og get ekki beðið eftir því að Ingibjörg fermist :) (aðeins 13 ár í það.)

Ég fermdist 1991 heima í Neskaupstað og auðvitað fermdi Svavar mig. (Enda MINN prestur! Hann mun annast allar mínar kirkjulegu athafnir og minna barna, og jarða mig líka ef út í það fer - bara að hafa það á hreinu!!) Ég man að ég ætlaði aldrei að sofna kvöldið fyrir ferminguna og lá og horfði á nýmáluðu veggina í herberginu mínu, og bleiku og svörtu nýju gardínurnar sem mamma setti upp rétt áður en ég fór í rúmið. Mér fannst rosalega hátíðleg athöfnin í kirkjunni og fannst þessi dagur frábær. Veislan auðvitað æðisleg og fékk ég allt fullt af fallegum gjöfum. Allt svo skemmtilegt við þennan dag.

Mér finnst fermingarmyndirnar líka skemmtilegar og finnst ég voða fín :) Ég var með toppinn greiddan upp og svo var hvítum blómum stungið inn á milli, svo var ég með hvítan kamb í annarri hliðinni... gasalega flott semsagt. En ég er ekkert að pirra mig á þessu og bölsótast yfir því hvað ég er í hallærislegum fötum eða hvað hárið á mér var ööömmuurlegt. Svona var bara tískan þá!!

Jæja helgin að verða búin. Heimir búinn að vera vinna alla helgina, var til 8 í gærkvöldi en er sem betur fer væntanlegur á næstu tveimur tímum. Hlakka mikið til Páskanna að geta þá verið saman!

laugardagur, apríl 08, 2006

Snorri Idol

Jiii hvað ég er sátt við úrslitin! Hann stóð sig betur en Ína í gærkvöldi, að mínu mati. Mér fannst hann ÆÐI! Og guð góður þegar hann tók íslenska lagið... jeminn! Drengurinn er líka svo sætur... úffúff. Finnst hann alveg eins og Stebbi Hilmars og það er sko ekki leiðum að líkjast :) Ohh draumur! En það var voða gaman hjá okkur í gærkvöldi, grillmaturinn var þvílíkt góður og allir voru í sínu besta skapi :)

Jæja það er sund á eftir, drottningin er að leggja sig og Heimir er í vinnunni. Hafið það gott í þessu fallega veðri!

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Gærdagurinn - Morgundagurinn - Í dag

Það eru tveir dagar í hverri viku sem við ættum ekki að hafa áhyggjur af.
Tveir dagar sem ættu að vera lausir við ótta og kvíða.

Annar er gærdagurinn... með sínum mistökum og áhyggjum,
göllum og glappaskotum, sínum sársauka og kvölum.
Gærdagurinn er að eilífu liðinn og kominn úr okkar höndum.
Allir peningar heimsins geta ekki gefið okkur gærdaginn aftur.
Við getum ekki tekið til baka það sem við gerðum í gær,
né getum við þurrkað út eitt einasta orð sem við sögðum...
Gærdagurinn er liðinn!

Hinn dagurinn sem við ættum ekki að hafa áhyggjur af er morgundagurinn,
með sínu ómögulega andstreymi, áhyggjum,
sínum vongóðu fyrirheitum og lélegu framkvæmd.
Morgundagurinn er utan okkar seilingar.
Sól morgundagsins mun rísa annaðhvort í heiðskýru
eða bak við skýjabakka, en hún mun rísa.
Og þegar hún gerir það, eigum við ekkert undir deginum,
því hann er enn ófæddur.

Því er aðeins einn dagur eftir "í dag".
Allir geta barist í orrustum eins dags.
Það er aðeins þegar við bætum við áhyggjum gærdagsins
og morgundagsins sem við brotnum saman.
Það er ekki upplifun dagsins í dag sem skapraunar fólki
það er söknuðurinn eftir einhverju sem gerðist í gær
og kvíðinn yfir því hvað morgundagurinn ber í skauti sér.

Lifum því fyrir einn dag í einu.

-Höfundur ókunnur-


Þessi texti finnst mér rosalega flottur!! Ágætt fyrir manneskjur eins og mig sem á það til að skipuleggja aðeins of langt fram í tímann (finnst sumum). Gott að hafa hann á bak við eyrað í amstri dagsins og þegar maður gleymir því að maður fær ekki gærdeginum breytt.

þriðjudagur, apríl 04, 2006

Köben

Jæja þá erum við búin að bóka flug með Júlíu Rós og Hermanni, 1. júní og tilbaka 4. júní. Fengum líka fína íbúð á leigu sem er staðsett á Amager. Held að við Júlía séum búnar að skipuleggja hverja mínútu, eða svona hér um bil :) Á föstudeginum ætlum við Heimir að fara í skólann hans og kíkja í kringum okkur þar, laugardeginum ætlum við að eyða á Strikinu og kíkja á tjúttið um kvöldið, og aldrei að vita nema að sunnudeginum verði líka eytt á Strikinu :) Mig kvíður hinsvegar alveg rosalega fyrir því að fara frá Ingibjörgu, sjá hana ekki í nokkra daga! En það hlýtur að reddast og ætli við höfum ekki bara gott að því, báðar. Mamma kemur suður til að passa nöfnu sína þannig að hún verður í öruggum höndum.

Hvað sagði ég ekki með Idolið?! Jújú Bríet datt út. Nú er spurning hvort ég reynist enn og aftur sannspá, að Ína vinni þetta :) Sé nú Snorra ekki alveg fyrir mér sem einhverja Idol stjörnu. En þetta verður spennandi. Júlía og fjölskylda mætir að sjálfsögðu og ætlum við að grilla og hafa það nice. Hlakka mikið til!

Annars mun ég flytja inn í svefnherbergi í kvöld, eftir 11 daga útlegð! Það hefur gengið vel með maddömuna, þó hún sé kannski eitthvað að vakna yfir nóttina þá sofnar hún fljótt aftur og er ekki með neitt vesen. Næsta skref verður svo að flytja hana yfir í sitt herbergi... hmmm mér finnst það nú samt svolítið stórt stökk!! :)